Grjótaþorp og Kvosin
Skjalnúmer : 9728
22. fundur 1999
Grjótaþorp, skipulag
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 12. okt. 1999 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 11. s.m. um nýtt deiliskipulag í Grjótaþorpi.
21. fundur 1999
Grjótaþorp, skipulag
Lögð fram til kynningar gögn vegna tillögu að endurskoðuðu skipulagi/hverfisvernd í Grjótaþorpi, dags. 01.10.99. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags dags. 18.08.99.
Lagt er til að nýtt deiliskipulag fyrir Grjótaþorp verði undirbúið og unnið á vegum Borgarskipulags. Fjölmargar samþykktir og ákvarðanir um framkvæmdir og skipulag síðustu tveggja áratuga verði yfirfarnar og samhæfðar í heildregna lögformlega mynd. Við gerð deiliskipulagsins skal hafa að leiðarljósi samþykkt borgarráðs frá 20.07.99 um að hverfisvernd verði komið á þennan sérstæða hverfishluta miðborgarinnar. Grjótaþorpið er í þessu samhengi svæðið sem afmarkast af Aðalstræti, Túngötu, Garðastræti og Vesturgötu eða staðgreinireitur 1.136.1 og 1.136.5. Við gerð deiliskipulagsins verði einnig tekið mið af ákvæðum og leiðbeiningum í Þróunaráætlun miðborgarinnar og verkið unnið í samræmi við niðurstöður húsakönnunar Árbæjarsafns sem nú er í vinnslu.
17. fundur 1999
Grjótaþorp, skipulag
Að lokinni kynningu eru lagðar fram að nýju tillögur að fyrirkomulagi á torgi (Vesturgötu 5b) samkv. uppdr. Kjartans Mogensen, dags. í maí ´99 ásamt samantekt Borgarskipulags, dags. 09.06.99. Málið var í kynningu til 16. júlí 1999. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags dags. 18.08.99.
Nefndin samþykkir fyrir sitt leyti tillögu merkta A.
14. fundur 1999
Grjótaþorp, skipulag
Lagðar fram tillögur að fyrirkomulagi á torgi (Vesturgötu 5b) samkv. uppdr. Kjartans Mogensen, dags. í maí ´99. Einnig lögð fram samantekt Borgarskipulags, dags. 09.06.99.
Samþykkt að kynna tillöguna fyrir íbúum Grjótaþorps.
12. fundur 1994
Grjótaþorp, bókun
Guðrún Jónsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: "Vegna ítrekaðra ummæla formanns skipulagsnefndar um íbúaspár vil ég minna á að þær miðast alltaf við þá þróun íbúafjölda í borginni, sem verið hefur á tilteknu árabili áður en spáin er gerð.
Hafi íbúum fjölgað verulega í borginni á tilteknu tímabili þá verður spáin há. Hafi hins vegar íbúafjölgunin verið lítil eða engin tekur spáin mið af því. Aðalskipulag Reykjavíkur hefur um langt árabil tekið mið af spám sem þannig eru til komnar. Formanninum er því ekki sæmandi að taka eina spá út úr og nota hana með þeim hætti sem hann hefur gert opinberlega að undanförnu."
Bókun Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar: "Í Aðalskipulagi Reykjavíkur, austursvæði, 1981-1998 var framtíðaruppbygging í Reykjavík miðuð við að íbúafjöldi í Reykjavík yrði 1998 á bilinu 82.000 -87.000 íbúar. Hæsta spáin gerði ráð fyrir 96.000 íbúum 1998. Íbúar Reykjavíkur eru í dag tæplega 103.000.
Ég hef einungis gagnrýnt að framtíðaruppbygging borgarinnar skyldi miðuð við svo lága íbúatölu. Ummæli G.J. í bókun sinni í minn garð eru því óskiljanleg og henni ekki sæmandi."