Malbiksframkvæmdir í Reykjavík
Verknúmer : US150050
97. fundur 2015
Malbiksframkvæmdir í Reykjavík, kynning
Lagt fram og kynnt yfirlit umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa framkvæmda og viðhalds dags. í febrúar 2015 um malbiksframkvæmdir í Reykjavík 2015.
Ámundi V.Brynjólfsson skrifstofustjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Kynnt.
Lögð fram eftirfarandi tillaga ásamt greinargerð umhverfis- og skipulagsráðs.
" Umhverfis- og skipulagsráð leggur til við borgarráð að fjárveiting til malbiksframkvæmda á árinu 2015 verði aukin um allt að 150 mkr. Þetta er til að mæta þeirri brýnu þörf sem sem upp er komin og kemur í ljós nú þegar gatnakerfið ¿kemur undan vetri. Hækkun á fjárveitingu til malbiksframkvæmda valdi ekki breytingu á niðurstöðu fjárhagsáætlunar heldur verði um flutning á fjárheimildum innan heildaráætlunar að ræða.
Greinargerð:
Veðurfarslegar aðstæður nú í vetur hafa valdið miklu tjóni á gatnakerfi borgarinnar. Þá er einnig ljóst að á árunum eftir hrun hefur verið dregið úr malbiksframkvæmdum auk þess sem fjárveitingar til þeirra hafa lækkað verulega að raunvirði vegna lækkunar á gengi krónunnar. Framundan í mars og apríl er úttekt á ástandi gatnakerfisins og mat á viðhalds- og endurnýjunarþörf. Það er þó ljóst að aukins fjármagns er þörf þrátt fyrir að nú þegar í fjárfestingaráætlun árins 2015 sé um að ræða hækkun um 100 mkr frá fyrra ári.
Tillaga umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson bókar
"Stefna sem tekin var upp á fyrsta fjárhagsári Samfylkingar og Besta flokks þar sem dregið var verulega úr framlögum til malbiksframkvæmda hefur skilað sér í ástandi gatna sem ekki verður við unað. Nú dugir bersýnilega ekki venjulegt viðhald heldur þarf stórkostlegt átak sem mun kosta borgarbúa miklu meira heldur en ef árlegt viðhald hefði verið eðlilegt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja aukin framlög til malbiksframkvæmda enda verður ekki hjá því komist að bregðast við með skjótum hætti. Eðlilegt hefði verið að með tillögunni fylgdu jafnframt tillögur um sparnað á móti. Augljósasti sparnaðurinn er að hætta við tilgangslausa þrengingu Grensásvegar en áætlaður kostnaður vegna þrengingar vegarins á milli Miklubrautar og Bústaðarvegar eru kr. 160 milljónir."
Fulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókar:
"Fulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina leggur til að það fjármagn sem meirihlutinn vill nota til þrengingar Grensásvegar verði notað í malbikunarframkvæmdir"
Fulltrúi Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og áheyrnarfulltrúi Pírata Svafar Helgason bóka
" Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri Grænna benda á að niðurskurður til viðgerða á götum borgarinnar hófst á fjárhagsárinu 2009, þegar Sjálfstæðisflokkurinn leiddi borgarstjórnina. Þá voru útgjöld til viðgerða skorin verulega niður eða úr 690 milljónum króna í 480 milljónir að núvirði. Eða um 30%. Fyrir því voru góðar og gildar ástæður. Tekjur borgarinnar höfðu minnkað um 20%. Það hafði ekki breyst fjárhagsárið 2011. Við bendum ennfremur á að nú stefnir í að útgjöld til gatnaviðverða 2015 verða 690 milljónir króna. Það er jafnhá upphæð og 2008 að núvirði"
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson bókar
"Árið 2011 var fyrsta fjárhagsár meirihluta Samfylkingar og Besta flokks. Framlög til viðhalds á malbiki voru lækkuð um 37% árið 2011 miðað við árið áður en voru hækkuð á milli áranna 2009 og 2010 í tíð Sjálfstæðisflokksins"