Kirkjusandur 1-5,
Hljóðvist,
Skipulags- og umferðarnefnd
16. fundur 1996
Ár 16, miðvikudaginn 24. júlí kl. 11.00 var haldinn 16. fundur skipulagsnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Ágúst Jónsson. Fundarritari var Ágúst Jónsson
Þetta gerðist:
Kirkjusandur 1-5, deiliskipulag
Lagðar fram á ný tillögur að breyttu deiliskipulagi á reit 1.340.5 og landnotkun samkv. aðalskipulagi, sem auglýstar hafa verið skv. skipulagslögum. Ennfremur lagðar fram athugasemdir sem bárust vegna auglýstra breytinga á lóðinni nr. 1-5 við Kirkjusand og umsögn Borgarskipulags um þær, dags. 24.07.1996. Lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. 23.07.1996.
Einnig lögð fram eftirfarandi gögn:
Bréf skipulagsstjóra ríkisins, dags. 10.07.96.
Skýrsla varðandi hljóðvist byggðarinnar við Kirkjusand 1-5, dags. 12.07.96, undirrituð af Stefáni Guðjohnsen, Helga Hjálmarssyni og Hauki Magnússyni.
Skýrsla skrifst.stj. byggingarfulltrúa, dags.15.07.96, um samanburð á reglugerðum vegna hljóðstigs frá umferð.
Skýrsla Stefáns Guðjohnsen, f.h. Hljóðvistar - Hljóð- og raftækniráðgjafar ehf. dags. 16.07.96.
Umsögn Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, dags. 18.07.96.
Umsögn Hollustuverndar ríkisins, dags. 18.07.96.
Ennfremur lögð fram skýrsla Stefáns Guðjohnsen, Hljóðvist í húsum Ármannsfells að Kirkjusandi nr. 1, 3 og 5, dags. 21.07.96, ásamt uppdr. Helga Hjálmarssonar arkitekts, mótt. 23.07.96, af hljóðtálmum sem gert er ráð fyrir að fullnægi kröfu um 55 db (A) hljóðstig fyrir allar íbúðir.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun:'
"Niðurstaða borgarlögmanns í minnisblaði hans, dags. 23.07.1996, er sú, að við meðferð fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu beri skipulagsnefnd að gera kröfu til þess, að tillagan uppfylli þau ákvæði, sem gr. 7.4.9. í byggingarreglugerð, sbr. viðauka 5 í mengunarvarnarreglugerð, kveður á um þegar um nýskipulag er að ræða. Sú niðurstaða er í samræmi við álit skipulagsnefndar.
Skipulagsnefnd tekur að svo stöddu ekki afstöðu til umsagnar Borgarskipulags, dags. 24.07.1996, um þær athugasemdir, sem bárust vegna auglýsingar á tillögum um breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi á reit 1.340.5 (lóðinni nr. 1 - 5 við Kirkjusand).
Með þeirri útfærslu, sem auglýst tillaga að deiliskipulagi á lóðinni nr. 1 - 5 við Kirkjusand gerir ráð fyrir, tekst ekki að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru í byggingarreglugerð og mengunarvarnarreglugerð um hljóðvist. Nefndin telur því ekki unnt að samþykkja fyrirliggjandi tillögu, en tekur að öðru leyti ekki afstöðu til breytinga á deiliskipulagi að svo stöddu.
Skipulagsnefnd getur ekki fallist á tillögu Helga Hjálmarssonar, arkitekts, dags. 23.07.1996, þar sem m.a. er gert ráð fyrir viðamiklum hljóðtálmum á borgarlandi, þ.e. á miðeyju og við akbrautarbrún Sæbrautar. Ekki er réttlætanlegt þegar um nýskipulag er að ræða að viðhafa svo miklar ráðstafanir, sem þar er gert ráð fyrir, til þess að tryggja viðunandi hljóðvist í nýjum húsum.
Tillögu um breytta landnotkun samkv. aðalskipulagi á Kirkjusandi 1 - 5 er frestað.
Skipulagsnefnd leggur áherslu á, að uppbygging á lóðinni Kirkjusandur 1 - 5 þarf að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru í byggingarreglugerð og mengunarvarnarreglugerð til nýrra bygginga, þ.á m. um hljóðvist, án þess að viðhafa þurfi svo verulegar ráðstafanir til þess, að þær stórspilli umhverfinu. Í bókun nefndarinnar 25. mars sl. var þetta sjónarmið undirstrikað, en að mati nefndarinnar hefur umsækjandi með tillögum sínum ekki sýnt fram á, að leysa megi viðfangsefnið á viðunandi hátt.
Ennfremur samþykkir skipulagsnefnd samhljóða svohljóðandi bókun:
"Bókun skipulagsnefndar vegna ábendinga um framtíðar möguleika á uppbyggingu Listaháskóla á svæðinu.
Bréf frá Félagi um Listaháskóla Íslands, dags. 01.06.1996.
Bréf frá Listaháskóla Íslands, dags. 19.06.1996.
Bréf frá Bandalagi íslenskra listamanna, dags. 25.06.1996.
Þegar fyrir liggur formleg stofnun listaháskóla með stjórn og byggingarnefnd eru skipulagsyfirvöld í samræmi við hlutverk sitt tilbúin að aðstoða við skipulagsþætti varðandi framtíðarþarfir skólans og í samræmi við forsögn og þarfagreiningu. Umrædd lóð var auglýst til sölu og hefði verið rétt að grípa inn á því stigi málsins ef þörf var talin á auknu framtíðarsvæði.
Varðandi ábendingar og athugasemdir um umferð í og við hverfið vitnar skipulagsnefnd til samþykktar borgarráðs frá 30.04.96: "Lögð fram í borgarráði bókun umferðarnefndar frá 18.04.96 um útfærslu á aðkomu auk bókunar skipulagsnefndar frá 25.03.96. Borgarráð samþykkir að fela forstöðumanni Borgarskipulags og borgarverkfræðingi að vinna frekar að málinu."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd lögðu fram svofellda bókun:
"Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa vanþóknun sinni á meðhöndlun og afgreiðslu þessa máls af hálfu meirihluta borgarstjórnar.
1. Með vitund og vilja borgarstjóra var graftarleyfi gefið út þann 4. júní s.l. eða mánuði áður en frestur sá rann út, sem íbúar hverfisins og aðrir höfðu til þess að skila inn athugasemdum sínum við breytta landnotkun og nýtt deiliskipulag á þessu svæði.
2. Veiting graftrarleyfis undir slíkum kringumstæðum er fordæmislaus í sögu borgarinnar.
3. Með veitingu leyfisins var íbúum sýnt fádæma virðingarleysi og þeim gefið til kynna að athugasemdir þeirra skiptu engu máli.
4. Samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir þegar graftrarleyfið var gefið út var ljóst að hljóðstig var langt yfir þeim mörkum, (10-17 dB(A), sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Því er undarlegt að sjá borgarstjóra lýsa því yfir í fjölmiðlum núna, sjö vikum síðar, að ekki komi til greina að samþykkja frávik frá reglugerðum hvað varðar hljóðstig. Þessar yfirlýsingar undirstrika enn betur vandræðagang meirihlutans í þessu máli.
5. Með því að gefa út graftrarleyfi hefur meirihlutinn bakað framkvæmdaraðilanum tjón. Þar sem leyfið var gefið út með samþykki borgarstjóra mátti framkvæmdaraðilinn treysta því að meirihluti væri fyrir skipulagsbreytingunum og að málið fengi skjóta afgreiðslu í borgarkerfinu".
Fulltrúar Reykjavíkurlistans í skipulagsnefnd lögðu fram svohljóðandi bókun:
"Meirihluti skipulagsnefndar vísar á bug bókun minnihluta um málsmeðferð og afgreiðslu máls af hálfu meirihluta borgarstjórnar.
Í fyrsta lagi var við útgáfu graftrarleyfis tekið skýrt fram að í því fælist á engan hátt nokkurs konar fyrirheit sbr. yfirlýsingu undirritaða af forstjóra Ármannsfells h.f., en þar segir m.a.: "Nýja lóðin verður nr. 1-5 við Kirkjusand þar sem nú stendur yfir kynning á nýju deiliskipulagi og breytingu á landnotkun, lýsir undirritaður því yfir, f.h. Ármannsfells h.f., að graftrarleyfi innifelur ekki skuldbindingu að hálfu Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi eða frekari framkvæmdir á lóðinni fyrr en skipulags- og byggingarnefndarþætti málsins er lokið og jafnframt að Ármannsfell hf. á enga kröfu á hendi Reykjavíkurborgar vegna útgáfu graftrarleyfis, þótt fyrirtækinu verði synjað um byggingarleyfi eða breytingar gerðar frá núverandi deiliskipulagstillögur".
Þar með er jafnframt vísað á bug fullyrðingum um virðingarleysi við íbúa hverfisins. Til sjónarmiða þeirra er og verður að sjálfsögðu tekið tillit. Í öðru lagi lágu endanlega samanburðargögn um hávaðamengun frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins ekki fyrir fyrr en 18. júlí s.l. og jafnframt voru uppi mismunandi skoðanir á því hvort svæðið teldist nýbyggingarsvæði eða endurbyggingasvæði. Úr því hefur nú verið skorið. Rétt er að vekja athygli á bókun minnihlutans gagnrýnir ekki málsmeðferð meirihluta skipulagsnefndar og hefði bókun þeirra því verið eðlilegri á öðrum vettvangi.
Hljóðvist,
Formaður lagði fram svofellda tillögu:
"Borgarráð samþykkti á fundi sínum 16. júlí s.l. erindi borgarverkfræðings um aukafjárveitingu að upphæð kr. 1.500.000 til mælinga á hávaða frá umferð og gerð tillaga um úrbætur.
Skipulagsnefnd samþykkir að fela Borgarskipulagi, samhliða ofannefndri rannsókn, að líta heilstætt á vandann og leggja fram tillögur um mögulegur úrbætur á breiðum grundvelli. Má þar nefna hljóðmanir af ýmsum gerðum þar sem þeim verður við komið, breytt yfirborð gatna, hugsanlega lækkun umferðarhraða o.fl. en síðast en ekki síst tillögur um hvernig minnka má umferðarþörf einkabifreiða sbr. áherslur í vinnu við endurskoðun aðalskipulags. Til að raunverulegur árangur náist þarf samræmdar aðgerðir og víðtæka samvinnu á milli borgar og ríkis, borgarbúa og fleiri aðila s.s. tryggingarfélaga þar sem um almanna heill er að ræða".
Tillagan var samþykkt samhljóða.