Reykjavíkurflugvöllur, Öskjuhlíð/Nauthólsvík, Höfuðborgarsvæðið, svæðisskipulag,

Skipulags- og umferðarnefnd

4. fundur 1999

Ár 1999, mánudaginn 15. febrúar kl. 12:00, var haldinn 4. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðmundur Haraldsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Júlíus V. Ingvarsson. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:


Reykjavíkurflugvöllur, br. deiliskipulag
Lögð fram tillaga að endurskoðun á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, samkv. uppdr. og greinargerð Teiknistofunnar Ármúla 6, dags. 19.01.99, síðast br. 12. febr.´99, mótt. 15.2.1999 og umhverfisskipulag Borgarskipulags, dags. feb.´99 ásamt fundargerð frá fundi 7.1.99 um Reykjavíkurflugvöll, bréfi Flugmálastjórnar, dags. 20.01.99 og kynningargögnum flugmálastjóra frá 25.01.99. Einnig lagt fram bréf undirbúningshóps samtaka um betri byggð dags. 8.2.99. Ennfremur lögð fram skýrsla Almennu Verkfræðistofunnar h.f. og Hönnunar h.f. um frummat á umhverfisáhrifum vegna endurbóta á Reykjavíkurflugvelli, dags. feb. 1999.
Á fundinn komu Haukur Hauksson, aðstoðarflugmálastjóri, ásamt fulltrúum frá Almennu verkfræðistofunni og kynntu tillöguna og frummat á umhverfisáhrifum.
Inga Jóna Þórðardóttir lagði fram svofellda tillögu:
#"Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að leggja til við borgarráð að aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 verði breytt þannig að umferðartenging verði tryggð um Hlíðarfót að Kringlumýrarbraut."#

Tillagan var felld með atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista gegn atkv. fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir með 3 samhljóða atkv. að leggja til við borgarráð að deiliskipulagstillaga að Reykjavíkurflugvelli, dags. 12.2.99, þar sem gerðar eru breytingar á gildandi deiliskipulagi vegna fyrirhugaðra endurbyggingar flugbrauta verði auglýst sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 en ennfremur er Borgarskipulagi falið að kynna tillöguna rækilega fyrir almenningi.
Nefndin samþykkir ennfremur með 3 atkv. að leggja til við borgarráð að auglýst verði breyting á aðalskipulagi á og í grennd við flugvallarsvæðið í eftirtöldum atriðum:
1. Að setja inn tengibraut að flugstöð með helgunarsvæði.
2. Breytingar á mörkum flugvallarsvæðis að Nauthólsvík. Gamli Nauthóll og umhverfi verði grænt svæði og sameinist útivistarsvæði í Nauthólsvík sbr. deiliskipulag Nauthólsvíkur.
3. Fylling og færsla göngustígs út fyrir öryggissvæði við suðurenda N-S brautar 02/20.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu framangreindra tillagna varðandi breytingar á aðal- og deiliskipulagi.

Fulltrúar Reykjavíkurlista í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað:
#Reykjavíkurflugvöllur er í hjarta höfuðborgarinnar og ýmis skipulagsverkefni og framkvæmdir borgarinnar tengjast endurgerð og uppbyggingu á flugvallarsvæðinu og liggja að því s.s. Háskólasvæðið, Landspítalasvæðið, færsla Hringbrautar, nálæg íbúðasvæði og Öskjuhlíð með Nauthólsvík.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir að tillögu sinni í þessu ljósi að starfshópur með fulltrúum Borgarskipulags, borgarverkfræðings, flugmálastjóra og flugvallarstjóra fylgist með og samræmi skipulagsáætlanir og framkvæmdir við flugvallarsvæðið. Sérstök áhersla er lögð á útfærslu og framkvæmd við flugbrautarenda að Hringbraut og miðborginni. Það er krafa skipulags- og umferðarnefndar að lokun 07-25 brautarinnar verði flýtt eins og kostur er. Á sama tíma verði unnið af fullri alvöru að því að flytja æfinga-, kennslu- og ferjuflug af Reykjavíkurflugvelli í samræmi við áherslur í Aðalskipulagi Reykjavíkur.
Vísað er til samþ. skipulags- og umferðarnefndar frá 25.01.1999 um að huga þegar í stað að öðru flugvallarstæði fyrir áætlunarflugið innanlands í tengslum við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem nú er unnið að. Jafnframt er vísað til áskorunar borgarráðs frá ágúst s.l. til flugmálayfirvalda um að leita allra leiða til að draga úr óþægindum þeim sem borgarbúar verða fyrir vegna flugumferðar.#

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað:
#"Við sitjum hjá við afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar að tillögu að endurskoðun deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar þar sem umferðartenging sú sem sýnd er að og frá flugvallarsvæðinu er að okkar mati alls ófullnægjandi. Ein megin ástæða fyrir flutningi flugstöðvarbyggingar og þjónustukjarna er að tryggja betri umferðartengingu við það svæði. Fyrirliggjandi tillaga tryggir ekki betri samgöngur en flugvallarsvæðið býr við í dag."#

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
#Sú umferðartenging, sem gert er ráð fyrir í tillögu að endurskoðun deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar er í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur. Ein af meginforsendum fyrir þeim umferðartengingum sem eru í gildandi aðalskipulagi, byggja á umhverfissjónarmiðum, m.a. friðun Fossvogsbakka og borgarráð hefur þegar staðfest. Það er einnig stefna borgaryfirvalda að allt æfinga-, kennslu- og ferjuflug verði flutt frá Reykjavíkurflugvelli en áætluð umferð æfingakennslu- og ferjuflug um völlinn nemur um 80% af flugumferð vallarins. Það er mat okkar að þær umferðartengingar sem sýndar eru í gildandi aðalskipulagi séu fullnægjandi.#


Öskjuhlíð/Nauthólsvík, skipulag - lokahús
Lögð fram að nýju uppfærð tillaga og greinargerð Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts að deiliskipulagi Öskjuhlíðar-Nauthólsvíkur, dags. 09.02.98, br. 8. og 12. febr. ´99. Einnig lagt fram bréf Heilbrigðis- og umhverfisnefndar, dags. 11.09.98. Ennfremur lagt fram bréf Ivon Stefáns Cilia, f.h. Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 03.02.99, vegna stækkunar á lokahúsi á Öskjuhlíð, samkv. uppdr. Teiknistofunnar Ármúla 6, dags. 02.02.99.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkti með 3 samhljóða atkv. að leggja til við borgarráð að tillagan verði auglýst samkv. skipulags- og byggingarlögum. (Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.) Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vísa til bókunar sinnar um Hlíðarfót i máli nr. 103.99 (Reykjavikurflugvöllur) og benda á að sömu sjónarmið gildi um Hlíðarfót í þessum tveimur málum.

Höfuðborgarsvæðið, svæðisskipulag,
Lagðar fram hugmyndir Borgarskipulags og Borgarverkfræðings um hvaða svæði og umferðargötur séu til umfjöllunar í svæðisskipulagi. Einnig kynnt drög að dagskráratriðum á fundi skipulags- og umferðarnefndar og borgarráðs um svæðisskipulag þann 22. n.k.