Laugardalur, Þróttur,
Miðbærinn, götuljós,
Víðidalur, dýraspítali,
Ánanaust,
Kringlan,
30 km svæði,
Reykjavíkurflugvöllur,
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Gang- og hjólastígar,
Miðborgin,
Vesturhöfnin,
Bólstaðarhlíð 23, námsmannaíbúðir,
Eikjuvogur 27,
Engjateigur 7-9,
Grettisgata 18,
Gylfaflöt 9, Allrahanda,
Hléskógar 1,
Höfðabakki 1,
Laufásvegur 59,
Skeifan 13,
Skútuvogur/Barkarvogur og Brúarvogur 2,
Vesturbæjarskóli,
Öskjuhlíð,
Þjóðvegir í þéttbýli,
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Skipulags- og umferðarnefnd
5. fundur 1997
Ár 1997, mánudaginn 10. mars kl. 10:00, var haldinn 5. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Guðrún Zoëga og Halldór Guðmundsson. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:
Laugardalur, Þróttur,
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.02.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 10.02.97, varðandi staðsetningu og landmótun íþróttasvæðis í Laugardal.
Miðbærinn, götuljós, skýrsla
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.02.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 10.02.97 um staðsetningu götuljósa og stefnumörkun um lýsingu í miðbænum.
Víðidalur, dýraspítali, afmörkun lóðar
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.02.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24.02.97 um afmörkun lóðar fyrir dýraspítala í Víðidal.
Ánanaust, skipulag, breytt lóðamörk
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.02.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24.02.97 um breytt lóðarmörk athafnasvæðis við Ánanaust.
Kringlan, bílastæði
Á fundinn komu fulltrúar eigenda Kringlunnar, verslunarmiðstöðvar, þeir Einar Halldórsson og Richard Abrams, og kynntu hugmyndir að frekari uppbyggingu í Kringlunni og N-S tengingu.
30 km svæði, Lækir - Hlíðar
Lögð fram tillaga borgarverkfræðings að 30 km svæðum 1997 ásamt minnisblaði, dags. 04.03.97. Einnig lagðar fram greinargerðir um "Umferðaröryggi innan hverfa Reykjavíkur", dags. í ágúst 1994 og um "Umferðarslys í Reykjavík 1989-1993", dags í mars 1996.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun:
"30 km svæði. Til framkvæmda á þessu ári.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að næstu 30 km svæði verði Teigar/Tún og Hlíðarhverfi austan Lönguhliðar og sunnan Miklubrautar. Að auki skal setja upp 30 km hlið á gatnamót Barónsstígs og Laufásvegar og Barónsstígs og Bergstaðastrætis. Hefja skal undirbúning að fjórum 30 km svæðum sem kæmu til framkvæmda á árinu 1998.
Þegar hefur verið ákveðið að Hlíðar/Holt norðan Miklubrautar og austan Lönguhlíðar komi til framkvæmda á árinu 1998. Skipulags- og umferðarnefnd telur rétt að elstu hverfi borgarinnar (innan Hringbrautar) verði þá einnig fyrir valinu.
Umferðardeild og Borgarskipulagi er falið að undirbúa tillögur um framkvæmda- og fjárhagsáætlun fyrir árið 1998 og tillögu um forgangsröðun til næstu þriggja ára, þar sem gert yrði ráð fyrir 4 svæðum árlega."
Reykjavíkurflugvöllur, flugvallarskýrsla, kynning
Lögð fram og kynnt skýrsla, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, dags. í febrúar 1997, um Reykjavíkurflugvöll.
Höfundar skýrslunnar komu á fundinn og kynntu hana.
Aðalskipulag Reykjavíkur,
Kynnt hljóðmengunarkort úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.
Gang- og hjólastígar, forgangsröðun í snjómokstri
Lagt fram bréf Magnúsar Bergssonar, f.h. Íslenska fjallahjólaklúbbsins, dags. 24.02.97, varðandi snjómokstur á gang- og hjólastígum í Reykjavík.
Vísað til gatnamálastjóra til umsagnar. Nefndin óskar upplýsinga um forgangsröðun við snjómokstur gatna, gang- og hjólastíga.
Miðborgin, stæði leigubíla
Lögð fram tillaga Borgarskipulags og borgarverkfræðings, unnin af Gunnari I. Ragnarssyni, dags. 06.03.97, varðandi umferð í Hafnarstræti/Pósthússtræti/Tryggvagötu og stæði leigubíla.
Frestað.
Vesturhöfnin, umferðarskipulag
Lagt fram bréf Hannesar Valdimarssonar hafnarstjóra, dags. 14.02.97, að umferðarskipulagi í Vesturhöfn, samkv. uppdr. Gunnars Inga Ragnarssonar verkfr., dags. 07.02.97.
Samþykkt.
Bólstaðarhlíð 23, námsmannaíbúðir, nýbygging
Lagðir fram að nýju uppdrættir Björns H. Jóhannssonar, dags. 31.12.96, breytt 07.02.97, ásamt bréfi Þóris Ólafssonar rektors KHÍ og Guðmundar Inga Jónssonar framkvæmdastjóra Byggingafélags námsmanna, dags. 05.03.97.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun:
"Á samþykktu deiliskipulagi eru byggingarreitir ekki málsettir.
Nánar útfærður byggingarreitur fyrir nemendaíbúðirnar sem lagður var til grundvallar alútboði er málsettur L· 67 x B ·14m.
Allar tillögurnar í alútboðinu nýttu sér fulla lengd byggingarreitsins og einnig að einhverju leyti þá möguleika sem boðið var upp á í gögnum varðandi minni útbyggingar.
Tillaga sú sem valin var og lögð hefur verið fram nýtir byggingarreitinn til fulls og einnig fara útbyggingar á göflum og til norðurs lítillega út fyrir reitinn (sbr. skilmála).
Gert er ráð fyrir 42 íbúðum og fullnægt er skilmálum um eitt stæði á íbúð norðan hússins.
Á fundi sem haldinn var á Borgarskipulagi með fulltrúum foreldrafélags Æfingaskólans og fulltrúum FÍN þann 25.2. 1997 var ekki gerð athugasemd við fjölda íbúða. Ákveðið var að vinna að úrbótum í umferðarmálum í hverfinu í samvinnu við íbúa hverfisins og fulltrúa þeirra."
Nefndin ítrekar ennfremur bókun sína frá 24. febrúar s.l. varðandi þinglýsingu kvaða á lóð námsmannaíbúðanna og á lóð K.H.Í.
Eikjuvogur 27, nýbygging, skilmálar
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa, f.h. byggingarnefndar, dags. 31.01.97, varðandi nýbyggingu á lóðinni nr. 27 við Eikjuvog. Einnig tillaga Borgarskipulags að skilmálum og byggingarreit, dags. 18.02.97.
Samþykkt.
Engjateigur 7-9, lóðarstækkun og bílastæði
Lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 18.06.96, varðandi afmörkun bílastæða lóðar við Engjateig 9 samkv. uppdr. Egils Guðmundssonar, dags. 04.06.96, br. 07.03.97. Einnig lagt fram bréf Vífils Oddssonar f.h. hússtjórnar Verkfræðingafélags Íslands, dags. 29.08.96 og umsögn Ólafs Bjarnasonar yfirverkfr. og Jóhanns Pálssonar garðyrkjustjóra dags. 15.01.97.
Samþykkt.
Grettisgata 18, ofanábyggingar
Lagt fram bréf Eyjólfs Bragasonar arkitekts, f.h. Ásgeirs Vilhjálmssonar byggingarmeistara, mótt. 11.02.97, varðandi ofanábyggingu og breytingu á atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði fyrir 3 íbúðir samkv. uppdráttum, dags. 03.03.97.
Samþykkt.
Gylfaflöt 9, Allrahanda, lóðarumsókn
Lagt fram bréf borgarstjóra, f.h. borgarráðs, dags. 12.02.97, varðandi lóðarumsókn Allrahanda/Ísferða ehf. á Gylfaflöt. Einnig lagt fram bréf Ágústs Jónssonar skrifst.stj. borgarverkfr., dags. 10.02.97. Ennfremur lögð fram tillaga Borgarskipulags að lóðarafmörkun, dags. 05.03.97, ásamt tillögum Teiknistofu arkitekta Úti og inni að uppbyggingu, dags. í mars 1997, mótt. 10. mars ´97.
Samþykkt.
Hléskógar 1, leikskóli
Lagt fram bréf Sólveigar Einarsdóttur og Maritar Guðmundsdóttur, dags. 14.02.97, varðandi rekstur einkaleikskóla í húsi nr. 1 við Hléskóga. Einnig lögð fram umsögn Bergs Felixsonar f.h. Dagvistar barna ásamt umsögn umferðardeildar, dags. 05.03.97.
Frestað. Borgarskipulagi falið að kynna erindið fyrir nágrönnum.
Höfðabakki 1, aðkoma, bílastæði
Lagt fram bréf Hjartar Aðalsteinssonar f.h. Húsfélagsins Höfðabakka 1, dags. 07.02.97, varðandi nýja inn- og útkeyrslu við Höfðabakka ásamt fjölgun bílastæða á neðri lóð við Stórhöfða, samkv. teikningu Sigríðar Maack arkitekts, dags. 20.01.97. Ennfremur lögð fram umsögn umferðardeildar, dags. 07.03.97.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir umsögn umferðardeildar og er því ekki fallist á erindið.
Laufásvegur 59, bílskúr
Lagt fram bréf Jóns P. Kristinssonar, dags. 13.02.97, varðandi breytta notkun á tvöföldum bílskúr að Laufásvegi 59.
Nefndin gerir ekki athugasemdir við erindið. Sækja þarf um breytta notkun hjá byggingarnefnd.
Skeifan 13, bensínafgreiðsla
Lagt fram erindi Gunnars O. Skaptasonar f.h. Bensínorkunnar ehf, dags. 15.10.96, varðandi eldsneytisafgreiðslu á lóðinni nr. 13 í Skeifunni samkv. uppdr. Hauks Harðarsonar arkitekts, dags. 27.01.97, ásamt bréfi Hauks Harðarsonar, dags. 29.01.97, varðandi bílastæði. Ennfremur lagt fram bréf Gunnars Á. Kristjánssonar verkfræðings f.h. Brunamálastofnunar ríkisins, dags. 21.02.97.
Nefndin samþykkir að auglýsa tillöguna í 4 vikur.
Skútuvogur/Barkarvogur og Brúarvogur 2, breytt skipulag
Lagt fram bréf Hannesar Valdimarssonar hafnarstjóra, dags. 14.02.97 og bréf Vignis Albertssonar, dags. 4.3.97, varðandi breytt skipulag við Skútuvog/Barkarvog og uppbyggingu við Brúarvog 2, samkv. uppdr. Arkitekta Gunnars og Reynis sf, dags. 05.03.97.
Samþykkt.
Vesturbæjarskóli, uppbygging
Að beiðni byggingardeildar er lögð fram til kynningar hugmynd að hugsanlegri uppbyggingu á lóð skólans vegna einsetningar skóla, samkv. gögnum Ingimundar Sveinssonar, dags. 24. febr. 1997. Ennfremur lagt fram bréf byggingardeildar borgarverkfræðings, dags. 6.3.1997.
Nefndin er jákvæð gagnvart erindinu. Vinna skal tillöguna áfram í samráði við Borgarskipulag.
Öskjuhlíð, ökuleiðir
Lagt fram bréf Jóhanns Pálssonar f.h. umhverfismálaráðs, dags. 24.01.97, varðandi vegakerfi Öskjuhlíðar. Einnig lagt fram bréf Sigurðar I. Skarphéðinssonar gatnamálastjóra og Björns Axelssonar landslagsarkitekts, dags. 04.02.97 ásamt uppdr. dags. 10. mars 1997. Ennfremur lögð fram bókun umhverfismálaráðs, dags. 19. febr. 1997.
Samþykkt.
Þjóðvegir í þéttbýli, framkvæmdir
Lagt fram til kynningar bréf borgarverkfræðings til borgarráðs, dags. 4.3.1997, varðandi framkvæmdir við þjóðvegi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað:
"Við erum andvíg þeirri stefnumörkun sem fram kemur í bréfi borgarverkfr., dags. 4.3.1997, þar sem horfið er frá því að setja í forgang mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut/Miklubraut. Við teljum þá framkvæmd mjög mikilvæga vegna greiðari umferðar og umferðaröryggis á þessum fjölförnu gatnamótum."
Aðalskipulag Reykjavíkur, fyrirspurn
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd lögðu fram eftirfarandi svar við fyrirspurn sem lögð var fram á fundi nefndarinnar 24. febrúar s.l.
Sjálfstæðismenn telja ekki skynsamlegt að hætta við Hlíðarfót, ekki síst með vísan til þess að í tillögu að aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þá er einnig nauðsynlegt að tryggja góð umferðatengsl við fyrirhugaða flugstöð við Nauthólsvík.
Við vísum til skýrslu Aflvaka hf um framtíðariðnaðarsvæði í Reykjavík, en þar var bent á nokkur hugsanleg svæði fyrir iðnað og athafnasvæði, svo og í fyrirhugað samstarf milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um hafnarstarfsemi í Eiðsvík og Straumsvík. Formaður skipulags- og umferðarnefndar hefur lýst því yfir að í Geldinganesi verði blómarækt og borgarstjóri hefur sagt að í Geldinganesi sé gert ráð fyrir samskonar starfsemi og á Ármúlasvæðinu. Við teljum önnur svæði heppilegri fyrir blómarækt og verslunarstarfsemi heldur en Geldinganes.
Svar formanns skipulags- og umferðarnefndar:
Niðurlagning Hlíðarfótar er liður í þeirri stefnu meirihlutans að bæta umhverfi og tengja saman mikilvæg útivistarsvæði í borginni. Auk þess kom Hlíðarfótur í veg fyrir að hægt væri að friða Fossvogsbakka, sem eru verðmætar náttúrminjar. Fyrirhuguð flugstöð, sbr. skipulag, er góðu heilli ekki við Nauthólsvík heldur töluvert norðar nær samgönguæðum.
Í skýrslu Aflvaka hf um framtíðariðnaðarsvæði í Reykjavík er Geldinganesið talið langbesti kosturinn vegna nálægðar við höfn. Ekkert annað svæði stenst þar samanburð.
Það er rétt að bæði borgarstjóri og undirrituð hafa lagt á það áherslu að á Geldinganesi geti komið hvort tveggja, íbúðabyggð og athafnasvæði, sbr. Gylfaflöt og Ármúlahverfið eins og það var skipulagt. Ylrækt hverskonar kæmi þar vel til greina eins og raunar hefur verið til umræðu. Reykjavíkurborg þarf að geta brugðist við eftirspurn eftir atvinnulóðum til að halda áfram uppbyggingu öflugs atvinnulífs. Þá dugir ekki að vísa á lóðir í Hafnarfirði.