Afgreiðslufundir skipulagsstjóra Reykjavíkur, Háskóli Íslands, Vatnagarðar, lóðir Eimskips, Göngubrýr, Urðarstígsreitur syðri 1.186.4, Stakkholt 2-4 og 3 Hampiðjureitur, Skipulagsráð, Holtsgöng, byggðasvæði nr. 5,

Skipulagsráð

272. fundur 2012

Ár 2012, miðvikudaginn 9. maí kl. 09:15, var haldinn 272. fundur skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð. Ráðssal. Viðstaddir voru: Hjálmar Sveinsson, Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kristín Soffía Jónsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Gísli Marteinn Baldursson, Jórunn Ósk Frímannsd Jensen og áheyrnarfulltrúinn Torfi Hjartarson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Stefán Hallsson, Ólafur Bjarnason og Helena Stefánsdóttir. Auk þess gerðu eftirtaldir embættismenn grein fyrir einstökum málum: Margrét Þormar. Fundarritari var Einar Örn Thorlacius.
Þetta gerðist:


Umsókn nr. 10070
1.
Afgreiðslufundir skipulagsstjóra Reykjavíkur, fundargerð
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda skipulagsstjóra Reykjavíkur frá 27. apríl og 4. maí 2012.


Umsókn nr. 120176 (01.6)
2.
Háskóli Íslands, Háskólasvæðið í nútíð og framtíð, kynning
Fulltrúar Háskóla Íslands kynntu hugmyndir að svæði Háskóla Íslands í nútíð og framtíð.



Umsókn nr. 120172 (01.33)
530269-7529 Faxaflóahafnir sf
Tryggvagötu 17 101 Reykjavík
3.
Vatnagarðar, lóðir Eimskips, breyting á deiliskipulagi
Lagt fram erindi faxaflóahafna sf. dags. 12. apríl 2012 varðandi breytingu á deiliskipulagi Vatnagarða, Sundabakka vegna lóða Eimskips, samkvæmt uppdrætti Arkís dags. 8. mars 2012. Vignir Albertsson skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna kynnti tillöguna.

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu.
Vísað til borgarráðs.


Umsókn nr. 120001
4.
Göngubrýr, samkeppni
Ámundi Brynjólfsson formður dómnefndar kynnti niðurstöður úr samkeppni um göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa.



Umsókn nr. 120056 (01.18.6)
5.
Urðarstígsreitur syðri 1.186.4, tillaga að deiliskipulagi fyrir reit 1.186.4
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Adamsson ehf. - arkitektastofu dags. 13. júlí 2009 að deiliskipulagi Urðarstígsreits syðri, reitur 1.186.4. Tillagan var felld úr gildi af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Er tillagan óbreytt að öðru leyti en því að bætt hefur verið við byggingarreit fyrir sólstofu (einnar hæðar byggingu með svölum á þaki) á Urðarstíg 12 sem borgarráð samþykki 12. nóvember 2009. Tillagan var auglýst frá 7. mars til 24. apríl 2012. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir: Rúnar Ingimarsson og Birna Eggertsdóttir dags. 23. apríl 2012, Bragi L. Hauksson dags. 24. apríl 2012 og Gunnlaugur Björn Jónsson f.h. eigenda Urðarstígs 16A dags. 24. apríl 2012. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsstjóra dags. 3. maí 2012 og umsögn lögfræði og stjórnsýslu dags. 3. maí 2012.
Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra dags. 3. maí 2012 og umsagnar lögfræði og stjórnsýslu dags. 3.maí 2012.
Vísað til borgarráðs.

Gísli Marteinn Baldursson sat hjá við afgreiðslu málsins.


Umsókn nr. 120177 (01.24.11)
6.
Stakkholt 2-4 og 3 Hampiðjureitur, breyting á deiliskipulagi
Lögð fram tillaga KRark ehf að breytingu á deiliskipulagi Hampiðjureits vegna lóðanna nr. 2-4 og 3 við Stakkholt dags. 10. ágúst 2007 breytt 26. mars 2008. Einnig er lagt fram bréf Þorvaldar Gissurarsonar dags. 3. apríl 2012, bréf Sigurbjörns Þorbergssonar hrl. dags. 27. apríl 2012 og minnisblað lögfræði og stjórnsýslu dags. 4. maí 2012.
Kynnt.

Umsókn nr. 120200
7.
Skipulagsráð, stjórnkerfisbreytingar
Lögð fram tillaga stýrihóps um nýtt umhverfis- og skipulagssvið og nýja skrifstofu eigna og atvinnuþróunar dags. 26. apríl 2012, ásamt greinar gerð og fylgiskjölum.

Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 12.00
Fulltrúi Besta flokksins Elsa Hrafnhildur Yeoman og fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir fagna tillögum um nýtt umhverfis- og skipulagssvið og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Tillögurnar voru kynntar á sameiginlegum kynningarfundi umhverfis- og samgönguráðs og skipulagsráðs og telja fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar að þær uppfylli þau markmið sem stýrihópurinn um endurskoðun á stjórnskipulagi framkvæmda- og eignasviðs, skipulags- og byggingarsviðs og umhverfis- og samgöngusviðs átti að hafa til hliðsjónar, en þau voru:
1. Tryggja árangur í lykilverkefnum á sviði umhverfis- og skipulagsmála, umhirðu og framkvæmda.
2. Tryggja heildstæða þjónustu við borgarbúa og atvinnulíf sem er skilvirk, aðgengileg og sýnileg.
3. Móta tillögu um skipulag sem styður við heildstæða sýn á verkefni sem eru þvert á núverandi svið með hagræðingu að leiðarljósi.
4. Efla frumkvæði varðandi þætti eins og fegrun og hreinsun borgarumhverfisins."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson, Gísli Marteinn Baldursson og Jórunn Frímannsdóttir óskuðu bókað:
Hjá núverandi meirihluta er það orðin regla að stórar ákvarðanir séu teknar án nokkurs samráðs við íbúa, starfsfólk eða kjörna fulltrúa. Þau vinnubrögð þekkja íbúar úr skólastarfi og starfsfólk borgarinnar að vilji til sameiginlegrar niðurstöðu hefur aldrei verið minni. Það skrifast alfarið og einungis á núverandi meirihluta, sem í byrjun skýrði ólýðræðisleg vinnubrögð sín með reynsluleysi en getur nú þegar kjörtímabilið er hálfnað ekki skýrst af neinu öðru en viljaleysi. Nú eru lagðar fram tillögur að breytingum á stjórnkerfi borgarinnar, án þess að þær hafi fengið eðlilega umfjöllun í stjórnkerfisnefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa slíkar breytingar. Sú nefnd var ekki boðuð til fundar í fjóra mánuði, en á sama tíma vann meirihlutinn þessar tillögur án aðkomu frá kjörnum fulltrúum minnihlutans. Þannig hefur meirihlutinn bæði vikið frá þeim ákvæðum í samþykktum borgarinnar sem fjalla um verkefni stjórnkerfisnefndar og frá því farsæla vinnulagi að fulltrúar allra flokka eigi aðkomu að breytingum á stjórnkerfi borgarinnar. Alveg óljóst er hvort nokkur fjárhagslegur ávinningur hlýst af þessum breytingum, en frekari upplýsingum um það og aðra hagræðingu verður óskað eftir í stjórnkerfisnefnd. Sá endalausi afsláttur sem gefinn er á lýðræðislegum vinnubrögðum á vettvangi borgarstjórnar er alfarið á ábyrgð meirihlutans, en skaðar hagsmuni borgarbúa og stjórnmálin almennt.

Áheyrnarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Torfi Hjartarson í skipulagsráði Reykjavíkur óskaði bókað:
Ég tel að hugmyndir um sameiningu ráða og sviða sem tengjast viðfangsefnum ráðsins ekki hafa verið kynntar og ræddar í ráðinu þannig að hægt sé að taka til þeirra afstöðu. Ég lýsi furðu minni á að afgreiðslu málsins skuli ekki frestað til næsta fundar.


Umsókn nr. 80500
8.
Holtsgöng, byggðasvæði nr. 5, lýsing, breyting á svæðisskipulagi
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 27. apríl 2012 um samþykkt borgarráðs þann 26. apríl 2012 vegna breytinga á svæðisskipulagi, höfuðborgarsvæðisins byggðasvæði 5.