Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð

Skjalnúmer : 5987

17. fundur 1999
Aðalskipulag Reykjavíkur, breyting á nýtingarhlutfalli
Lagt fram bréf Jóns Sigurjónssonar dags. 10.08.99 varðandi breytingu á nýtingarhlutfalli í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Einnig lagt fram símbréf Arnar Sigurðssonar ark. dags. 19.08.99.
Erindið hlýtur ekki stuðning

8. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lögð fram þemaheftin með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 um húsvernd í Reykjavík og um umferð og umhverfi.
Skipulags- og umferðarnefnd lýsir ánægju sinni með gerð og frágang þemaheftanna.

5. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lögð fram að nýju tvö þemahefti Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016: þemahefti um húsvernd og þemahefti um umhverfi og útivist. Einnig lögð fram bréf umhverfismálaráðs, dags. 13.02.98 og umsögn Borgarskipulags, dags. 19.02.1998.
Samþykkt

4. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðun
Lagður fram að nýju endurskoðaður kafli um miðborgina í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, dags. 6.2.´98.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

3. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðun
Lagður fram að nýju endurskoðaður kafli um miðborgina í Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.
Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir kynnti.
Frestað.


3. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lögð fram að nýju þrjú þemahefti Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016: þemahefti um húsvernd, umferð og umhverfi og umhverfi og útivist.
Þemahefti um umferð og umhverfi samþykkt Björn Axelsson landslagsarkitekt kynnti þemahefti um umhverfi og útivist.
Afgreiðslu þemaheftis um umhverfi og útivist og þemaheftis um húsvernd frestað þar til fjallað hefur verið um málið í umhverfismálaráði.


2. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, umferð og umhverfi, umhverfi og útivist
Lögð fram tvö þemahefti Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016: þemahefti um umferð og umhverfi og þemahefti um umhverfi og útivist.
Frestað. Þemahefti um umhverfi og útivist vísað til umhverfismálaráðs.
Óskar D. Ólafsson lagði fram svohljóðandi tillögu: "Stefnt verði að því að í nánustu framtíð verði fellt inn í samræmt heildarskipulag útivistarsvæða Reykjavíkurborgar skipulag útivistar á Esjunni og í Bláfjöllum. Í þeirri vinnu verði sýnt fram á hvernig tengja megi þessi svæði við Græna vefinn, m.a. með tengingu við stofnstígakerfi Reykjavíkur".


2. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðun
Lagður fram endurskoðaður kafli um miðborgina í Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.


2. fundur 1998
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lagt fram þemahefti Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um húsvernd.
Frestað. Vísað til umhverfismálaráðs.

16. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 22.07.97 á bréfi skipulagsstjóra frá 16.07.97 um breytingu á greinargerð með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.


19. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Kynning á stöðu vinnu þemahefta um umferð og umhverfi og umhverfi og útivist.


15. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Kynning á verkáætlun þemahefta um umferð og umhverfi og umhverfi og útivist - (heildarskipulag útivistarsvæða/græni vefurinn).


8. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. 17.04.97, varðandi hljóðvist í íbúðarhúsnæði. Borgarverkfræðingur og Ólafur Bjarnason, yfirverkfræðingur gerðu grein fyrir málinu og kynntu hugmyndir um úrbætur. Ennfremur lagt fram bréf Jóns Benjamínssonar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur dags. 16.4.97. um doktorsritgerð Karin Steinecke við háskólann í Essen, útg. 1995.


5. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Kynnt hljóðmengunarkort úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.



5. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd lögðu fram eftirfarandi svar við fyrirspurn sem lögð var fram á fundi nefndarinnar 24. febrúar s.l.

Sjálfstæðismenn telja ekki skynsamlegt að hætta við Hlíðarfót, ekki síst með vísan til þess að í tillögu að aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þá er einnig nauðsynlegt að tryggja góð umferðatengsl við fyrirhugaða flugstöð við Nauthólsvík.

Við vísum til skýrslu Aflvaka hf um framtíðariðnaðarsvæði í Reykjavík, en þar var bent á nokkur hugsanleg svæði fyrir iðnað og athafnasvæði, svo og í fyrirhugað samstarf milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um hafnarstarfsemi í Eiðsvík og Straumsvík. Formaður skipulags- og umferðarnefndar hefur lýst því yfir að í Geldinganesi verði blómarækt og borgarstjóri hefur sagt að í Geldinganesi sé gert ráð fyrir samskonar starfsemi og á Ármúlasvæðinu. Við teljum önnur svæði heppilegri fyrir blómarækt og verslunarstarfsemi heldur en Geldinganes.

Svar formanns skipulags- og umferðarnefndar:
Niðurlagning Hlíðarfótar er liður í þeirri stefnu meirihlutans að bæta umhverfi og tengja saman mikilvæg útivistarsvæði í borginni. Auk þess kom Hlíðarfótur í veg fyrir að hægt væri að friða Fossvogsbakka, sem eru verðmætar náttúrminjar. Fyrirhuguð flugstöð, sbr. skipulag, er góðu heilli ekki við Nauthólsvík heldur töluvert norðar nær samgönguæðum.

Í skýrslu Aflvaka hf um framtíðariðnaðarsvæði í Reykjavík er Geldinganesið talið langbesti kosturinn vegna nálægðar við höfn. Ekkert annað svæði stenst þar samanburð.
Það er rétt að bæði borgarstjóri og undirrituð hafa lagt á það áherslu að á Geldinganesi geti komið hvort tveggja, íbúðabyggð og athafnasvæði, sbr. Gylfaflöt og Ármúlahverfið eins og það var skipulagt. Ylrækt hverskonar kæmi þar vel til greina eins og raunar hefur verið til umræðu. Reykjavíkurborg þarf að geta brugðist við eftirspurn eftir atvinnulóðum til að halda áfram uppbyggingu öflugs atvinnulífs. Þá dugir ekki að vísa á lóðir í Hafnarfirði.


4. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Formaður lagði fram svohljóðandi fyrirspurn til fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og umferðarnefnd vegna bókana í AR 1996-2016:

1. Hver er afstaða minnihlutans til þess að hætta við lagningu Hlíðarfótar milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur?
2. Hvar telur minnihlutinn að svæði fyrir atvinnustarfsemi, sem þarfnast mikils rýmis og góðra tengsla við meginumferðaræðar, skuli vera innan borgarmarkanna?
Skriflegra svara óskað.


3. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd lögðu fram svofellda fyrirspurn:

"1. Í bókun meirihluta skipulagsnefndar kemur fram að nánari útfærsla við lagningu stokks á Miklubraut verði gerð þegar deiliskipulagsvinna fer fram. Óskað er upplýsinga um núverandi hæðarsetningu Miklubrautar móts við Rauðarárstíg, ásamt hæðarsetningu á götu undir brú þeirri sem þegar er komin og Miklubraut mun tengjast skv. núverandi tillögu að aðalskipulagi.
2. Fullyrt er í bókuninni að flugbraut 07-25 sé veikasti hlekkurinn í öryggi Reykjavíkurflugvallar, óskað er eftir nánari skýringum á þeirri staðhæfingu.
3. Því er haldið fram í bókun meirihluta skipulags- og umferðarnefndar að aðkoma að nýrri flugstöð sé ágætlega tryggð með núverandi gatnakerfi. Áætlað er að í framtíðinni fari um 500.000 manns um flugstöðina á ári, það er því útúrsnúningur að segja að núverandi gatnakerfi tryggi þessa aðkomu ágætlega, ekki er betur séð en verið sé með markvissum hætti að einangra Reykjavíkurflugvöll með niðurfellingu Hlíðarfótar. Óskað er eftir nánari skýringu á hvernig tryggja eigi aðkomu að fyrirhugaðri flugstöð.
4. Í fyrrnefndri bókun er minnst á framsækna stefnu R-listans í holræsamálum. Ef þessi framsækna stefna felst í öðru en tæplega 600 millj. kr. árlegum holræsaskatti á borgarbúa, þá er óskað eftir nánari vitneskju um þessa
framsæknu stefnu.
5. Í núverandi tillögu að aðalskipulagi er gert mikið úr stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Er einhver grundvallarmunur á því stígakerfi sem nú er gert ráð fyrir í tillögum að aðalskipulagi og þeim sem sýndir eru í gildandi aðalskipulagi?
Skriflegra svara óskað."
Svör við spurningu D-lista varðandi Aðalskipulag Reykjavíkur:
1. Verður svarað á næsta fundi.
2. Í skýrslu Samgönguráðuneytis frá 1991, Reykjavíkurflugvöllur - sambýli flugs og byggðar - bls. 61-62 segir svo m.a. "Brautarbrun og flugtak er til norðausturs og liggur yfir geðdeild Landspítala og hluta Norðurmýrar. Gagnvart slysum sem geta orðið innan viðmiðunarbeltis 07/25 liggja eftirtalin mannvirki:
· Geðdeild Landspítalans
· 103 íbúðarhús í Norðurmýri
· Tannlæknadeild Háskóla Íslands.
· Sex byggingar neðan Vatnsmýrarvegar.
· Hótel Loftleiðir
· Olíu- og gasbirgðastöð Skeljungs hf. Í Skerjafirði.
· 17 íbúðarhús á Skildinganesi.
(Rétt er að geta þess að Olíu- og gasbirgðastöðin er á förum)
Lokaaðflug að brautinni liggur af Sundunum yfir Túnin, Rauðarárholt og Norðurmýri.
Öryggisbúnaður á þessari braut er ekki í samræmi við alþjóðastaðla og í áætlunum um endurbætur á flugvellinum, sem nú hefur því miður verið frestað, var ekki gert ráð fyrir endurbótum á þessari braut. Henni hefur alltaf átt að loka. Á bls. 70 í sömu skýrslu stendur: "Að öllu samanlögðu verður að telja að mest áhætta sé tekin við notkun NA/SV-brautar og að tvímælalaust beri að loka henni. Auk þess sem brautin hefur hverfandi vægi í notagildi flugvallarins".
3. Aðkoma að fyrirhugaðri flugstöð verður sú hin sama og nú er að flughótelinu (Loftleiðir) um leið og aðkoman verður gerð greiðari og hún bætt. Aðkoma að innanlandsflugstöð verður mun betri en hún er nú.
4. Stefna Reykjavíkurlistans í frárennslismálum kemur fram á bls. 121 í greinargerð með A.R. og í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 1997. Þegar þeirri áætlun er lokið á að vera hægt að uppfylla öll þau markmið sem að er stefnt í reglugerð um mengunarvarnir.
5. Göngu- og hjólreiðastígar eru nú í fyrsta sinn hluti af umferðarkerfinu. Aðalstígakerfið hefur verið endurflokkað í stofnstíga og tengistíga. Megin markmiðið er að efla hlut göngu- og hjólreiðastíga í umferðarkerfinu og til að styrkja tengingu milli opinna svæða og byggðar er lögð áhersla á að bæta umgjörð helstu göngu- og hjólreiðaleiða sem liggja um borgarlandið. Hinsvegar er ekki grundvallar munur á legu stíganna.


3. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 27. jan. s.l. varð það niðurstaða nefndarinnar eftir umfjöllun um aðalskipulagið að leggja til við borgarráð að óska eftir heimild til að auglýsa aðalskipulagstillöguna samkv. 17. og 18. gr. skipulagslaga, sbr. bókun borgarráðs 4. febrúar.


2. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Formaður skipulags- og umferðarnefndar lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Vegna umræðna á fundi skipulags- og umferðarnefndar 27. jan. um umferðarþátt AR leggur nefndin áherslu á að við hönnun Kleppsvíkurtengsla og endurbóta á Sæbraut verði tekið fullt tillit til stefnumörkunar nefndarinnar um að sporna eins og kostur er gegn óheftri aukningu umferðar á Miklubraut."
Samþykkt með 4 samhlj. atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

2. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lagt fram handrit að greinargerð, dags. 22.01.97 og landnotkunarkort, dags. 22.1.97. dags. 22.01.97. Einnig yfirlit yfir skipulagstölur og umferðarspá fyrir höfuðborgarsvæðið, dags. 17.1.97, yfirlit yfir helstu ábendingar frá nefndum og ráðum um greinargerð AR 1996 og breytingar á landnotkunarkorti AR 1996.

Lögð fram breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á drögum að AR 1996-2016:
"Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að Geldinganesið verði íbúðasvæði og að í greinargerð með aðalskipulagi komi fram að Geldinganesið verði skipulagt með hliðsjón af tillögum þeim, sem verðlaun hlutu í samkeppni sem fram fór um skipulag svæðisins fyrir nokkrum árum síðan. Samþykkt þessi felur í sér að fallið er frá hugmyndum um að Geldinganesið geti byggst upp sem athafnasvæði. Í samræmi við samþykkt þessa verður þeim köflum í greinargerð með aðalskipulagi Reykjavíkur, sem fjalla um Geldinganesið sem framtíðar athafnasvæði, breytt eða lagfærðir. Jafnframt verður landnotkunarkorti breytt til samræmis við þessa samþykkt og hafnarsvæði sem þar er sýnt í Eiðsvík minnkað þannig að það verði ekki stærra en núgildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir. Jafnframt felur þessi samþykkt í sér að Sundabraut verði færð í fyrra horf en skeri nesið ekki sundur eins og nýjasta tillagan að landnotkunarkorti gerir ráð fyrir.
Greinargerð:
Geldinganesið er án efa eitt besta byggingarland sem eftir er innan landamarka Reykjavíkur. Svæðið er fallegt, liggur vel við öðrum íbúðahverfum og hefur marga aðra kosti, sem rækilega er lýst í forsendum að niðurstöðum dómnefndar í samkeppni þeirri um skipulag svæðisins sem áður er vitnað til. Hvort sem litið er til samgangna, orkuöflunar eða legu lands er ekki hægt að fullyrða að Geldinganesið hafi margt umfram aðra kosti sem til greina koma sem framtíðar athafna- eða iðnaðarsvæði Reykjavíkur. Sérstaklega þegar haft er í huga að með auknu samstarfi Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar opnast margir nýir möguleikar fyrir bæði sveitarfélögin. Það er ábyrgðarhluti að gera áætlanir um að byggja upp athafnasvæði fyrir stór iðnfyrirtæki nánast í bakgarði þeirra Reykvíkinga, sem hafa keypt sér íbúðalóðir á Grafarvogssvæðinu, margir hverjir í trausti þess að á Geldinganesinu verði íbúðabyggð."
Breytingartillagan felld með 4 atkvæðum gegn 2.
Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisfl. um frestun á afgreiðslu AR 1996-2016.
Lögð fram frávísunartillaga fulltrúa Reykjavíkurlistans á frestunartillögu fulltrúa Sjálfst.fl.
Samþykkt með 4 atkv. gegn 2.
Landnotkunarkort og greinargerð AR 1996-2016, samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2.

Skýrslu um skipulag Miklubrautar frestað og kaflanum um loft- og hávaðamengun vísað til heilbrigðisnefndar.

Eftirfarandi bókun fulltrúa Reykjavíkurlistans lögð fram:
"Eins og fram kemur í inngangi greinargerðar AR 1996-2016 er í þessari skipulagsáætlun lögð áhersla á að sveigja skipulagið svo sem frekast er kostur að þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að á sviði umhverfismála. Þetta leiðir m.a. til breyttra áherslna í umferðarmálum. Gengið er út frá því í áætluninni að dregið sé úr forgangi einkabílaumferðar gagnvart almenningssamgöngum og hjólandi- og gangandi umferð. Kannanir sýna að umferð einkabíla hér í borg er á við það sem gerist í 300.000 manna bæjum í nágrannalöndunum. Ástæður til þessa eru margslungnar og ljóst að leita þarf fjölþættra leiða ef takast á að breyta þessari mynd. Á hitt ber að líta að mengun sem af bílaumferð stafar er orðin veruleg í Reykjavík bæði hvað snertir hávaða- og loftmengun. Óhöpp og slys af völdum umferðar eru mörg, sársaukafull og dýr samfélaginu.
Það er ekki á færi Reykjavíkurborgar einnar að glíma við þessi vandamál þótt viljinn sé fyrir hendi. Hér þarf að koma til samstillt átak ríkis, borgar og fólksins sjálfs, sem borgina byggir.
Lífsvenjur fólks breytast ekki í einni svipan. Hins vegar teljum við að okkur beri skylda til að stíga fyrstu skrefin í átt til þess að sporna við óheftri aukningu einkabílaumferðar í borginni. Þess vegna er í þessu aðalskipulagi aðeins gert ráð fyrir tiltölulega lítilli aukningu á umferðarrýmd vestan Elliðaáa. Við leggjum hins vegar áherslu á að aðalgatnakerfið verði lagfært til muna í því skyni að fækka umferðarslysum og draga úr mengun. Í nánum tengslum við afgreiðslu Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 og fyrir vorið 1997 verður lokið við gerð og samþykkt áætlun um 20% fækkun slysa af völdum umferðar í Reykjavík. Á sama hátt verður unnið að áætlun um úrbætur í sambandi við hávaða- og loftmengun í borginni fyrir aldamót. "

Eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins lögð fram:
"Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru mótfallnir þeirri tillögu sem fulltrúar R-listans hafa lagt fram í skipulags- og umferðarnefnd um uppbyggingu Miklubrautar sem er meginumferðaræðin í gatnakerfi Reykjavíkurborgar. Það er til marks um hve tillaga R-listans hvílir á veikum grunni að allir fulltrúar hans í skipulags- og umferðarnefnd kynntu í upphafi sérstakar bókanir, sem eru í mótsögn við það sem þeir leggja til að gert verði. Sérstaklega virðast þeir eiga erfitt með að gera upp við sig hvort gatnamót við Kringlumýrarbraut verði ljósastýrð eða mislæg. Sjálfstæðismenn leggja til að valinn verði svokallaður valkostur II, sem er arðbærasti valkosturinn, með þeirri breytingu þó að Miklubrautin verði ekki lögð í röri eða stokk vestast en að gatnamót við Kringlumýrarbraut og Skeiðarvog verði mislæg.
Mislæg gatnamót eru besti kosturinn þegar tekið er tillit til umferðaröryggis. Þjónustustig á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar er óviðunandi miðað við núverandi umferð og mun fara versnandi þegar umferð vex. Verði þjónustustig þessara gatnamóta ekki aukið mun umferð leita annað og þá inn í nærliggjandi íbúðarhverfi. Tillaga sem felur slíkt í sér er óásættanleg.
Lagning Miklubrautar í stokk eða rör frá Stakkahlíð eða frá Reykjahlíð og að Snorrabraut dregur úr hávaða og loftmengun við götuna. Það er þó hætt við að þótt slíkar tillögur leysi sum vandamál að þá verði önnur til í staðinn. Verði gatan lögð í stokk frá Stakkahlíð mun aðgengi að Hlíðunum versna og umferð flytjast á íbúðargötur og draga úr umferðaröryggi inni í hverfunum. Stuttur stokkur eða rör frá Reykjahlíð leysi einungis mengunarvandamál fyrir örfáa og hætt er við að vandamálin er rörið skapaði yrðu mun meiri. Taka þarf Miklubrautina niður löngu áður en hún rennur í rörið og því yrði mynduð gjá við Miklatún. Slík lausn fer illa í landinu og aðgengi að Miklatúni versnar. Leita þarf annara lausna til þess að leysa mengunarvandamál við Miklubraut hvort sem slikar lausnir fela í sér að Reykjavíkurborg þurfi að kaupa upp stóran hluta þeirra íbúða sem að götunni liggja eða ekki.
Að lokum telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki ásættanlegt að taka ákvörðun í þessu mikilvæga máli fyrr en endanlegar upplýsingar eða útreikningar liggja fyrir frá borgarverkfræðingi um hversu mikill munur er á umferðaröryggi eftir því hvaða lausn eða tillaga verður fyrir valinu."

Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
"Sú breyting sem m.a. er gerð á aðalskipulaginu, að hætta við lagningu Hlíðarfóts hlýtur að vera mjög vafasöm m.t.t. heildarskipulags gatnakerfis borgarinnar og samþykkts deiliskipulags af flugvellinum, sem gerir ráð fyrir Hlíðarfæti sem einni aðalaðkomuleiðinni að fyrirhugaðri flugstöð Reykjavíkurflugvallar. Það er augljóst að þó að Hlíðarfótur tengist ekki fyrirhugaðri Fossvogsbraut þá myndi hann létta á umferð á leið til Garðabæjar og Hafnarfjarðar, úr mið- og vesturbæ Reykjavíkur. Í stað þess er þessari umferð beint í gegnum íbúðarhverfi með tilheyrandi slysahættu, hávaða og loftmengun fyrir íbúa þessara hverfa.
Afleiðing þess að hætta við lagningu Hlíðarfóts hlýtur m.a. að vera sú að finna verður nýrri flugstöð og þjónustubyggingum tengdum henni nýja staðsetningu. Kynnt hefur verið tillaga um flutning flugstöðvar nær miðborg Reykjavíkur, slíkar hugmyndir eru algjörlega í mótsögn við yfirlýsta stefnu R-listans varðandi umhverfismál, mikil umsvif tengjast ætíð flugstöðvum og þeim fylgir umferð bæði flugvéla og bíla með tilheyrandi hávaða og mengun.
Staðsetning nær miðborginni gæti verið mjög afdrifarík fyrir nærliggjandi íbúðabyggð og stærstu sjúkrastofnun landsins sem er í næsta nágrenni. Ríkjandi vindáttir gera það einnig að verkum að hávaði og mengun berast auðveldlega yfir miðbæ Reykjavíkur við þessa staðsetningu flugstöðvar. Við ákvörðun þeirrar staðsetningar flugstöðvar, sem núverandi deiliskipulag gerir ráð fyrir við Hlíðarfót var m.a. gert ráð fyrir sem minnstri truflun fyrir borgarbúa af rekstri flugstöðvar hvað umhverfismengun varðar.
Í drögum að aðalskipulagi stendur að Reykjavíkurflugvöllur skuli verða örugg miðstöð fyrir áætlanaflug innanlands. Þær tillögur sem hafa verið uppi, um að leggja braut 0725 niður er í mikilli mótsögn við allt tal um öruggt innanlandsflug, því með þeirri ákvörðun fækkkar mögulegum flugrekstrardögum um allt að 10-15 daga á ári.
Við lýsum okkur mótfallna því að aðalskipulag Reykjavíkur sé vísað til borgarráðs fyrr en fyrir liggur skýrsla um hagkvæmni Reykjavíkurflugvallar sem hefur verið í vinnslu undanfarið. Niðurstöður þessarar skýrslu sem kynna á einhverja næstu daga hljóta að vera forsendur áframhaldandi vinnu við skipulag flugvallarins."

Bókun meirihluta skipulags- og umferðarnefndar vegna bókunar minnihluta varðandi AR 1996 - 2016.
I. Tillaga okkar varðandi útfærslu á Miklubraut í AR er byggð á skýrslu og mjög nákvæmri úttekt á Miklubraut sem unnin er í samræmi við sambærilegar forsendur í umferðarskipulagi og verið hefur, þó með þeirri undantekningu að kostnaður vegna slysa hefur verið þrefaldaður til samræmis við nýja staðla sbr. staðla í nágrannalöndum okkar og nýlegum útreikningum Hagfræðistofnun H.Í.
Það liggur því fyrir hversu mikill munur er á umferðaröryggi eftir því hvort gatnamót eru mislæg eða í "plani".
Mislæg gatnamót inni í íbúðarhverfum í nágrenni miðbæjar eru ákaflega vandleyst sérstaklega hvað varðar umhverfissjónarmið. Þau hljóta að vega þungt í afstöðu okkar, sérstaklega þegar fram kemur að lítill munur er á umferðaröryggi í lausnum I og II. Að auki má benda á að uppsetning rauðaksturs myndavéla á þessum gatnamótum sem talið er geta fækkað slysum um þriðjung. Þessi ljós verða tekin í notkun nú í vikunni. Kostnaðarmismunur á útfærslu I og II nemur milli 400 og 500 millj. króna sem hlýtur ennfremur að hafa áhrif á niðurstöðu okkar.

II. Varðandi lagningu Miklubrautar í stokk að vestanverðu er veruleg bót fyrir þau hús sem nú búa við mestu loft og hávaðamengun og eykur til muna aðgengi að útivistarsvæðinu á Miklatúni, ekki einungis fyrir næsta nágrenni heldur fyrir allt íbúðasvæðið. Skv. tillögunni verður til grænt svæði þar sem nú er stór og fjölfarin umferðaræð. Nánari útfærsla á þessum göngum bíður svo deiliskipulags sem unnið verður í samráði við íbúa.

III. Það er á misskilningi byggt að bíða þurfi eftir skýrslu um Reykjavíkurflugvöll sem nú er verið að vinna í samræmi við yfirvöld flugmála. Sú skýrsla er undirbúningur undir fyrirhugaðar endurbætur á flugbrautum og flughlöðum og umfangsmiklum jarðvegsskiptum sem þeim fylgir. Niðurstaða þeirrar vinnu og þess umhverfismats sem ráðist verður í í kjölfarið geta kallað á endurskoðun deiliskipulags flugvallarins frá 1986, ekki síst ef sú ákvörðun verður tekin að fella niður flugbraut 07-25 sem er veikasti hlekkurinn í öryggi flugvallarins, enda er sú braut ekki nýtt nema í algjörum undantekningartilvikum (sjá áhættumatsskýrslu samgönguráðuneytisins frá 1991).
Vísað er á bug fullyrðingum um að niðurlagning Hlíðarfótar sé í mótsögn við yfirlýsta stefnu Reykjvíkurlistans í umhverfismálum. Hlíðarfótur eins og hann var fyrirhugaður sker í sundur mikilvæg útivistarsvæði þ.e. tengsl Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur, en Nauthólsvíkursvæðið mun fljótlega gegna mun meira hlutverki nú þegar framsækin stefna Reykjavíkurlistans í holræsamálum fer að skila árangri. Hlíðarfóturinn kom jafnframt í veg fyrir að hægt væri að vernda og friðlýsa Fossvogsbakka sem eru mikilvægar náttúruminjar.
Aðkoma að nýrri flugstöð er ágætlega tryggð eftir núverandi gatnakerfi. Vísað er til hugmynda sem embættismenn vörpuðu fram um möguleika á nýrri staðsetningu flugstöðvar og dregnar af honum ályktanir. Slíkt er engan veginn tímabært og er því ekki svara vert.
Varðandi Geldinganesið vísum við til greinargerða með aðalskipulagi bls. 29 en þar kemur fram að þegar til framtíðar er litið er "Geldinganes - Eiðsvík besti kosturinn til að byggja upp stórt samfellt athafnahverfi og þjónustu í tengslum við flutninga- og iðnaðarhöfn og þjóðbraut til og frá borginni". Hvergi annars staðar er að finna 10 ha. eða stærri lóðir í tengslum við höfn. Það er því nauðsynlegt að taka nesið frá til að geta brugðist við og nýtt sóknarfæri í atvinnuuppbyggingu í borginni. Að sjálfsögðu þarf athafnastarfsemi á svæðinu að samrýmast ströngum kröfum um umhverfisvernd. Það er fráleitt að vísa umsóknum um stórar atvinnulóðir til Hafnarfjarðar. Gert er ráð fyrir íbúðahverfi á austasta hluta nessins og flutningi Kleppsvíkurtengingar frá íbúðahverfinu í Borgarholti sem bætir mjög umhverfi við Leirvoginn.
Í þessu aðalskipulagi er lögð áhersla á að styrkja samspil borgar og náttúrulegs umhverfis í samræmi við stefnu Reykjavíkurlistans, sem telur að umhverfismálin séu mikilvægasti málaflokkur framtíðar. "


1. fundur 1997
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Kynntar skipulagstölur og rætt um gatnakerfi og umferðarþátt aðalskipulags o.fl.

Formaður skipulags- og umferðarnefndar lagði fram svofellda tillögu meirihlutans:
"Vegna umferðarskipulags á Miklubraut samþ. skipulags- og umferðarnefnd að fylgt verði í meginatriðum tillögu I með þeirri undantekningu þó, að mislæg gatnamót við Skeiðarvog verði sýnd á skipulagstímabilinu. Um önnur mislæg gatnamót fyrir bílaumferð verði ekki að ræða á skipulagstímabilinu. Tekið verði frá helgunarsvæði á Miklubraut/Kringlumýrarbraut eins og áður og þess getið í greinargerð aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd leggur áherslu á að vanda þarf hönnun umferðarmannvirkja til að þau falli sem best að landi. Í ljósi niðurskurðar ríkisins til þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu er lögð áhersla á að gatnamót Skeiðarvogs/Miklubrautar verði lagfærð hið fyrsta skv. þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið í nefndinni."
Guðrún Zoega lagði til að tillögu meirihlutans verði frestað og var það samþykkt samhljóða.


28. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, þemahefti
Lagðar fram ábendingar nefnda og ráða varðandi greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016. Ennfremur kynnt eftirfarandi:
* Staða vinnu við aðalskipulagið.
* Helstu breytingar á landnotkun.
* Landnotkun á Geldinganesi.



24. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, athugasemdir
Lagt fram yfirlit um ábendingar og athugasemdir nefnda og ráða við greinargerð aðalskipulags.



22. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Lögð fram greinargerð A. R. 1996-2016, dags. 16.10.96 (handrit) ásamt tillögu að landnotkunarkorti.



21. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, staða vinnu
Rætt um framvindu vinnu við Aðalskipulag Reykjavíkur.



13. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, athugasemdir
Lagðar fram og athugaðar þær athugasemdir, sem fram hafa komið um endurskoðun A.R.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í skipulagsnefnd óskuðu bókað:
"Vinna við A.R. hefur staðið yfir í tæp 2 ár. Aðalskipulag er stefnumarkandi áætlun sem tekur til flestra þátta borgarsamfélagsins. Því þykir rétt á þessu stigi að kynna þessa vinnu fyrir nefndum og ráðum borgarinnar. Að þeirri kynningu lokinni verður gengið endanlega frá skipulaginu og kynnt almenningi í samræmi við skipulagslög.
Í þessu aðalskipulagi eru þær breytingar helstar frá fyrra skipulagi að megináhersla er lögð á gott umhverfi sem er rauður þráður í öllum þáttum þess. Mikilvægur liður í því eru breyttar áherslur í samgöngumálum þar sem einn þáttur umferðar er ekki látinn vera allsráðandi heldur reynt að ná jafnvægi milli allra þátta hennar. Þess vegna er nú horft á hjólandi og gangandi umferð sem hluta af samgöngukerfinu. Ekki er gert ráð fyrir aukinni umferðarrýmd og hætt er við lagningu Hlíðarfótar. Borgarvernd fær hér aukið vægi bæði hvað snertir byggð og umhverfi. Atvinnusvæði í borginni eru að verða uppurin og í borginni eða á höfuðborgarsvæðinu þarf að vera til stórt, samfellt atvinnusvæði til framtíðarnota. Geldinganesið er það svæði innan borgarmarkanna sem uppfyllir að mörgu leyti best skilyrði um stórt samfellt atvinnusvæði. Á þessu stigi er þó ekki ástæða til að taka endanlega ákvörðun um hvort svæðið verði í framtíðinni nýtt fyrir íbúða- eða atvinnustarfsemi. Í endurskoðuninni er því gert ráð fyrir að svæðið verði auðkennt sem svæði til síðari nota fyrir annað hvort íbúðar- eða athafnastarfsemi."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd óskuðu bókað:
"Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru andvígir landnotkunarbreytingu á Geldinganesi. Við teljum að ekki hafi komið fram nægilegar röksemdir fyrir því að breyta þurfi þessu fallega byggingasvæði í athafnasvæði. Jafnframt erum við andvíg því að Geldinganesið verði sundurgrafið í þeim tilgangi að ná í grjót. Við leggjum áherslu á að þessi skoðun okkar komi fram, þegar skipulagsdrögin verða kynnt í nefndum borgarinnar."


12. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Lagður fram endurskoðaður texti að landnotkun og nýtingu, dags. 20.05.96 og endursk. texti um borgarvernd og húsvernd, dags. 17.5.96.



11. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
1. Bjarni Reynarsson, Borgarskipulagi, skýrði frá stöðu endurskoðunar AR og næstu skrefum. Lögð fram drög að texta Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016.
- Kl. 10.30 tók Guðrún Ögmundsdóttir sæti á fundinum.
2. Farið yfir tillögur að texta um landnotkun, borgarvernd o.fl. kafla í handriti að greinargerð með AR 1996-2016.
Formaður skýrði frá því að á næsta fundi skipulagsnefndar, 20. maí, verða lögð fram endurskoðuð drög að greinargerð með AR 1996-2016 og að athugasemdum við þau verði að skila í síðasta lagi á skipulagsnefndarfundi 3. júní n.k.


8. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Lögð fram drög að eftirtöldum köflum aðalskipulags Reykjavíkur:
- Uppeldi, menning, og félagsmál, dags. 15.4.'96.
- Húsvernd í Reykjavík, dags. 26.3.'96.



6. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, umferð um Vesturhöfn
Lagt fram minnisblað umferðardeildar um umferð í Vesturhöfn og á Mýrargötu, dags. 14.3.96. Ennfremur lögð fram álitsgerð Gunnars Inga Ragnarssonar, Vinnustofunni Þverá, dags. 27.2.96, um aðalskipulag í Örfirisey og umferðarsköpun.



3. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, byggðaþróun og landnotkun
Lögð fram drög að köflum um byggðaþróun og helstu breytingar á landnotkun í greinargerð með aðalskipulagi Reykjavíkur.



3. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, umferð um Voga- og Heimahverfi
Lagt fram bréf Foreldra- og kennarafélaga Voga- og Langholtsskóla, dags. 19.1.96, varðandi umferð um Voga- og Heimahverfi og úrbætur í þeim efnum.



1. fundur 1996
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Lögð fram áætlun um kynningar á vinnslu Aðalskipulags Reykjavíkur.



23. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur, hverfakort, deiliskipulag og ný byggðasvæði
Bjarni Reynarsson aðstoðarforstöðumaður Borgarskipulags, kynnti stöðu skipulagsvinnu.



21. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Lagt fram bréf Óskars D. Ólafssonar með athugasemdum um markmið og leiðir í umferðarþáttum aðalskipulags, dags. 10.09.95

Vísað til meðferðar við endurskoðun aðalskipulags.

20. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Aðalskipulag Reykjavíkur, umferðarþáttur. Umræður um stefnumörkun í umferðarmálum.

Vegna þessa liðar voru boðaðir til fundarins varafulltrúar í skipulagsnefnd, aðalfulltrúar frá umferðarnefnd og forstjóri SVR.
Bjarni Reynarsson aðst.forst.m. Borgarskipulags og Hafdís Hafliðadóttir arkitekt kynntu tillögur Borgarskipulags um markmið og leiðir í umferðarmálum. Eftirfarandi gögn voru lögð fram sem grundvöllur umræðna:
1. Kynningar á umferðarmálum og umferðarþætti aðalskipulags.
Skipulagsnefnd (yfirlit), dags. 24.8.1995.
2. Tillaga Borgarskipulags um markmið og leiðir í umferðarmálum, dags. 1. sept. 1995.
3. A.R. 1990-2010 markmið og leiðir í umferðarmálum.
4. Aðalskipulag-umferðarskipulag, borgarverkfræðingur, dags. 30.8.1995.
5. Svör borgarverkfræðings við 4 spurningum Borgarskipulags um umferðar- og gatnamál, dags. 30.8.1995.
6. Svör umferðardeildar borgarverkfræðings við 6 spurningum Borgarskipulags um ástand og þróun umferðar, dags. 31.8.1995.
7. Vegaáætlun 1995-1998 - höfuðborgarsvæðið, dags. 6. maí 1995 (tafla).

Fundarmenn skili inn athugasemdum við tillögum Borgarskipulags um markmið og leiðir í umferðarþætti aðalskipulags fyrir næsta fund skipulagsnefndar.


15. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Kynnt staða endurskoðunar aðalskipulags Reykjavíkur, umferðarþáttur.

Formaður skipulagsnefndar flutti inngang um markmið með umferðarskipulagi, en síðan kynntu eftirtaldir umferðarþætti aðalskipulags:
1. Hvernig hefur verið staðið að umferðarþætti við endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur? Gildandi aðalskipulag. Bjarni Reynarsson
2. Umferðarþáttur í endurskoðun aðalskipulags o.fl. Stefán Hermannsson.
3. Þróun og ástand umferðatmála. Helstu vandamál. Reiknilíkan umferðar. Baldvin Baldvinsson.
4. Arðsemiskannanir á stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins og "konsekvens greiningar". Ólafur Bjarnason.
5. Framkvæmdaáætlanir á stofnbrautakerfi - vegaáætlun - langtímaáætlun. Stefán Hermannsson.
6. Nýjar áherslur í umferðarmálum. Hvernig er hægt að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar og draga úr væntanlegri aukningu umferðar. Þorvaldur S. Þorvaldsson, Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir og Hafdís Hafliðadóttir.


14. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Ingibjörg Kristjánsdóttir, Björn Axelsson, Ólafur Brynjar Halldórsson og Hafdís Hafliðadóttir kynntu stöðu endurskoðunar Aðalskipulags Reykjavíkur hvað varðar umhverfismál og Austursvæði. Að kynningu lokinni voru fyrirspurnir og svör.

11. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur, stofnkostnaður
Borgarverkfræðingur kynnir athuganir á stofnkostnaði við byggðasvæði á Austursvæðum.

Lagt fram mat á stofnkostnaði og röð uppbyggingar við Austursvæðin, dags. í maí 1995.

10">10. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Lögð fram vinnuáætlun vegna endurskoðunar Aðalskipulags Reykjavíkur, dags. 2.5.95, og minnisblað um Austursvæði, dags. 26.4.95. Bjarni Reynarsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir skýrðu málið.



1. fundur 1995
Aðalskipulag Reykjavíkur, vinnuáætlun
Lögð fram endurskoðuð vinnuáætlun Aðalskipulags Reykjavíkur 1994-2014 og skýrsla Hagstofu Íslands um mannfjölda í Reykjavík 1. des. 1994.



21. fundur 1994
Aðalskipulag Reykjavíkur, áætlun um hjólreiðastíga
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 27.09.94 á bókun skipulagsnefndar frá 26.09.1994 um áætlun um hjólreiðastíga.



20. fundur 1994
Aðalskipulag Reykjavíkur, áætlun um hjólreiðastíga
Lögð fram svofelld bókun: "Áætlun um úrbætur fyrir hjólreiðafólk og hreyfihamlaða í Reykjavík.

"Í samræmi við samþykkt borgarráðs 12. apríl 1994 á tillögum s.k. hjólreiðanefndar, dags. 29. mars 1994, leggur skipulagsnefnd til að hraðað verði eftir föngum áætlanagerð um úrbætur fyrir hjólaumferð og umferð hreyfihamlaðra í borginni, þannig að hægt verði að framkvæma helstu úrbæturnar á næstu þremur árum. Þessi áætlun verði hluti af nýju aðalskipulagi Reykjavík.
Skipulagsnefnd minnir á að borgarráð samþykkti að framkvæma eins fljótt og kostur er þær tillögur hjólanefndarinnar sem samræmast gildandi skipulagi og fjárhagsáætlun borgarinnar.
Borgarskipulag vinni þessar tillögur í samráði við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunasamtök og kynni þær fyrir þeim nefndum og ráðum sem málið varða. Hafa þarf samráð við grannsveitarfélög Reykjavíkur til að tryggja að reiðhjólaleiðir milli sveitarfélaga tengist".
Skipulagsnefnd samþykkti bókunina samhljóða.


18. fundur 1994
Aðalskipulag Reykjavíkur, stefnumörkun á umferðarskipulagi
Lögð fram greinargerð Borgarskipulags, dags. 22.8.94 um stefnumörkun í umferðarmálum vegna endurskoðunar Aðalskipulags Reykjavíkur.

Bjarni Reynarsson kynnti.

14. fundur 1994
Aðalskipulag Reykjavíkur, staða vinnu
Lögð fram greinagerð Borgarskipulags,dags. 23.6.1994, varðandi endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur,yfirlit yfir stöðu vinnu í júní 1994. Ennfremur vinnuáætlun við AR 1994-2014, dags. 24.2.1994.

Bjarni Reynarsson kynnti aðalskipulagsvinnuna.

6. fundur 1994
Aðalskipulag Reykjavíkur, vinnuáætlun
Lögð fram vinnuáætlun fyrir aðalskipulag Reykjavíkur 1994-2014.