Hringbraut, bætt göngutengsl barna og ungmenna
Verknúmer : US150001
91. fundur 2015
Hringbraut, bætt göngutengsl barna og ungmenna, tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins (US2014110015)
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 5. nóvember 2014 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 4. nóvember 2014 um að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætt göngutengsl barna og ungmenna yfir Hringbraut til umhverfis- og skipulagsráðs. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 18. desember 2014.
Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur dags. 18. desember 2014 samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Áslaug María Friðriksdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins og bóka:
"Á hverjum degi ganga börn og ungmenni yfir Hringbraut á leið sinni í skóla og íþróttir. Oft hefur legið við slysum enda er Hringbraut fjögurra akreina stofnbraut þar sem bílumferð er þung. Óumflýjanlegt er að bregðast við og tryggja umferðaröryggi gangandi vegfarenda. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengur út á að velta upp öllum kostum sem aukið geta öryggi og að grípa til aðgerða sem fyrst. Í skýrslu Mannvits frá árinu 2009 er tekið saman með hvaða hætti hægt er að gera undirgöng og bent á þrjár mögulegar staðsetningar. Líklega þarf að skoða betur hvort og með hvaða hætti hægt er að koma við göngubrú yfir Hringbraut líkt og gert hefur verið víða um borgina. Umsögn sem meirihlutaflokkarnir í Umhverfis- og skipulagsráði hafa samþykkt lokar á frekari skoðun þessa máls nema hugsanlega að lengja græntíma gönguljósa. Það er að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokks algjörlega ófullnægjandi."
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókar:
"Framsókn og flugvallarvinir leggja áherslu á að öryggi gangandi vegfarenda verði tryggt og farið verði í það að finna öruggustu leiðina til þess sem allra fyrst".
Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Gísli Garðarsson bóka:
"Meirihluti Umhverfis- og skipulagsráðs telur mikilvægt að auka öryggi gangandi og hjólandi um alla borg - líka öryggi gangandi og hjólandi barna og unglinga í vesturbæ Reykjavíkur. Það er mat samgöngustjóra Reykjavíkur að á þessu svæði sé óæskilegt að reyna að bæta göngutengingar með undirgöngum eða göngubrúm vegna plássleysis. Straumur gangandi og hjólandi yfir Hringbraut er mikill og víða - fjölgun gönguljósa og lenging græntíma er verkefni sem þegar er farið af stað og mun halda áfram. Eitt stærsta öryggismálið er svo að lækka hraðann á Hringbrautinni. Beiðni til að lækka hraða á Hringbraut og hækka upp gönguleiðir hefur verið send inn til Vegagerðarinnar en ekki fengið jákvæða afgreiðslu þar."