Breiðavík 2-4 og Breiðavík 6,
Dvergshöfði, Landssíminn,
Langholtsvegur 13,
Lyngháls 2,
Selásbraut/Vindás, leikskóli,
Skeiðarvogur,
Spöngin, lóð B,
Nýbyggingar í grónum hverfum,
Alþingisreitur,
Brekkustígur 1,
Njálsgata 33,
Umferðaröryggisáætlun,
Laugavegur 53B,
Þórsgata 2,
30 km svæði,
Suðurgata,
Bergþórugata 4,
Brekkuhús,
Gautavík 17-23,
Frostaskjól 2,
Grafarvogur, hverfisnefnd,
Jafnasel 6,
Miklabraut/Skeiðarvogur,
Kringlan 9,
Skúlagata, Tónlistarhús,
Landspítalalóð,
Viðarás 1-7,
Keilugrandi 1,
Laugarás, Hrafnista,
Skipulags- og umferðarnefnd
7. fundur 1998
Ár 1998, mánudaginn 23. mars kl. 10:00, var haldinn 7. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Guðrún Jónsdóttir, Guðrún Zoëga, Halldór Guðmundsson og Jóna Gróa Sigurðardóttir. Fundarritari voru Ágúst Jónsson og Jón Árni Halldórsson.
Þetta gerðist:
Breiðavík 2-4 og Breiðavík 6, lóðarskipting
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 13.03.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 9. s.m. um lóðarskiptingu milli Breiðuvíkur 2-4 og Breiðuvíkur 6.
Dvergshöfði, Landssíminn, lóðarbreyting/uppbygging
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 13.03.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 9. s.m. um lóðarbreytingu og uppbyggingu að Dvergshöfða 2.
Langholtsvegur 13, skilmálar
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 13.03.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 9. s.m. um skilmála að Langholtsvegi 13.
Lyngháls 2, skipting lóðar
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 13.03.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 9. s.m. um skiptingu lóðarinnar að Lynghálsi 2.
Selásbraut/Vindás, leikskóli, aðkoma, lóðarafmörkun
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 3.3.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 12.1.98 um lóðarafmörkun og aðkomu að leikskóla við Selásbraut/Vindás.
Skeiðarvogur, þrenging götu
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 3.3.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 26.1.98 um þrengingu Skeiðarvogs.
">Spöngin, lóð B, breyting á byggingarreit
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 13.03.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 26.01.98 um breytingu á byggingarreit Spangar, lóð B.
Nýbyggingar í grónum hverfum,
Lagt fram bréf Láru Höllu Maack, f.h. Íbúasamtaka Skólavörðuholts, dags. 23.03.98, varðandi nýbyggingar í grónum hverfum.
Alþingisreitur, deiliskipulag
Lögð fram að nýju erindi Alþingis og Oddfellow dags. 27.05.97 og 01.08.97 ásamt tillögu teiknistofunnar Batterísins að breyttu deiliskipulagi á Alþingisreit stgr. 1.141, dags. 22.1.98, breytt 20.03.98 ásamt greinargerð, skýringarmyndum, líkani og eldri gögnum. Ennfremur lögð fram umsögn Árbæjarsafns varðandi fornleifar á Alþingisreit dags. 20.3. 98 og yfirlýsing Alþingis um útfærslu á nýbyggingum á reitnum, dags. 23.3.98.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að gerðar verði nokkrar orðalagsbreytingar í greinargerð með deiliskipulagstillögunni. Ennfremur samþykkti nefndin svofellda bókun: "Skipulags- og umferðarnefnd ítrekar skoðun sína á mikilvægi þess að Oddfellowhúsið verði fært nær upphaflegu útliti og þakhæðin fjarlægð. Með því yfirbragði er Oddfellowhúsið verðugur nágranni Alþingishússins og Ráðhúss og um leið framtíðar stækkunarmöguleiki fyrir starfsemi Alþingis. Í tillögunni er gert ráð fyrir að fullnægja kröfu um stæði fyrir hverja 50m² í nýbyggingum á reitnum. Í forsögn að samkeppni um uppbyggingu Alþingis 1986 var gert ráð fyrir að uppfylla bílastæðakröfur fyrir allar byggingar á reitnum. Gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg og Alþingi vinni áfram að athugun á að leysa bílastæðamál á svæðinu. Nefndin samþykkir samhljóða að leggja til við borgarráð að deiliskipulagstillagan verði auglýst og kynnt samkvæmt 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997".
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað. "Þótt ég fallist á að tillagan verði kynnt vil ég koma á framfæri eftirfarandi: 1. Greinargerð þarf að stilla skýrar upp varðandi ýmis efnisatriði. T.d. er nauðsynlegt að stilla upp forsendukafla þar sem fram kemur rýmisþörf (þarfagreining). Orðalagasbreytingar eru einnig víða nauðsynlegar. 2. Málefni Oddfellow. Miðað við fyrirliggjandi samþ. borgarráðs frá 7.3.95. um málefni Oddfellow þá tel ég rétt að fylgja þeirri samþykkt eftir sérstaklega áður en deiliskipulagið er samþykkt. Taka þarf upp viðræður við Oddfellfow um möguleika áþví að lækka Oddfellow-húsið um eina hæð í framtíðinni gegn því að tryggður verði byggingarréttur til vesturs. Til þess að sá möguleiki skapist er lagt til að hús Skúla Thoroddsen verði flutt yfir í Kirkjustræti og þar verði sköpuð falleg götumynd gamalla húsa sem tengist vel göumynd Aðalstrætis. 3. Byggingarreitir og byggingarmagn. Byggingarreitur á vesturhluta v/Vonarstræti er of nálægt götunni. Hann þarf að draga til baka um ca. 3 metra. Sama á við um byggingarreit v/Kirkjustræti sem breytist ef Skúlahúsið er flutt. Ég tel byggingarmagn nýbygginga of mikið og mun athuga það mál nánar þegar greinargerð hefur verið endurbætt. Ég áskil mér rétt til frekari athugasemda eftir að auglýsingafresti lýkur.
Svarbókun meirihluta: "Varðandi bókun G.J. þá fellst nefndin á að beina þeim tilmælum skipulagshöfunda að gera orðalagsbreytingar á greinargerð. Varðandi flutning húss Skúla Thoroddsen að Vonarstræti 12 þá er það skoðun okkar við nánari athugun að það sé betur komið á upprunalegum stað, skiptir þá ekki síst máli samspil þess við gamalt hús á lóð Vonarstrætis 8".
Brekkustígur 1, breytingar
Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 30.01.98, varðandi breytingar á útliti og innra fyrirkomulagi hússins á lóðinni nr. 1 við Brekkustíg, samkv. uppdr. Dagnýjar Helgadóttur ark., dags. 13.01.98. Einnig lögð fram umsögn skipulagsnefndar frá 11.04.95.
Samþykkt
Njálsgata 33, breytingar
Að lokinni kynningu er lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 30.01.98, varðandi breytingar á útliti og innra fyrirkomulagi hússins á lóðinni nr. 33 við Njálsgötu, samkv. uppdr. Ársæls Vignissonar arkitekts, dags. í nóv. 1997. Einnig lagðar fram umsagnir Árbæjarsafns dags. 21.11.97 og Húsafriðunarnefndar ríkisins dags. 2.12.97.
Samþykkt
Umferðaröryggisáætlun,
Lögð fram umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavík, útgefin í mars 1998.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir svofellda bókun: "Út er komin umferðaröryggisáætlun borgarinnar. Af því tilefni samþykkir skipulags- og umferðarnefnd að fela Borgarskipulagi og umferðardeild borgarverkfræðings að undirbúa kynningu á áætluninni, m.a. með sérstöku málþingi í Ráðhúsi Reykjavíkur í aprílmánuði eða byrjun maí n.k.
Laugavegur 53B, nýbygging
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju tillaga Arnar Sigurðssonar arkitekts, dags. 20.12.97. merkt A 10 að uppbyggingu á lóðinni Laugavegur 53B, ásamt bréfi byggingarfulltrúa, dags. 09.01.98. Einnig lagðar fram skuggamyndir miðað við 1. apríl, 1. maí, 1. júlí og 1. september. Einnig lögð fram athugasemdarbréf sem bárust í kjölfar grenndarkynningar: Bréf Elínar Ebbu Ásmundsdóttur og Jon Kjell Seljeseth Laugavegi 53a, Svövu Guðmundsdóttur, Friðriks Bridde, Þorkels Ólasonar og Árna Júlíussonar Hverfisgötu 70, dags. 13.02.98, bréf Margrétar Hermannsdóttur og Helga Bragasonar, Hverfisgötu 68a, dags. 18.02.98, bréf Árna Harðarsonar og Önnu Margrétar Jónsdóttur Laugavegi 49A, dags. 18.02.98, bréf Svövu Kristínar Ingólfsdóttur Laugavegi 52, dags. 19.02.98, bréf íbúa Laugavegi 51b, dags. 19.02.98, bréf íbúa og lóðarhafa Hverfisgötu 70, dags. 19.02.98 og bréf Elínar Ebbu Ásmundsdóttur og Jon Kjell Seljeseth, dags. 20.02.98. ásamt umsögn Borgarskipulags, dags. 23.03.98.
Guðrún Jónsdóttir lagði fram svofellda tillögu: "1. Lagt er til að hafnar verði viðræður við íbúa á grundvelli sáttatillögu sem byggist á því að minnka byggngarmagn (sjá fyrri tillögu þar að lútandi) á baklóð og draga þar með úr birtuskerðingu í húsunum nr. 53a við Laugaveg og 70 við Hverfisgötu. 2. Farið verði að ítrustu kröfum hvað snertir það atriði að draga úr neikvæðum áhrifum innkeyrslu í bílageymslu, skv. athugasemdum íbúa á lóð nr. 70 við Hverfisgötu.
Fyrri liður tillögunnar hlaut 1 atkv. gegn 5 (Óskar D. Ólafssson sat hjá). Síðari liður tillögu Guðrúnar Jónsdóttur samþykktur samhljóða.
"Skipulags- og umferðarnefnd samþykkti með 5 atkv. gegn 2 framlagða tillögu að uppbyggingu á lóð nr. 53B við Laugaveg ásamt umsögn Borgarskipulags, dags. 23.03.98, um þær athugasemdir, sem bárust í kjölfar grenndarkynningar, enda verði útfærsla göngustígs að lóðinni nr. 53A við Laugaveg leyst í landinu áður en tillagan verður lögð fyrir byggingarnefnd". (Guðrún Jónsdóttir og Óskar D. Ólafsson greiddu atkv. á móti).
Guðrún Jónsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun:
"1. Ég ítreka fyrri skoðun mína varðandi þetta mál og vísa í því sambandi í bókanir á fundum SKUM 15.12.97 og 12.01.98.
2. Umsögn Borgarskipulags.
Hvað snertir umsögn Borgarskipulags, dags. 19.03.98, skal eftirfarandi tekið fram.
Liður 1: Eðlilegt hefði verið að fram færi víðtæk grenndarkynning strax á fyrri stigum þessa máls þar sem ekkert deiliskipulag liggur fyrir af reitnum.
Liður II: Ég dreg í efa að uppbygging á lóðinni nr. 53B sé í samræmi við stefnumörkun AR 1916-2016. Sérstaklega skal bent á það sem segir um nýtingarhlutfall í gildandi skipulagsreglugerð gr. 4.3.4. Skv. þeirrri grein er nýtingarhlutfall á lóð sem er hærra en staðfest aðalskipulag gerir ráð fyrir því aðeins heimilt að gert sé ráð fyrir slíku í deiliskipulagi.
Liður III: Skv. umsögn Borgarskipulags ber að líta á íbúðarbyggð á NV hluta reitsins sem jaðarsvæði. Á slíkum svæðum er skv. AR heimilt að hafa íbúðir á jarðhæð húsa og huga skal að íbúðarbyggð á slíkum svæðum. Ekki er rétt að alltaf hafi verið þröngt um bakhúsin og skuggsælt. Skuggavarpið og þrengslin sem þar eru nú stafa fyrst og fremst af 4 hæða húsum sem byggð hafa verið við Laugaveg löngu eftir að bakhúsin voru byggð. Íbúar hafa ekki gert kröfur um sambærilega aðstöðu (t.d. hvað snertir útivistarsvæði) þeirri sem er í hreinni íbúðarbyggð og sýnt skilning á að slíkt kemur ekki til greina hér.
Liður IV: Svar Borgarskipulags varðandi nýtingu baklóða getur orkað tvímælis. T.d. er Laugavegur 59 (Kjörgarður) eina lóðin með jafn hárri nýtingu á baklóð og tillagan gerir ráð fyrir á þessum reit.
Liður V: Aðkoma að lóðinni nr. 51B við Laugaveg er ekki leyst.
Liður VI: Ég hef áður óskað eftir fundargerðum frá fundum 5. og 7. nóv. Án samþykktra fundargerða er erfitt að vísa í efnisatriði umræðna eins og hér er gert.
Liður VIII: Könnunum á skuggavarp frá Borgarskipulagi annars vegar og eigendum Laugavegs 53A ber saman. Skerðing á sólarbirtu er veruleg skv. könnunum (sjá yfirlit). Ef sáttaleið væri farin má ná til baka helmingnum af mögulegri sólarskerðingu og skiptir það sköpum fyrir íbúana.
Liður IX: Sagt er að nýtingarhlutfall á lóðinni Laugavegur 53B sé 2,33. Þá er aðeins tekið með í reikninginn fermetrafjöldi húss án bílageymslu, en hún er 660 fermetrar. Vísað er í gr. 4.3.4 í skipulagsreglugerð varðandi þessa útreikninga. Þar er hins vegar ekkert að finna sem leyfir þessa aðferð við útreikning á nýtingarhlutfalli. Ef bílageymslan er talin með, en hún er að töluverðu leyti ofanjarðar þá er nýtingarhlutfall á lóðinni 3,32. Leyfilegt nýtingarhlutfall skv. AR er 1,5-2,5.
Liður X og XI: Athygli skal vakin á breytingu sem gerð er á aðkomu að húsinu nr. 53A við Laugaveg. Skv. uppdráttum er hæðarmunur á lóð hússins og stíg þar við hliðina 1,65 m. Þessi hæðarmunur skiptir verulegu máli fyrir aðkomuna að húsinu.
3. Samvinna við íbúa og grenndarkynning.
Samvinna íbúa og yfirvalda er mikilvæg ekki síst þegar hróflað er við nærumhverfi eins og í þessu tilfelli. Grenndarkynning er liður í því að fá fram viðbrögð svo hægt sé að átta sig á því hvort byggingaráform eða aðrar breytingar eru of nærgöngular við umhverfið eða beinlínis skaða það. Í þessu tilfelli hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að svo sé".
Bókun Guðrúnar Ágústsdóttur: "Með mál þetta hefur verið farið skv. venju þegar sótt er um að byggja á lóðum þar sem ekki er til deiliskipulag. Þann 9.júní 1997 var samþykkt samhljóða í skipulags- og umferðarnefnd að auglýsa tillöguna í 4 vikur opinberlega þegar þakform hefði verið einfaldað. Þá var öllum frjálst að koma með athugasemdir. Á þessum tíma bar byggingarnefnd ábyrgð á grenndarkynningu. Það er því ekki fyrr en með nýjum lögum 1.janúar s.l. að skipulags- og umferðarnefnd ber ábyrgð á grenndarkynningum. Samhliða gildistöku nýrra skipulags- og byggingarlaga hafa verið teknar upp nýjar vinnuaðferðir við deiliskipulag.
Í stefnumörkun AR 1996 - 2016 er talað um að stuðla að eflun miðborgarinnar með því að stuðla að uppbyggingu. Tillaga að uppbyggingu að Laugavegi 53B samræmist því, þar sem tillagan gerir ráð fyrir nýju verslunarhúsnæði, skrifstofum og íbúðum á efri hæðum, þ.e. miðborgarstarfsemi. Uppbygging er ennfremur í fullu samræmi við stefnumörkun miðborgar, sem kom út í desember s.l. og er liður í þróunaráætlun um miðborg Reykjavíkur sem nú er unnið að.
Ekki er hægt að tala um nýtingu á baklóð og nýtingu á framlóð. Lóðirnar á austari hluta reitsins, þ.e Laugavegur 53B - 63 eru helmingi dýpri og stærri en lóðirnar Laugavegur 47 - 51. Nýtingarhlutfall Laugavegs 53B reiknast 2,33 en nýtingarhlutfall Laugavegs 47 reiknast 3,11 sem er þrátt fyrir það minna að umfangi. Þetta sýnir hversu varasamt það er að nota nýtingarhlutfall þegar verið er að bera saman umfang bygginga.
Á lóðinni Laugavegur 51 er göngukvöð að lóðinni Laugavegur 51B sem liggur um undirgang. Þessi undirgangur er fær bifreiðum. Uppbygging á Laugavegi 53B hefur engin áhrif á þessa aðkomu.
Ekki voru gerðar formlegar fundargerðir, heldur minnispunktar starfsmanni Borgarskipulags til leiðbeiningar við áframhald málsins.
Talið er að með núverandi tillögu hafi verið komið mjög til móts við næstu nágranna og að aðstæður til að njóta sólar á Laugavegi 53A séu í samræmi við það sem ásættanlegt þyki.
Bílageymsla reiknast 566 m² en ekki 660 m². Skv. heimild í staðfestu aðalskipulagi má auka nýtingarhlutfall ef bílastæði eru neðanjarðar eða í byggingu innan byggingarreits. Það er í samræmi við gr. 4.3.4 í skipulagsreglugerð, 4.mgr. sem var í gildi fram til 1. janúar s.l. Með hliðsjón af þessu voru bílageymslur ekki reiknaðar með við útreikning á nýtingarhlutfalli. Á það má einnig benda að þar sem umrædd bílageysmlu telst ekki til rýmis í flokki A, mun bílageymslan ekki reiknast með í brúttóflatarmáli byggingar í skráningartöflu á aðalteikningum. Skipulagsstofnun styðst við brúttóflatarmál úr skráningartöflu þegar nýtingarhlutfall er reiknað þar. Hæðarmunur á lóð hússins og stíg þar við hliðina er ekki 1.65 heldur 0.96, þar sem hann er hæstur. Hins vegar er í dag u.þ.b. 1.65 m hæðarmunur á milli lóðar hússins gangstéttar við Laugaveg og sá hæðarmunur verður áfram til staðar. Göngustígur að Laugavegi 53A verður leystur þannig að hann liggi í landinu. Varðandi tillögu G.J. um að minnka byggingarmagn á 2.hæð við Laugaveg um 200 m², þá er það ljóst að um slíkt mun aldrei nást sátt. Margir fundir hafa verið haldnir með íbúum og fulltrúum í nefndinni, borgarstjóra og embættismönnum á Borgarskipulagi. Í kjölfar þeirra viðræðna hefur náðst mikill árangur, sem talið var að gæti orðið til sáttar.
1. Bakhús lækkað um tvær hæðir
2. Byggingarmagn minnkað um 220 m²
3. Íbúðum fækkað úr 11 íbúðum í 6 íbúðir
4. Samþykkt að loka stíg utan verslunartíma
5. Hætt við byggingu stigahúss áfast Laugavegi 51 og það fært til austurs vegna kröfu um óbreytta göngukvöð".
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað:
"Þau þröngu tímamörk sem mér eru sett veita ekki svigrúm til að fara ofan í kjölinn á bókun Guðrúnar Ágústsdóttur formanns skipulags- og umferðarnefndar varðandi fyrirhugaða nýbyggingu að Laugavegi 53b, en margt sem þar kemur fram krefst frekari gagnaöflunar. Verður því stiklað á helstu atriðum en tekið skal fram að þessi bókun er ekki tæmandi.
Liður VI
Í umsögn Borgarskipulags er rætt um afstöðu íbúa á fundum (?) 5. og 7. nóvember. Fram kom á skipulags- og umferðarnefndarfundinum 23. mars að minnismiði er til um samtöl sem fram fóru við þetta tækifæri í nóvember en engar formlegar og samþykktar fundargerðir. Þar kom fram hjá íbúum að þeir væru á móti göngustígnum en væru reiðubúnir að gefa eitthvað eftir ef það gæti orðið til þess að dregið yrði úr byggingarmagni.
Liður IX
Samkvæmt teikningu dags. 22.1.1998 þar sem fram koma stærðir á fyrirhugaðri byggingu er þess getið að bílageymsla sé 660 m2 (sjá fylgiskjal). Varðandi útreikninga á nýtingarhlutfalli er ítrekað að í gr. 4.3.4 í reglugerð með skipulagslögum er ekki heimilað að undanskilja bifreiðageymslu við útreikning nýtingarhlutfalls (sjá meðfylgjandi ljósrit A, B, C).
Tekið skal fram að minnkun á húsinu frá fyrstu tíð er innan við 10%. Að hluta til hefur verið um tilfærslur að ræða þar sem dregið hefur verið úr stærð bakhúss en aukið við stærð framhúss."
Þórsgata 2, nýbygging
Að grenndarkynningu lokinni er lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 12.12.97, varðandi byggingu fjölbýlishúss með fimm íbúðum að Þórsgötu 2, samkv. uppdr. Ingimundar Sveinssonar arkitekts, dags. 10.04.97, br. 03.12.97 ásamt umsögn borgarlögmanns, dags. 31.01.98. Einnig lagðar fram athugasemdir sem bárust frá: Þórhildi Þorleifsdóttur, dags. 15.09.97 og 10.03.98, íbúum Óðinsgötu 7 og 9, dags. 10.03.98, undirskriftalisti frá húseigendum í næsta nágrenni við Þórsgötu 2, dags.08.03.98, Ólafi Haraldssyni hdl. f.h. Hótel Óðinsvéa hf, dags. 12.03.98 og Vilborgu Jóhannesdóttur, Þórsgötu 4, dags. 08.03.98, ásamt umsögn Borgarskipulags, dags. 20.03.98. Einnig lagðir fram uppdrættir Ingimundar Sveinssonar, dags. 10.4.´97 síðast breytt 20.3.1998.
Guðrún Jónsdóttir lagði til að afgreiðslu málsins yrði frestað. Frestunartillagan var felld með 4 atkv. gegn 1 (Jóna Gróa Siguðardóttir og Guðrún Zoëga sátu hjá).
Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Óskar D. Ólafsson og Halldór Guðmundsson óskuðu bókað: "Engin ný gögn hafa verið lögð fram né efnisleg rök komið fram sem mælir með frestun á afgreiðslu málsins nú. Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir með 6 atkv. gegn 1 fyrirliggjandi tillögu dags. 20.3.´98 að uppbyggingu á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu, svo og umsögn Borgarskipulags, dags. 20.3.98 um þær athugasemdir sem bárust í kjölfar grenndarkynningar (Guðrún Jónsdóttir greiddi atkvæði á móti)".
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað: " Fyrirhuguð nýbygging er of stór og gengur of langt inn á lóðina. Bæði bílageymsla og hús. Nýbyggingin er miklu dýpri en önnur hús á reitnum og takmarkar birtu bæði á suðurhlið húss nr. 7 við Óðinsgötu og austurhlið húss nr. 9 við Óðinsgötu. Þá hefur bílageymslan verulega neikvæð áhrif á umhverfið og sker t.d. garðsvæði lóðar nr. 9 frá öðrum garðsvæðum með háum vegg. Allt gengur þetta á rétt fólks í nágrenninu. Ég geri að tillögu minni að húsið verði minnkað til muna. Miðað verði við 10m húsdýpt, sama gildi fyrir bílageymslu. Þá verði byggingin dregin frá lóðamörkum strax og komið er fram fyrir austurgafl Óðinsgötu 7. Þá vek ég athygli á því að ekki liggur fyrir deiliskipulag að reitnum en reiturinn er þeirrar gerðar að rétt væri að fara um svæðið varfærnum höndum þar sem áhersla er lögð á samvinnu við íbúa. Þá vil ég vekja athygli á að frestunarbeiðni minni á afgreiðslu málsins milli funda var synjað".
Bókun Guðrúnar Ágústsdóttur: "Þórsgata 2 hefur verið til umfjöllunar í skipulags- og umferðarnefnd frá 22.11.96. og var samþykkt athugasemdalaust í nefndinni 6.1.97. og í borgarráði 7.1.97. Þá lá fyrir umsögn borgarminjavarðar og arkitekts Árbæjarsafns sem töldu bygginguna verða byggingarmynstrinu til framdráttar. Sama skoðun kemur fram í umsögn arkitekta á Borgarskipulagi. Að aflokinni grenndarkynningu á vegum byggingarfulltrúa bárust athugasemdir og var þeim athugasemdum vísað til nefndarinnar að nýju þar sem ekki var farið fram á breytingu á teikningu. Þegar teikningar voru lagðar fram að nýju í byggingarnefnd var fundað með aðilum málsins og ákveðið að lækka bílgeymslu, taka fláa á bílgeymsluvegg sem snýr að Óðinsgötu 9. Byggingarleyfi var kært og felldi umhverfisráðuneyti byggingarleyfið úr gildi. Breyttar teikningar fóru fyrir byggingarnefnd 18.12.97 og var þeim vísað til skipulags- og umferðarnefndar. Nefndin samþykkti á fundi sínum 2.2.98 að málið færi að nýju í grenndarkynningu með þeim breytingum sem þá höfðu verið gerðar. Þeirri kynningu lauk 13.3.98. Á fundi nefndarinnar í dag var samþykkt ný útfærsla á frágangi bílageymsluveggs að Óðinsgötu 9 til að reyna að koma til móts við helstu athugasemdir þaðan. Varðandi kröfu um deiliskipulag er vísað til álits borgarlögmanns dags. 31.1.98.
Tillaga G.J. um frestun nú og að húsið verði minnkað til muna og því breytt í mikilvægum atriðum hefði þýtt synjun á erindinu. Í ljósi fyrri samþykkta í nefndum og ráðum borgarinnar um málið og umfjöllun nú var það álit nefndarinnar að á slíka tillögu væri ekki hægt að fallast. Að öðru leyti vísast til umsagnar Borgarskipulags um athugasemdir og önnur gögn og bókanir í málinu."
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað:
"Varðandi bókun Guðrúnar Ágústsdóttur vil ég undirstrika það álit mitt að þær smávægilegu breytingar sem gerðar hafa verið á uppdrætti að húsinu geta ekki dugað til að fullnægja þeim atriðum sem fram koma í úrskurði umhverfisráðuneytisins. Ég hef áður látið þetta álit mitt í ljós. Þá dreg ég mjög í efa að hægt sé að tala um að komið sé til móts við helstu athugasemdir íbúa að Óðinsgötu 9 með þeim breytingum á bílskúrsvegg sem ráðgerðir eru."
30 km svæði, 1998
Lögð fram greinargerð um afmörkun og frekari meðhöndlun 30 km hverfa 1998 dags. 20.03.98 ásamt tillögu umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 11.03.98. um 30 km. svæði.
Samþykkt
Suðurgata, norðan Hringbrautar
Guðrún Jónsdóttir lagði fram svofellda tillögu:
"Legg til að því verði beint til umferðardeildar að athugaðir verði möguleikar á að setja 30 km samöldu á Suðurgötu skammt sunnan við Vonarstræti og annarri öldu sambærilegri norðan við Skothúsveg. Þá verði einnig athugað hvort setja mætti stoppskilti á Skothúsveg við Suðurgötu.
Vísað til athugunar umferðardeildar.
Bergþórugata 4, hækkun á þaki
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 16.03.98, varðandi hækkun á þaki einbýlishússins á lóðinni nr. 4 við Bergþórugötu, samkv. uppdr. Sverris Norðfjörð ark., dags. í mars 1998.
Samþykkt að kynna tillöguna skv. 7. mgr. 43. gr. laga 73/1997 fyrir hagsmunaaðilum að Bergþórugötu 1, 2, 3, 5, 6 og 6B, nr. 23 við Frakkastíg og Iðnskólanum.
Brekkuhús, nýbygging, lóðarafmörkun
Lagt fram bréf Björns Skaptasonar ark., dags. 23.02.98, varðandi Brekkuhús, byggingu fyrir verslun og þjónustu í Húsahverfi, samkv. br. uppdr. Atelier Arkitekta, dags. 23.2.98. Einnig lagðir fram minnispunktar Borgarskipulags, dags. 20.03.98.
Samþykkt að vísa málinu til kynningar í hverfisnefnd Grafarvogs. Ennfremur að kynna tillöguna samkv. 7. mgr. 43. gr. laga 73/1997, fyrir hagsmunaaðilum að Baughúsum nr. 22, 24, 26, 28, 30, 32 og 34.
Gautavík 17-23, breyting á skilmálum
Lagt fram bréf Jóns Guðmundssonar arkitekts, dags. 09.03.98, varðandi breytingu á skipulagi lóðanna, stöllun og hæðarsetningu á húsunum við Gautavík 17-23, samkv. uppdr. sama, dags. 25.02.98. Jafnframt lögð fram umsögn og tillaga skipulagshöfundar Árna Friðrikssonar arkitekts dags. 18.03.98 og umsögn Borgarskipulags, dags. 20.03.98.
Erindinu, eins og það er lagt fyrir, er synjað. Samþykkt að kynna tillögu að breyttum skipulagsskilmálum samkv. umsögn Borgarskipulags, dags. 20.03.98, fyrir lóðarhöfum í hverfinu og Víkurhverfi h.f.
Frostaskjól 2, nýbygging
Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 13.01.98 ásamt teikningum Teiknistofunnar hf. Ármúla 6 að íþróttahúsi KR, dags. 17.11.97. Einnig lagðar fram athugasemdir sem bárust frá: Hermanni Hallgrímssyni Frostaskjóli 2, dags. 26.01.98, Kristjönu Kjartansdóttur og Björgvini Bjarnasyni Frostaskjóli 15, dags. 28.02.98, Jóni Kristjánssyni Frostaskjóli 17, dags. 01.03.98. og umsögn Borgarskipulags, dags. 04.03.98, breytt 16.03.98 og umsögn umferðardeildar um athugasemdabréfin, dags. 10.03.98, ásamt nýjum uppdráttum Teiknistofunnar hf. Ármúla 6 dags. 19.03.98.
Umsögn Borgarskipulags dags. 4.3.98. breytt 16.3.98. samþykkt ásamt uppdr. Teiknistofunnar dags. 19.3.98. Áður en málið er afgreitt í byggingarnefnd þarf að gera grein fyrir fyrirkomulagi á rútustæði.
Grafarvogur, hverfisnefnd, minnispunktar
Lagðir fram til kynningar minnispunktar borgarverkfræðings, dags. 09.03.98, vegna fundar með Hverfisnefnd Grafarvogs þann 05.03.98.
Jafnasel 6, veitingastaður
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 27.02.98, varðandi leyfi til að innrétta veitingastað á þakhæð hússins á lóðinni nr. 6 við Jafnasel, samkv. uppdr. Teiknist. Garðastræti 17, dags. 05.05.94, br. 10.05.97. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags dags. 18.03.98.
Samþykkt að kynna erindið fyrir nágrönnum.
Miklabraut/Skeiðarvogur, mislæg gatnamót
Lagðir fram uppdrættir og líkan að mislægum gatnamótum Miklubrautar/Skeiðarvogs, sbr. bréf borgarverkfræðings, dags. 19.03.98. Á fundinn komu Baldvin Einarsson og Finnur Kristinsson, sem kynntu tillöguna ásamt Ólafi Bjarnasyni, yfirverkfræðingi.
Frestað.
Kringlan 9, nýbygging
Lagt fram bréf Húss verslunarinnar, dags.23.3.98. varðandi nýbyggingu vestan við núverandi byggingu samkv. teikningum Ingimundar Sveinssonar arkitekts dags. 20.03.98. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags, dags. 23.03.98.
Frestað.
Skúlagata, Tónlistarhús,
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðismanna, varðandi könnun á möguleika þess að byggja tónlistarhús á lóð Eimskipafélags Íslands við Skúlagötu.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkti eftirfarandi bókun með 4 atkv.
"Í samræmi við vinnu við stefnumótun fyrir miðborg Reykjavíkur, er verið að skoða staðsetningu fyrir tónlistarhús. Í stefnumótun fyrir miðborgina voru tilgreindar nokkrar lóðir sem taldar eru gegna lykilhlutverki í framgangi miðborgarinnar, lóð Eimskipafélagsins er þar á meðal og kemur því til álita.
Tillögu minnihlutans er vísað til þeirrar vinnu".
Landspítalalóð, barnaspítali
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju verðlaunatillaga að nýjum barnaspítala á Landspítalalóð. Einnig lagðir fram minnispunktar Borgarskipulags, dags. í febr. 1998.
Samþykkt að kynna tillöguna skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 fyrir hagsmunaaðilum að Mímisvegi 2a og 2, Fjölnisvegi 20, Bergstaðastræti 81, 83 og 86 og Laufásvegi 79 og 81.
Viðarás 1-7, breyting á lóðarmörkum
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 16.03.98, m.a. varðandi breytingu á lóðarmörkum hússins nr. 1-7 við Viðarás, samkv. uppdr. Kristins Sveinbjörnssonar ark., dags. 03.07.97, síðast br. 03.03.98. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags dags. 20.03.98.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir umsögn Borgarskipulags, dags. 20.03.98.
Keilugrandi 1, breytingar
Að grenndarkynningu lokinni er lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 30.01.98, varðandi breytingu á austur einingu byggingarinnar þ.e. að reisa ketilhús og reykháf við austurhlið hússins nr. 1 við Keilugranda, samkv. uppdr. Halldórs Guðmundssonar ark., dags. 18.11.97 og umsagnir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12.12.97 og Borgarskipulags dags. 29.10.97 og athugasemdir frá: Hólmfríði D. Magnúsdóttur, Boðagranda 6, dags. 20.03.98, 52 íbúum við Fjörugranda og Boðagranda, dags. 10.03.98, Magnúsi Guðmundssyni, Fjörugranda 14, Árna R. Guðmundssyni, Fjörugranda 16 og Eiríki Sigurgeirssyni, Fjörugranda 18, dags. 12.03.98, Guðmundi J. Tómassyni, fasteignasölunni Húsvangi, dags. 12.03.98 og umsögn Borgarskipulags við þeim dags. 20.03.98. Einnig lagt fram bréf Grýtu-Hraðhreinsunar, dags. 18.03.98. Ennfremur lagðar fram nýjar teikningar dags. 19.03.98.
Frestað, nýjar teikningar verði kynntar ofangreindum íbúum.
Laugarás, Hrafnista, hjúkrunarheimili
Lagt fram bréf Halldórs Guðmundssonar ark., dags. 10.03.98, varðandi byggingu hjúkrunarálmu ásamt dagvistunarrými fyrir aldraða á lóð Hrafnist, samkv. uppdr. sama, dags. 07.03.98 og 12.03.98. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags dags.18.03.98.
Samþykkt að senda tillöguna í grenndarkynningu samkv. 7.mgr. 43.gr. laga 73/1997 til hagsmunaaðila að Brúnavegi 12 Vesturbrún 2 og Austurbrún 2.