Nýr Landspítali við Hringbraut,
Hringbraut,
Skipulagsráð
268. fundur 2012
Ár 2012, miðvikudaginn 21. mars kl. 10:25, var haldinn 268. fundur skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð. Ráðssal. Viðstaddir voru: Páll Hjalti Hjaltason, Hjálmar Sveinsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kristín Soffía Jónsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Gísli Marteinn Baldursson, Jórunn Ósk Frímannsd Jensen og áheyrnarfulltrúinn Torfi Hjartarson.
Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Stefán Hallsson, Ágúst Jónsson, Ólafur Bjarnason, Stefán Finnsson og Marta Grettisdóttir
Auk þess gerðu eftirtaldir embættismenn grein fyrir einstökum málum:
Ágústa Sveinbjörnsdóttir og Margrét Leifsdóttir.
Fundarritari var Einar Örn Thorlacíus.
Þetta gerðist:
Umsókn nr. 110037 (01.19)
580810-0710
SPITAL ehf
Geirsgötu 9 101 Reykjavík
1. Nýr Landspítali við Hringbraut, lýsing, nýtt deiliskipulag
Lögð fram umsókn Spital ehf. dags. 13 september 2010, lýsing Spital vegna Landspítala við Hringbraut dags. 25. janúar 2011, drög að endurskoðaðu varðveislumati dags. 2. febrúar 2011 ásamt umsögnum hagsmunaaðila og umsögn Skipulagsstofnunar dags. 2. mars 2011 ásamt fornleifaskráningu Minjasafns Reykjavíkur dags. 1. desember 2011.
Einnig er lögð fram tillaga SPITAL að deiliskipulagi Landsspítala við Hringbraut samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum dags. 10. ágúst 2011 br. 8. mars 2012 ásamt ásýndarmyndum og skuggavarpi dags. 10. ágúst 2011 br. 8. mars 2012 og greinargerð og skilmálum dags. 8. ágúst 2011 br. að hluta 24. ágúst 2011 uppfært 12. mars 2012, ásamt minnisblaði dags. 12. apríl 2011, bréf Spital til skipulagsráðs dags. 28. apríl 2011, bókun umhverfis- og samgöngusviðs dags. 10. maí 2011 þrívíddarmyndir dags. 19. maí 2011 minnisblað SPITAL dags. 7. júní 2011, minnisblað SPITAL varðandi umferðardreifingu dags. 7. júní 2011 , minnisblað SPITAL vegna bílastæða dags. 20. júní 2011, minnisblað verkefnisstjóra dags. 28. júní 2011 ,
minnisblað SPITAL dags. 1. júlí 2011 og minnisblað skipulags- og byggingarsviðs dags. 5. júlí 2011, breytt 17. ágúst 2011.
Einnig eru lagðar fram eftirfarandi skýrslur:
,,greinargerð um samgöngur'' dags. 19. mars 2012, ,,þyrlupallur forsendur'' dags. 18. apríl 2011, ,,flutningur hættulegra efna um Hringbraut´´, ,,áhættugreining´´ dags. 4. mars 2011, ,gróður á lóð Landspítalans '' dags. 10. maí 2011, breytt 12. mars 2012, samgöngustefna 1. útgáfa dags. í maí 2011 ásamt kynningarbréfi dags. 30. maí 2011 og ,,
hljóðvistarskýrsla´´dags. 20. mars 2012., ásamt hljóvistarkortum.
Kynning stóð til og með 1. október 2011. Eftirtaldir aðilar sendu inn ábendingar og athugasemdir: Tómas R. Hansson dags. 5. september 2011, Orri Þór Ormarsson dags. 6. sept., Finnbogi Gústafsson og Edda Hallsdóttir dags. 30. sept., Páll Benediktsson f.h. húsfélagsins að Miklubraut 22-30 dags. 30. sept., Hilmar Þór Björnsson, dags. 30. sept., Þórir Einarsson, dags. 30. sept., Elín Steinarsdóttir, dags. 30. sept., Katrín Þorsteinsdóttir, dags. 30. sept., Einar Eiríksson og Ásdís Gestsdóttir f.h. átakshóps suður Þingholta "Verjum hverfið" dags. 30. sept., Sturla Snorrason dags. 30. sept., Þorbergur Þórsson dags. 30. sept., Þóra Andrésdóttir dags. 1. okt., Þóra Andrésdóttir dags. 1. okt., Steinunn Þórhallsdóttir f.h. Íbúasamtök 3. hverfis dags. 1. okt., Magnús Skúlason f.h. Íbúasamtök Miðborgar dags. 4. okt., Hollvinir Grensásdeildar, dags. 26. sept. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis og samgöngusviðs dags. 29. september 2011.
Lögð fram umferðarskýrsla umhverfis og samgöngusviðs dags. 19. mars 2012 ásamt minnisblaði SPITAL dags. 30. nóvember 2011,
drög að greinargerð SPITAL dags. 8. janúar 2012 um samgöngur vegna deiliskipulags fyrir nýjan Landspítala við Hringbraut og minnisblað Haraldar Ólafssonar veðurfræðings dags. í febrúar 2012 um vindafar við nýjan Landsspítala Háskólasjúkrahús, minnisblað SPITAL dags. 28. febrúar 2012, snið 1 snið G vegna sjúkrahótels og áhættugreining vegna tengibrúa dags. 27. janúar 2012.
Samþykkt að deiliskipulagstillagan, forsendur hennar og umhverfismat verði kynnt fyrir Reykvíkingum og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi skv. 4.mgr. 40.gr.skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Besta flokksins Páls Hjaltasonar og Elsu Hrafnhildar Yeoman og fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson, Gísli Marteinn Baldursson og Jórunn Frímannsdóttir greiddu atkvæði á móti tillögunni og óskuðu bókað:
"Tækifæri til að styrkja spítalastarfsemina á svæðinu með skynsamlegri uppbyggingu í sátt við eldri byggð er nú verið að glata.
Með skipulaginu er veitt heimild til þess að byggingarmagn á lóðinni verði 289 þúsund fermetrar. Það er fjórföldun á öllu því byggingarmagni sem þar er fyrir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fallast ekki á slíka óraunhæfa uppbyggingu á reitnum sem mun verða yfirþyrmandi og í engu samræmi við þá byggð sem þar stendur nú, hvorki á reitnum né í nærliggjandi hverfum eins og þrívíddarmyndir staðfesta.
Óskiljanlegt flaustur einkennir þetta mál sem sést af því að til stendur að endurskipuleggja norðurhluta spítalalóðarinnar um leið og deiliskipulag sem tekur til þeirrar sömu lóðar hefur verið samþykkt. Engin fordæmi eru fyrir slíkum vinnubrögðum. Borgarbúum er boðið að gera athugasemdir við skipulag sem mun verða breytt og byggingarmagn aukið enn frekar strax að loknu auglýsingarferlinu. Skipulagslög voru sett til að auka réttaröryggi og virkt íbúalýðræði en hér er stefnt í öfuga átt.
Tillagan hefur að engu forsögn skipulagsráðs, sem kvað á um að sjónás að gömlu Landspítalabyggingunni myndi halda sér og að hin fallega bygging Guðjóns Samúelssonar fengi að njóta sín í skipulaginu. Í þessari tillögu er lokað fyrir nær alla þá sjónása. Sömuleiðis gengur þessi tillaga gegn þeim forsendum sem skipulagsráð gaf í áðurnefndri forsögn, að gamla Hringbrautin fengi að halda sér og þar með sjónásinn að aðalbyggingu Háskólans. Sú vel hugsaða og fallega hönnun frá fyrri hluta síðari aldar hverfur undir hinn gríðarstóra meðferðarkjarna sem nú rís.
Lóð Landspítala Háskólasjúkrahúss hefur verið verulega minnkuð en uppbyggingin aukin margfalt. Ekki liggur fyrir sjálfstætt mat á byggingarþoli lóðarinnar með tilliti til framtíðarþróunar, umferðar, stærðarhlutfalla, umhverfis, yfirbragðs og ásýndar. Sú heimild sem stefnt er að veita til uppbyggingar er óafturkræf og mun standa um ófyrirsjáanlega framtíð. "
Áheyrnarfullltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfi Hjartarson óskaði bókað:
" Vinstrihreyfingin-Grænt framboð styður uppbyggingu sjúkrahúss og fagnar tækifærum sem í því felast til hagræðingar og eflingar á heilbrigðisþjónustu við alla landsmenn. Leggja ber áherslu á vistvænar samgöngur við nýtt sjúkrahús og draga sem mest úr áhrifum umferðar á nærliggjandi byggð. Að því hefur verið unnið. Jafnframt þarf að tryggja að öflugt sjúkrahús falli vel að skipulagi og almannarými í höfuðborginni. Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs í skipulagsráði Reykjavíkur gagnrýnir að tillögur um byggingu nýs Landspítala hafi ekki fundið eldri byggingum og landi sem að þeim liggur á spítalasvæði norðan gömlu Hringbrautar þýðingarmeira hlutverk. Þess í stað hefur gríðarstór meðferðarkjarni í einu húsi sunnan eldri bygginga og næst byggðinni í Þingholtum orðið stærri en ráð var fyrir gert í samkeppnistillögu. Nokkur svæði ofan gömlu Hringbrautar virðast lítið nýtt og styðja þarf betur við götumynd Snorrabrautar sem gegna mun lykilhlutverki við uppbyggingu í Vatnsmýri. Nái tillögur sem nú eru til umfjöllunar fram að ganga liggur fyrir samkomulag um að þróa frekar skipulag á spítalasvæðinu norðan- og austanverðu og því þarf að fylgja fast eftir. Almenningur fær nú tækifæri til að bregðast við tillögunum og gæta þarf vandlega að rétti hans til umsagnar og áhrifa.
Fulltrúar Besta flokksins Páll Hjaltason og Elsa Hrafnhildur Yeoman og fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir óskuðu bókað:
"Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar fagna því að að tillaga að deiliskipulagi fyrir Nýjan Landspítala-Háskólasjúkrahús við Hringbraut skuli nú tilbúin til kynningar á opnum borgarafundi, eins og skipulagslög gera ráð fyrir. Staðsetningin hefur legið fyrir um árabil. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar eru sannfærðir um að þetta sé besta mögulega staðsetningin. Tillagan hefur verið í vinnslu í tvö ár og hefur verið rædd ítarlega. Hún er niðurstaða mikils undirbúnings og tveggja samkeppna. Hún hefur tekið mörgum jákvæðum breytingum í meðferð skipulagsráðs. Mikil áhersla er lögð á að spítalinn fylgi eftir metnaðarfullri, vistvænni samgöngustefnu. Mikilvægur árangur hefur náðst í samingum við ríkisvaldið sem fela í sér að spítalinn byggist upp á minna svæði en upphaflega var áformað. Það kemur meðal annars í veg fyrir að stór landsvæði á mikilvægum stað við miðborgina séu ónýtt til langs tíma. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar eru meðvitaðir um viðkvæmt nábýli við íbúðarbyggðina í sunnanverðu Skólavörðuholti en telja að fyrirhugaðar byggingar muni fara ágætlega í borgarlandslaginu. Vakin er athygli á því að þéttleikinn á fyrirhugðum byggingarreitum er sambærilegur við þéttleikann í miðborg Reykjavíkur og í fyrirhugaðri byggð í Vatnsmýri.
Umsókn nr. 120092
2. Hringbraut, breyting á deiliskipulagi færslu Hringbrautar
Lögð fram tillaga Landmótunar varðandi breytingu á deiliskipulagi Hringbrautar. Í breytingunni felst að felldur er úr gildi hluti deiliskipulagsins umhverfis Hlíðarfót. Svæðið verður innan deiliskipulagsmarka Landsspítala Háskólasjúkrahúss, samkvæmt uppdrætti Landmótunar dags. 22. nóvember 2011, breytt. 12. mars 2012.
Kynnt.