Göngu- og hjólastígar

Verknúmer : US150040

110. fundur 2015
Göngu- og hjólastígar, framkvæmdaáætlun (USK2015060039)
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur, dags. 8. júní 2015 þar sem gerð er tillaga um breytingu á framkvæmdaráætlun fyrir göngu- og hjólastíga sem felst í að framkvæmdir við Grensásveg er frestað til næsta árs. Í stað Grensásvegar er gerð tillaga um eftirfarandi framkvæmdir:
Elliðaárdalur, stígur og brú við Rafstöð og yfir vesturálinn.
Bústaðavegur austur Hörgsland, Stjörnugróf.
Rafstöðvarvegur endurbætur, Rafstöð - Höfðabakki.
Stekkjarbakki; Grænistekkur - Hamrastekkur.


Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og fulltrúi Pírata Þórgnýr Thoroddsen bóka: "Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja áherslu á að áfram verði unnið að útfærslu á breytingum á Grensásvegi þrátt fyrir seinkun framkvæmda. Framkvæmdin er mikilvæg aðgerð fyrir hverfið, með tilliti til umferðaröryggis gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda. Framkvæmdin verður boðin út á fyrsta fjórðungi ársins 2016."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Áslaug María Friðriksdóttir bóka: "Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt til að umferðaröryggi verði aukið á Grensásvegi með öðrum hætti en að þrengja götuna eins og til stendur. Upprunalegar áætlanir gerðu ráð fyrir að þrengingin kostaði 160 milljónir en endurútreikningur sýnir 25% hækkun og að þrengingin muni kosta 200 milljónir króna. Nú hefur þessari framkvæmd verið frestað um eitt ár. Því er enn einu sinni beint til fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri Grænna og Bjartrar framtíðar að nýta tímann til umferðartalninga á Grensásvegi. Talningar þurfa að taka til allra ferðarmáta og þveranir gangandi og hjólandi. Mikilvægt er að gera einnig umferðarmódel þar sem mat er lagt á hvert umferð muni leita þegar gatan hefur verið þrengd og hvaða áhrif það mun hafa á umferðaröryggi í nærliggjandi íbúðahverfum þar sem meðal annars eru grunnskólar. Þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað er rétt að skoða næstu skref.
Fjárhagsstaða borgarinnar er orðin grafalvarleg. Öll viðvörunarljós blikka og óumflýjanlegt að bregðast við af festu. Enn er haldið til streitu að fara út í dýra framkvæmd sem ekki hefur verið sýnt fram á að nauðsyn beri til að leggja í."


99. fundur 2015
Göngu- og hjólastígar, framkvæmdaáætlun (USK2015060039)
Lögð fram að nýju framkvæmdaáætlun umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur dags. 9. febrúar 2015 varðandi göngu- og hjólastíga.

Framkvæmdaáætlun vegna Háaleitisbrautar og Grensásvegar samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Bjartar Framtíðar Magneu Guðmundsdóttur og Páls Hjaltasonar fulltrúa Samfylkingarinnar Kristínar Soffíu Jónsdóttur, og fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísla Garðarssonar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Áslaugar Maríu Friðriksdóttur og fulltrúa framsóknar og flugvallarvina Sigurðar Inga Jónssonar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífil Ingvarsson og Áslaug María Friðriksdóttir og fulltrúi framsóknar og flugvallarvina Sigurður Ingi Jónsson bóka:
"Meirihlutaflokkarnir hafa nú samþykkt að þrengja Grensásveg og Háaleitisbraut. Þar með hefur verið ákveðið að setja hundruðir milljóna af peningum borgarbúa í óþarfa þrengingar gatna. Engar umferðartalningar liggja að baki þessari ákvörðun. Hún byggir ekki á hraðamælingum né umferðargreiningu. Hún er ekki byggð á öryggissjónarmiðum enda auðvelt að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda enn frekar á þessu svæði án þess að þrengja göturnar. Reynslan kennir okkur að þrengingar gatna leiða af sér að umferð leitar annað. Eftir að Hofsvallagata var þrengd jókst bílaumferð um þröngar umferðargötur Melana og Hagana um 1.000 bíla á sólarhring. Þannig jók þrenging Hofsvallagötunnar á slysahættu og skapaði óöryggi einkum vegna þess að börn eru oft að leik í íbúðagötum nærri heimilum sínum. Engin greining hefur verið gerð á því hvert umferðin muni leita þegar Háaleitisbraut og Grensásvegur hefur verið þrengdur. Öruggt má telja að umferð muni aukast um Hæðargarð, Breiðagerði, Álmgerði og Heiðargerði. Það sama má segja um Stóragerði og Smáagerði svo eitthvað sé nefnt. Tæplega er það eftirsóknarverð. Tilgangurinn með því að þrengja götur er sá einn að hindra eðlilegt flæði umferðar og gera fólki erfiðara fyrir að komast leiðar sinnar um gatnakerfi borgarinnar í þeirri trú borgarfulltrúa meirihlutaflokkanna að við það muni ferðum á bílum fækka. Reynsla undanfarinna ára sýnir það gerist ekki. Fjölskyldur og fyrirtæki einfaldlega fara annað. Nú má ljóst vera að íbúafundur sem haldinn var í síðustu viku að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var bara til sýnis. Ekki hefur farið fram nein umræða eða samantekt á því sem þar kom fram."

Fulltrúar Bjartrar Framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og Páll Hjaltason fulltrúi Samfylkingarinnar Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og áheyrnarfulltrúi Pírata Sigurborg Ó Haraldsdóttir bóka:
"Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata telja mikilvægt að fyrirhugaðar framkvæmdir við Háaleitisbraut og Grensásveg fari inn á framkvæmdaáætlun ársins 2015. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur er mikil og hröð bílaumferð metin sem helsti veikleiki hverfisins og mun þessi aðgerð vega á móti því.
Á fjölmennum opnum fundi sem haldinn var í Breiðagerðisskóla þann 12. mars að frumkvæði Umhverfis- og skipulagsráðs komu fram ýmsar skoðanir. Formenn íbúasamtaka í hverfinu lýstu yfir stuðningi við fyrirhugaðar framkvæmdir en óskuðu jafnframt eftir því að farið væri í aðgerðir til að auka öryggi gangandi yfir Háaleitisbraut en þar fara fjölmörg börn um á hverjum degi til að sækja skóla. Samgönguskrifstofu er falið að skoða hvað sé hægt að gera til að bregðast við þeim óskum. Aðrar athugasemdir vegna Háaleitisbrautar komu ekki fram.
Á hluta Grensásvegar eru gangstéttir aðeins 90 cm breiðar, þeirri gangstétt deila gangandi, hjólandi og notendur Strætó, ekki er hægt að koma fyrir skýlum á gangstéttum vegna plássleysis. Ný hönnun Grensásvegar gerir ráð fyrir 2 m breiðum gangstéttum, rými fyrir Strætóskýli og sérstökum hjólastígum. Gert er ráð fyrir að akreinum sé fækkað úr 4 akreinum í 2. Til grundvallar voru lagðar fram umferðarmælingar, mat á flæði umferðar og hraðamælingar í götunni.
Skiptar skoðanir voru vegna breytinga á Grensásveg og hluti íbúa lýstu yfir áhyggjum af umferðarflæði um götuna og mögulegum töfum. Fulltrúi Samgönguskrifstofu fór yfir málið og kynnti það mat að þessar breytingar hefðu ekki áhrif á afkastagetu og umferðarflæði götunnar og fór skýrt yfir það að umferð um götuna í dag væri of hröð og gatan væri ekki öruggt. Aðrir íbúar lýstu yfir ánægju með breytingarnar og fögnuðu bættri aðstöðu gangandi og hjólandi og lægri umferðarhraða. Ósk um að fleiri opnanir yrðu gerðar í umferðareyjur komu fram og er Samgönguskrifstofu falið að skoða það. Einnig lýstu nokkrir aðilar yfir áhyggjum af útfærslum hjólastígs við stoppistöðvar Strætó og er Samgönguskrifstofu einnig falið að skoða aðra leiðir þar"


96. fundur 2015
Göngu- og hjólastígar, framkvæmdaáætlun (USK2015060039)
Lögð fram framkvæmdaáætlun umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur dags. 9. febrúar 2015 varðandi göngu- og hjólastíga.

Framkvæmdaáætlun samþykkt að Háaleitisbraut og Grensásvegi undanskildum.
Umhverfis-og skipulagssviði er jafnframt falið að halda opinn íbúafund og boða jafnfram hagsmunaaðila sem samráð hefur verið haft við á fyrri stigum svo sem SHS, Landsamtök hjólreiðamanna og FÍB þar sem kynnt er útfærsla og hönnun á stígum við áðurnefndar götur.