Langagerði 78

Verknúmer : BN018483

3476. fundur 1999
Langagerði 78, Kvörtun v/trjágróðurs
Lagt fram að nýju bréf húseigenda í Langagerði 80 dags. 4. febrúar 1999 vegna kvörtunar um trjágróður á lóð Langagerðis 78.
Jafnframt lagt fram bréf garðyrkjustjóra dags. 6. júlí 1999 og umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa dags. 7. júlí 1999.
Nefndarmenn hafa kynnt sér aðstæður á vettvangi.
Synjað.
Niðurstaða byggingarnefndar:
Í 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er kveðið á um gróður og frágang lóða.
Í gr. 12.8 segir að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varða breytingar á byggingum sem byggðar eru fyrir gildistöku reglugerðar nr. 441/1998 skuli byggingarnefndir taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar eftir því sem hægt er að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál.
Ekki er ljóst hversu gömul umrædd tré eru, en húsin á lóðunum voru byggð árin 1955 og 1956. Þá var í gildi byggingarsamþykkt fyrir Reykjavík frá 1. október 1945. Engin ákvæði eru í þeirri samþykkt um trjágróður á lóðum. Ný byggingarsamþykkt fyrir Reykjavík tók gildi árið 1965. Í henni eru engin ákvæði um gróður á lóðum.
Fyrstu ákvæði um gróður á lóðum er að finna í byggingarreglugerð nr. 292/1979, sem sett var á grundvelli byggingarlaga nr. 54/1978. Þessi reglugerð var í gildi þar til ný reglugerð var sett með gildistöku 1. júlí 1992. Í gr. 5.12.4. í reglugerð nr. 292/1979 segir:
"Ef gróður á lóð veldur óþægindum eða hættu fyrir umferð, getur byggingarnefnd krafist þess að hann sé fjarlægður, eftir því sem með þarf. Sama gildir, ef gróður veldur óþægindum með því að skerða verulega birtu í íbúð eða á lóð."
Meginregla íslensks réttarfars er að lög og reglugerðir hafi ekki afturvirk áhrif. Ákvæði byggingarrelugerðar nr. 441/1998 varðandi trjágróður á lóðum getur því ekki átt við í því tilviki sem hér um ræðir, þar sem ljóst er að umrædd tré hafa verið gróðursett fyrir einhverjum tugum ára, sbr. einnig ákvæði gr. 12.8 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.
Ekki hefur verið sýnt fram á að reynitrén á lóð hússins nr. 78 við Langagerði sem eru norðan lóðar kærenda nr. 80 við sömu götu valdi hættu fyrir umferð né skerði birtu í íbúð kærenda svo verulega að gr. 5.12.4. í byggingarreglugerð frá 1979 taki til þeirra.
Það er sjaldgæft að sjá jafn nærgætnislega hugsað um trjágróður, hvað viðkemur tilliti til nágranna og hjá eigendum hússins nr. 78 við Langagerði. Samkvæmt framansögðu er erindi húseigenda að Langagerði 80 ekki á rökum reist.


3467. fundur 1999
Langagerði 78, Kvörtun v/trjágróðurs
Lagt fram bréf húseigenda í Langagerði 80 dags. 4. febrúar 1999 vegna kvörtunar um trjágróður á lóð Langagerðis 78.
Jafnframt lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 26. október 1998.
Byggingarnefnd samþykkir þá afstöðu sem fram kemur í ofangreindu bréfi byggingarfulltrúa.