Norðlingaholt,

Skipulags- og byggingarnefnd

112. fundur 2003

Ár 2003, föstudaginn 11. apríl kl. 11:20, var haldinn 112. fundur skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 3, 4. hæð. Viðstaddir voru: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Þorlákur Traustason, Katrín Jakobsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Guðmundsson og áheyrnarfulltrúinn Ólafur F. Magnússon. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Salvör Jónsdóttir, Helga Bragadóttir, Ólafur Bjarnason, Ágústa Sveinsbjörnsdóttir og Björn Axelsson. Fundarritari var Ívar Pálsson.
Þetta gerðist:


Umsókn nr. 10057 (04.79)
441099-3129 Rauðhóll ehf
Ármúla 21 108 Reykjavík
710178-0119 Teiknistofan ehf
Brautarholti 6 105 Reykjavík
1.
Norðlingaholt, deiliskipulag
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Teiknistofunnar ehf, Ármúla 6, að deiliskipulagi Norðlingaholts, dags. 10.02.03, ásamt greinargerð, dags. í febrúar 2003. Málið var í auglýsingu frá 21. febrúar til 4. apríl, athugasemdafrestur var til 4. apríl 2003. Athugasemdabréf bárust frá Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 16.01.03, Landssíma Íslands hf., dags. 19.03.03, Olís, dags. 01.04.03, Ólöfu Þorvarðardóttur, Sólvallagötu 14, eiganda landsins Yrjar við Elliðavatn, dags. 04.04.03, Gísla Erni Bjarnhéðinssyni, Frostafold 20-401, dags. 04.04.03, Birni I. Guðmundssyni, P.O. Box 10109, dags. 03.04.03, Gísla Í. Guðmundssyni, Víðivöllum við Elliðavatn, dags. 04.04.03. Einnig lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir, dags. 11.04.03, og umsagnir forstöðumanns verkfræðistofu umhverfis- og tæknisviðs dags. 11.04.03, athugasemdabréf Olís og fasteignadeildar Landssíma Íslands.
Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa og forstöðumanns verkfræðistofu.
Vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Þegar fyrsta tillaga R-listans að deiliskipulagi var kynnt lýstu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir andstöðu við svo háa og þétta byggð. Sömuleiðis var mótmælt vinnubrögðum við undirbúningu og kynningu á skipulaginu. Undir þessi sjónarmið tóku íbúar á svæðinu og aðrir hagsmunaaðilar sem að mótmæltu harðlega fyrirhuguðu skipulagi.
Með nýrri tillögu að byggð á þessu svæði hefur R-listinn komið til móts við okkar sjónarmið og íbúanna, með því að lækka hæð fjölbýlishúsa, auk hlufall sérbýlis og minnka þéttleika á svæðinu.
Núverandi tillaga er því mjög til bóta. Engu að síður hefðu Sjálfstæðismenn viljað sjá deiliskipulagið með minni þéttleika og meira í anda fyrri skipulagshugmynda Sjálfstæðisflokksins. Þær hugmyndir sem hafa verið kynntar varðandi mislæga gatnamót við Rauðavatn, er gera ráð fyrir umferðarmannvirkjum út í vatnið, eru að okkar mati óásættanleg. Einnig ítrekum við fyrri afstöðu hvað varðar samning við Rauðhól.

Ólafur F. Magnússon áheyrnarfulltrúi F-listans óskaði bókað:
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á fyrra deiliskipulagi eru mjög til bóta og komið hefur verið til móts við athugasemdir í veigamiklum atriðum. Í samræmi við þetta hafa borist mun færri athugasemdir við hið breytta deiliskipulag en fyrra skipulag.
Í umsögn Reykjavíkurborgar er m.a. gert ráð fyrir betri aðgreiningu reiðleiða frá annarri umferð, þó e.t.v. þurfi að gera enn betur í þeim efnum. Ljóst er að öruggari gönguleiðir barna innan hverfisins hafa ekki verið tryggðar. Jafnframt eru umferðartengingar við hverfið óviðunandi til lengri tíma litið og kalla þær á að mislæg gatnamót þurfi að liggja út í Rauðavatn þegar að þeim kemur.
Að lokum lýsi ég sem fyrr áhyggjum mínum af svo þéttri byggð í námundan við vatnasvið og lífríki Elliðavatns og Elliðaáa, einkum nálægð byggðarinnar við vatna- og fllóðasvæði Bugðu austan hverfisins.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Rétt er að taka fram að ekkert liggur fyrir um mislæg gatnamót eða útfærslu þeirra á mótum Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar. Talið er að þær umferðartengingar sem nú er gert ráð fyrir í skipulagi muni nægja næstu 15 - 20 árin. Því er á þessari stundu ekkert hægt að fullyrða um útfærslu gatnamóta.
Að öðru leyti er fagnað samstöðu um skipulagið sem staðfestir þá stefnu borgaryfirvalda að nýta land vel og vinna að skipulagi með samráði við íbúa og hagsmunaðila.