Hofsvallagata

Verknúmer : US130246

37. fundur 2013
Hofsvallagata, minnisblað frá borgarafundi
Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs dags. 24. september 2013 sem kynnt var á almennum borgarafundi vegna breytinga sem voru gerðar á Hofsvallagötu.

Karl Sigurðsson tekur sæti á fundinum kl. 09:33.



Fulltrúar Samfylkingar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir , fulltrúar Besta flokksins, Páll Hjaltason, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Karl Sigurðsson og fulltrúi Vinstri grænna Sóley Tómasdóttir samþykkja minnisblað með þeim breytingum sem fram koma í eftirfarandi bókun: "Samráðshópi íbúa er þakkað kærlega fyrir góðar ábendingar um hönnun og útfærslu á Hofsvallagötu og fallast á þær tillögur sem fram koma í umsögn minnisblaðs Umhverfis- og skipulagssviðs og hafa verið kynntar samráðshópi íbúa, þó með þeirri undantekningu að hjólastígurinn verði óbreyttur að gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar og ein akrein verði áfram að gatnamótunum. Fyrirkomulag hjólastígsins er tilraun fram að endanlegri hönnun götunnar sem fyrirhuguð er á næsta ári og því mikilvægt að fá reynslu á fyrirkomulagið áður en framkvæmt er til lengri framtíðar. Þær breytingar sem nú eru fyrirhugaðar skulu kynntar samráðshópi og íbúum.
Í drögum að fjárhagsáætlun árið 2014 er gert ráð fyrir varanlegum framkvæmdum á Hofsvallagötu. Lögð er áhersla á að samráð skuli haft við íbúa og hverfisráð Vesturbæjar við hönnun og undirbúning þeirrar framkvæmdar."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson, Hildur Sverrisdóttir og Óttarr Guðlaugsson sitja hjá við afgreiðslu málsins og bóka:"Tekið er undir þakkir til íbúa sem hafa unnið með Umhverfis og skipulagssviði í framhaldi af opnum fundi í Hagaskóla. Rétt er að halda til haga að fyrsta tillaga samráðshóps íbúa var að framkvæmdin yrði tekin til baka og gatan endurhönnuð frá grunni.
Breytingar á umferðarskipulagi Hofsvallagötu koma nú í fyrsta skipti inn í Umhverfis og skipulagsráð til afgreiðslu. Íbúum var ekki gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en ráðist var í framkvæmdir en fengu fyrst tækifæri til að tjá sig á opnum fjölmennum íbúafundi í Hagaskóla þar sem andstaða við breytingarnar kom mjög skýrt fram. Ekki er lagst gegn því að fjarlægja flögg og eyjur til að auðvelda umferð og skýra betur akstursleiðir. Réttara væri þó að viðurkenna að hér voru gerð mistök sem betra er að leiðrétta með því að stíga til baka og byrja á byrjuninni. Eðlilegt er að kynningarfundur verði haldinn í hverfinu um þær tímabundnu aðgerðir sem gerðar verða áður en farið verður í endanlega hönnun götunnar sem mikilvægt er að verði í víðtæku samráði."



36. fundur 2013
Hofsvallagata, minnisblað frá borgarafundi
Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs dags. 24. september 2013 sem kynnt var á almennum borgarafundi vegna breytinga sem voru gerðar á Hofsvallagötu.

Óttarr Guðlaugsson vék af fundi kl.12:50
Júlíus Vífill Ingvarsson vék af fundi kl 13:00


Frestað.