Laugavegur

Verknúmer : SR050002

9. fundur 2005
Laugavegur, fyrirspurn frá Ólafi F. Magnússyni
Lögð fram að nýju eftirfarandi fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar áheyrnarfulltrúa F-listans vegna deiliskipulags Laugavegar.

Á fundi Skipulagsráðs 23. febrúar sl. lagði undirritaður fram bókun, þar sem gerð var grein fyrir heiðursmannasamkomulagi sem hann gerði við borgarstjóra að loknum borgarráðsfundi 10. febrúar sl. um að fresta tillögu sinni í borgarstjórn um myndun nýs starfshóps um endurskoðun á deiliskipulagi við Laugaveg milli borgarstjórnarfunda eða frá 15. febrúar til 1. mars.
Borgarstjóri hét því á móti að ekki yrðu fluttar aðrar tillögur um málið á meðan frestunin stæði eða með öðrum hætti yrði reynt að ýta tillögu F-listans út af borðinu. En einmitt það gerðist þegar formaður Skipulagsráðs tilkynnti í fjölmiðlum að hann myndi flytja tillögu um "rýnihóp" sem skyldi skoða hvers konar byggingar kæmu í stað þeirra sem heimilað yrði að rífa.
Formanni Skipulagsráðs var heimilað að ganga frá svarbókun við bókun undirritaðs í lok fundarins 23. febrúar sl. Hann virðist hins vegar hafa farið út fyrir ramma eðlilegra fundarskapa við frágang bókunarinnar, sem ætla má að hafi tekið klukkustundir fremur en mínútur. Undirrituðum var ekki kunnugt um furðulega bókun R-listans í Skipulagsráði fyrr en á opnum fundi Vinstri Grænna um Laugavegsmálið þá um kvöldið. Þá "upplýsti" formaður Skipulagsráðs í lokaorðum fundarins (þegar enginn gat verið til andsvara) að Ólafur F. Magnússon hefði "haft gullið tækifæri til að hafa rík áhrif á mótun deiliskipulagsins á undirbúnings- og vinnslustigi sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsi og tillögurétt bæði í skipulagsnefnd og borgarráði." Þar hafi 17 af 19 reitum þegar verið afgreiddir í góðri sátt á síðustu þremur árum, en engin breytingartillaga verið lögð fram af Ólafi F. Magnússyni í þeirri málsmeðferð og "raunar engar bókanir verið lagðar fram sem bent gætu til andstöðu hans við fyrirhugaða uppbyggingu á einstökum reitum." Að mati undirritaðs felast vísvitandi blekkingar í áðurnefndri bókun, sem R-listinn og borgarstjóri hafa látið enduróma í borgarstjórn og borgarráði. Enn ósmekklegri vinnubrögð felast í þeim vinnubrögðum hjá borgarstjóra að efna til opins fundar í Ráðhúsinu síðdegis í dag um uppbyggingu og verndun Laugavegar án þess að fulltrúar F-listans séu látnir vita. Málið væri ekki til umræðu í borgarsamfélaginu nema vegna frumkvæðis og tillöguflutnings F-listans í borgarstjórn.
Undirritaður beinir því eftirfarandi spurningum til fulltrúa R-listans í Skipulagsráði og formanns ráðsins:
1. Hvers vegna greinir R-listinn ekki frá ítarlegri fyrirspurn og gagnrýni undirritaðs vegna þegar hafins og fyrirhugaðs niðurrifs gamalla húsa við Laugaveg á fundi skipulagsnefndar 4. febrúar 2004 og svarbréfi skipulagsfulltrúa frá 25. febrúar 2004?
2. Hvers vegna greinir R-listinn ekki frá ítrekaðri fyrirspurn og gagnrýni undirritaðs vegna þessara niðurrifsáforma á fundi skipulagsnefndar 10. mars 2004 og svarbréfi skipulagsfulltrúa sem birtist ekki fyrr en 10 vikum síðar eða 19. maí 2004?
3. Var fulltúum R-listans í Skipulagsráði ókunnugt um sjónvarps- og blaðaviðtöl við undirritaðan, ásamt greinum eftir hann í blöðum og tímaritum um þessi víðtæku niðurrifsáform allt frá janúarmánuði 2004?
4. Var formanni Skipulagsráðs kunnugt um það heiðursmannasamkomulag sem borgarstjóri gerði við undirritaðan 10. febrúar sl. og borgarráðsfulltrúarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Stefán Jón Hafstein voru vitni að?
5. Er formanni Skipulagsráðs kunnugt um að enginn í borgarstjórnarflokki F-listans hefur verið látinn vita af opnum fundi um Laugavegsmálið, sem haldinn verður í Ráðhúsinu síðar í dag?
6. Telur formaður Skipulagsráðs það eðlileg vinnubrögð að sá borgarfulltrúi og jafnframt eini fulltrúi í Skipulagsráði sem hefur haldið uppi gagnrýni á fyrirhugað fjöldaniðurrif gamalla húsa við Laugaveg og á frumkvæði að því að víðtæk umræða fer loks fram um þetta niðurrif meðal borgarbúa sé sniðgenginn svo gróflega af borgarstjóra og flokkssystkinum hennar?

Ólafur F. Magnússon, áheyrnarfulltrúi F-lista í skipulagsráði og borgarfulltrúi.


8. fundur 2005
Laugavegur, fyrirspurn frá Ólafi F. Magnússyni
Ólafur F. Magnússon lagði fram fyrirspurn vegna deiliskipulags Laugavegar.