Gullinbrú

Skjalnúmer : 9712

19. fundur 1998
Gullinbrú, hljóðmanir
Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 03.09.98, varðandi hljóðskerm austan Gullinbrúar á móts við Fannafold 59-67.
Samþykkt samhljóða. Nefndin mælist til þess að trjám verði plantað meðfram öllum veggnum.

16. fundur 1998
Gullinbrú, hljóðmanir
Kynntar tillögur að hljóðmönum við Gullinbrú meðfram Bryggjuhverfi, Foldahverfi og Hamrahverfi.
Nefndin samþykkir útfærslu hljóðmanar sunnan Gullinbrúar á móts við Bryggjuhverfi, en frestar málinu að öðru leyti.

10. fundur 1998
Gullinbrú, stígatengsl
Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 08.05.98, varðandi úrskurð skipulagsstjóra, framkvæmdaleyfi og útlit fyrirhugaðrar brúar yfir Grafarvog, samkv. teikningum Úti og Inni, dags. 06.05.98.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti framkvæmdaleyfi vegna breikkunar Gullinbrúar og byggingar nýrrar brúar. Leggja skal fyrir nefndina nánari tillögur um umferðarleiðir gangandi og hjólandi yfir Fjallkonuveg.
Vísað til kynningar í Hverfisnefnd Grafarvogs að því er varðar útlit brúar.


6. fundur 1998
Gullinbrú, breikkun
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 24.02.1998 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 23. s.m. um breikkun Gullinbrúar.


5. fundur 1998
Gullinbrú, breikkun
Lagt fram bréf borgarverkfræðings dags. 23.2.98, ásamt yfirlitsmynd gatnamálastjóra af nýrri akbraut Gullinbrúar á kaflanum frá Stórhöfða og norður fyrir Hallsveg og ennfremur helstu niðurstöður athugunar á umhverfisþáttum.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir erindi borgarverkfræðings.

6. fundur 1998
Gullinbrú, stígatengsl
Lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. 04.03.98, ásamt skýrslu um frummat á umhverfisáhrifum og fylgigögnum.
Ólafur Stefánsson kynnti. Óskað eftir nánari útfærslu á mönum, göngu- og hjólastígum í samvinnu við Borgarskipulag.

2. fundur 1998
Gullinbrú, stígatengsl
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs, dags. 14.01.98, varðandi breikkun Gullinbrúar frá Stórhöfða að Hallsvegi. Einnig lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. 23.02.98.
Samþykkt að vísa tillögunni til hverfisnefndar Grafarvogs til kynningar í nefndinni og fyrir hagsmunaaðilum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: "Við lýsum ánægju með að R-listinn skuli nú loksins hafa fallist á tillögu sem Sjálfstæðismenn fluttu í skipulags- og umferðarnefnd 21.4.´97 varðandi breikkun Gullinbrúar. Að öðru leyti vísum við til bókunar Sjálfstæðismanna í borgarráði." Fulltrúar Reykjavíkurlistans vísa til bókunar fulltrúa Reykjavíkurlistans í borgarráði varðandi Gullinbrú.

11. fundur 1997
Gullinbrú, breikkun
Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í skipulagsnefnd: Skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur leggur til við borgarráð að þegar verði gengið til viðræðna við ríkisvaldið um að tryggja að framkvæmdir við breikkun Gullinbrúar frá Stórhöfða og í gegnum gatnamótin við Hallsveg hefjist þegar á þessu ári. Í því sambandi verði skoðaður sá möguleiki að Reykjavíkurborg fjármagni framkvæmdirnar þar til fjármagn fæst til þeirra samkvæmt vegaáætlun.
Formaður skipulags- og umferðarnefndar lagði fram svofellda tillögu um málsmeðferð:
"Við afgreiðslu Alþingis á vegaáætlun kom í ljós að engar fjárveitingar eru til breikkunar á Gullinbrú á þeim tveim árum sem áætlunin náði til að þessu sinni. Lán úr borgarsjóði til framkvæmda myndi því vera til ótiltekins tíma að þessu óbreyttu. Vegna þessarar óvissu er tillögunni vísað til borgarráðs. Að auki er vísað til bókunar skipulags- og umferðarnefndar frá 12. maí s.l."
Tillagan var samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum, (fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá).
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað:
"Meðferð R-listans á tillögu Sjálfstæðismanna um breikkun Gullinbrúar ber vott um skort á stórhug. Skipulagsnefnd Reykjavíkur á að hafa skoðun á þessu máli. Hvað varðar þá tillögu R-listans að vísa tillögu Sjálfstæðismanna til borgarráðs leggja Sjálfstæðismenn áherslu á að það er ekkert nýtt að Reykjavíkurborg leiti leiða til þess að fjármagna þjóðvegaframkvæmdir. Ef Reykjavíkurborg hefði ekki á undanförnum árum verið reiðubúin til þess að fjármagna þjóðvegaframkvæmdir tímabundið....... og krafið ríkisvaldið síðan um endurgreiðslu væri illa komið í samgöngumálum Reykvíkinga. R-listin kynnti fyrir nokkrum vikum tillögu í borgarráði um að leggja það til við samgönguráðherra að 50 millj. króna fjárfesting sem fyrirhuguð var til undirbúnings mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar yrði notuð til þess að hefja hönnun á stokki þeim sem R-listinn vill leggja vestasta hluta Miklubrautar í. Sú framkvæmd leysir úr vanda örfárra eins og nýleg mótmæli íbúa við Miklubraut undirstrika. Á sama tíma og R-listinn gælir við tillögur af þessu tagi ríkir ófremdarástand í samgöngumálum Grafarvogsbúa. Á þessum málum þarf að taka".
Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
"Bókun minnihlutans er á misskilningi byggð og í henni eru rangar fullyrðingar. Í fyrsta lagi hefur skipulags- og umferðarnefnd lýst þeirri skoðun sinni að bættar samgöngur við Grafarvogs og Borgarholtshverfi um Gullinbrú væru mjög brýnar sbr. tillögu okkar á síðasta fundi. Skipulags- og umferðarnefnd er ekki ein um þessa skoðun því borgarráð og borgarstjórn samþykktu samhljóða að leggja áherslu á þessa framkvæmd á vegaáætlun. Það urðu mikil vonbrigði að Alþingi skyldi ekki deila þessari skoðun okkar á mikilvægi breikkunar Gullinbrúar. Þar er hins vegar hlutverk borgarráðs en ekki skipulags- og umferðarnefndar að fjalla um samskipti við ríkisvaldið um fjármögnun verkefna sem heyra undir ríkið. Í tillögu minnihlutans er ekkert sem þarfnast breytingar á skipulagi. Í öðru lagi er fullyrt að Reykjavíkurlistinn hafi kynnt tillögu í borgarráði um tiltekna málsmeðferð varðandi Miklubraut. Það er einfaldlega rangt eins og útskýrt var á fundinum.


10. fundur 1997
Gullinbrú, breikkun
Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og umferðarnefnd um breikkun Gullinbrúar.


Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun: "Skipulags- og umferðarnefnd beinir eindregnum tilmælum til samgönguráðherra og Alþingis að veitt verði á þessu og næsta ári úr vegasjóði til breikkunar á Gullinbrú til að bæta umferðartengsl Grafarvogs og Borgarholtshverfa við borgina. Gangi þetta eftir er lagt til við borgarráð að undirbúningi verksins verði flýtt og athugaðir möguleikar á að framkvæmdir geti hafist í haust".
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað: "Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd telja sjálfsagt og eðlilegt að skora á samgönguyfirvöld að ganga strax í framkvæmdir við breikkun Gullinbrúar. Með því að samþykkja slíka áskorun er verið að undirstrika það sem kemur fram í tillögu Sjálfstæðismanna um nauðsyn á breikkun Gullinbrúar. Að öðru leyti er tillögu Sjálfstæðismanna frestað til næsta fundar skipulagsnefndar".


8. fundur 1997
Gullinbrú, breikkun
Tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í skipulagsnefnd: Skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur leggur til við Borgarráð að þegar verði gengið til viðræðna við ríkisvaldið um að tryggja að framkvæmdir við breikkun Gullinbrúar frá Stórhöfða og í gegnum gatnamótin við Hallsveg hefjist þegar á þessu ári. Í því sambandi verði skoðaður sá möguleiki að Reykjavíkurborg fjármagni framkvæmdirnar þar til fjármagn fæst til þeirra samkvæmt vegaáætlun.
Greinargerð.
Í Grafarvogi búa nú rúmlega 12 þúsund manns. Hverfin hafa byggst hratt upp og innan skamms tíma munu lóðaúthlutanir hefjast í Staðahverfi. Fá mál eru eins mikið til umræðu meðal Grafarvogsbúa og umferðarmál enda teppist umferð til og frá hverfunum í Grafarvogi á annatímum. Má segja að ófremdarástand ríki í þessum málum og að út frá öryggissjónarmiðum sé ástandið óviðunandi. Byggingaraðilar eru jafnframt farnir að halda því fram að erfiðara sé að selja íbúðir í Grafarvogi en í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur vegna þessa ófremdarástands. Þess vegna er forgangsmál í umferðarmálum Reykjavíkur að breikka Gullinbrú og tryggja eðlilega aðkomu að Grafarvogssvæðinu. Samkvæmt vegaáætlun eiga framkvæmdir við breikkun Gullinbrúar ekki að hefjast fyrr en eftir tvö ár. Reykvíkingar geta ekki sætt sig við það.
Breikkun Gullinbrúar nú á ekki að verða til þess að framkvæmdir við svokallaða Sundabraut tefjist enda eiga framkvæmdir við Sundabraut ekki að hefjast fyrr en eftir nokkur ár. Þar er mikilli hönnunarvinnu ólokið og ólíklegt að ríkisvaldið hefji framkvæmdir við Sundabraut á næstu þremur árum. Nú er verið að ræða vegaáætlun á Alþingi og því er nauðsynlegt að nota tækifærið og taka strax upp viðræður við ríkisvaldið um þetta þjóðþrifamál.
Frestað.


10. fundur 1995
Gullinbrú, leiksvæði
Lagt fram bréf íbúa við Fannafold 23-45 varðandi ósk um frágang svæðis, sem áður var ætlað fyrir "stóra" bíla og gerð hljóðmanar. Einnig lögð fram tillaga Borgarskipulags, dags. 19.4.95. Einnig lögð fram bókun umhverfismálaráðs frá 26.4.95.

Skipulagsnefnd fellst á að ekki verði gert ráð fyrir leiksvæði vestan göngustígsins.

10. fundur 1995
Gullinbrú, breikkun
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.4.95 á bókun skipulagsnefndar frá 24.4.95 um hljóðmanir við Gullinbrú.



9. fundur 1995
Gullinbrú, breikkun
Lagt fram bréf íbúa við Fannafold 23-45 varðandi ósk um frágang svæðis, sem áður var ætlað fyrir "stóra" bíla og gerð hljóðmanar. Einnig lögð fram tillaga Borgarskipulags, dags. 19.4.95.

Samþykkt. Frágangur er ekki á framkvæmdaáætlun ársins 1995.

25. fundur 1994
Gullinbrú, hljóðmön og frágangur
Lagt fram bréf íbúa við Fannafold 23-45 varðandi ósk um frágang svæðis, sem áður var ætlað fyrir "stóra" bíla og gerð hljóðmanar.

Samþykkt. Vísað til Borgarskipulags til nánari útfærslu.

12. fundur 1994
Gullinbrú, athugasemd vegna stæða fyrir stóra bíla
Lagt fram bréf Svövu S. Gestsdóttur og Trausta Gíslasonar, Fannafold 33, dags. 6. maí 1994 með athugasemdum um truflanir vegna stæða fyrir stóra bíla við Gullinbrú

Frestað. Borgarskipulagi falið að athuga aðra staðsetningu bílastæða.