Sogamýri, Norðlingaholt, Aðalskipulag Reykjavíkur, Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa,

Skipulags- og byggingarnefnd

81. fundur 2002

Ár 2002, miðvikudaginn 14. ágúst kl. 09:05, var haldinn 81. fundur skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 3, 4. hæð. Viðstaddir voru: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Anna Kristinsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Guðmundur Haraldsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kristján Guðmundsson og áheyrnarfulltrúinn Sveinn Aðalsteinsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Salvör Jónsdóttir, Magnús Sædal Svavarsson, Helga Bragadóttir, Stefán Hermannsson, Ólafur Bjarnason, Ágúst Jónsson, Bjarni Þór Jónsson og Bjarnfríður Vilhjálmsdóttir. Auk þess gerðu eftirtaldir embættismenn grein fyrir einstökum málum: Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir og Ólöf Örvarsdóttir. Fundarritari var Ívar Pálsson.
Þetta gerðist:


Umsókn nr. 20111 (01.47.1)
431097-2659 Markarholt,sjálfseignarstofnun
Skeiðarvogi 153 104 Reykjavík
1.
Sogamýri, breyting á deiliskipulagi
Lögð fram drög að forsögn skipulagsfulltrúa, dags. 06.08.02, að breytingu á deiliskipulagi í Sogamýri. Deiliskipulagið afmarkast af Suðurlandsbraut að norðan, Miklubraut að sunnan og Skeiðarvogi/Mörkinni að vestan.
Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúar Reykjavíkurlista.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki fallist á að byggingarsvæðið verði stækkað yfir á grænt svæði en leggja áherslu á að fyrirhuguð byggð verði í samræmi við aðra byggð á svæðinu.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Fulltrúar Reykjavíkurlista benda á að mikil þörf er fyrir hjúkrunarrými í borginni.
Sú tillaga sem hér liggur fyrir tryggir tiltekin fjölda rýma, alls 64 samkvæmt vilyrði borgarráðs frá 1998. Skipulags- og byggingarnefnd úthlutar ekki lóðum og hér er eingöngu verið að afgreiða skipulagsþátt málsins. Fulltrúar Markarholts hafa óskað eftir með bréfi dags. 14.03.02 að hafa möguleika á stækkun lóðar og fjölga þannig rýmum. Fyrirhugað er að fara í samkeppni um útfærslu svæðisins og athygli vakin á því ef niðurstaða samkeppninnar gefur tilefni til þarf borgarráð að taka afstöðu til lóðarstækkunar.


Umsókn nr. 10057 (04.79)
441099-3129 Rauðhóll ehf
Ármúla 21 108 Reykjavík
710178-0119 Teiknistofan ehf
Ármúla 6 108 Reykjavík
2.
Norðlingaholt, deiliskipulag
Lagt fram bréf Ómars Jóhannssonar dags. 12.08.02, Þingási 49, til borgarráðs.

Guðlaugur Þór Þórðarson bar upp svohljóðandi tillögu:
"Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að framlengja kynningar og athugasemdafrest um fjórar vikur"
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir bar upp svohljóðandi tillögu:
"Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að framlengja kynningar og athugasemdafrest um tvær vikur"
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir vel rökstuddar óskir hagsmunaaðila um að framlengja frest til að skila athugasemdum vegna deiliskipulags á Norðlingaholti. Í bréfi dags. 12.08.02 upplýsir viðkomandi aðili að ekkert samráð hafi verið haft við hann þrátt fyrir að skipulagið taki til lands sem hann er eigandi að. Viðkomandi telur að hann þurfi fjórar vikur til viðbótar til að hanna og útfæra tillögur í samræmi við sjónarmið landeiganda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja réttmætt að veita þann frest. Að auki má geta þess að ekki hefur verið hægt að nálgast umrædda deiliskipulagstillögu á heimasíðu stofnunarinnar, eins og kynnt hefur verið. Ákvörðun Reykjavíkurlistans um að koma ekki að fullu til móts við óskir um framlengdan frest sýnir enn og aftur að samráð við íbúa um málefni borgaranna er fyrst og fremst í orði en ekki á borði.


Umsókn nr. 523
3.
Aðalskipulag Reykjavíkur, Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024
Lögð fram, að lokinni auglýsingu, tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, greinargerð-stefnumörkun, sveitarfélagsuppdráttur, þéttbýlisuppdráttur og kynnt fylgiskjöl, með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á tillögunni frá auglýsingu hennar og samþykktar voru í borgarsjórn. Einnig lögð fram greinargerð Skipulagsstofunar til umhverfisráðherra, dags. 31.05.02, um afgreiðslu Aðalskipulagstillögunar ásamt drögum að umsögn Reykjavíkurborgar um greinargerð Skipulagsstofnunar, dags. 01.08.02.
Kynnt.

Umsókn nr. 25634
4.
Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, Fundargerð
Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð nr. 214 frá 13. ágúst 2002, án liða nr. 66, 67, 74 103 og 104.
Jafnframt lagðir fram liðir nr. 60 og 63 frá 16. júlí 2002 og liður nr. 22 frá 23. júlí 2002.