Plastsöfnun og breytt hirðutíðni
Verknúmer : US150023
112. fundur 2015
Plastsöfnun og breytt hirðutíðni,
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, umhverfisgæða dags. 26. júní 2015 varðandi plastsöfnun og breytta hirðutíðni. Markmiðið með tillögunni er að auka endurvinnslu plasts og minnka þannig magn urðaðs úrgangs. Í dag er íbúum boðið upp á að skila plasti á grenndar- og endurvinnslustöðvum en gangi þessi tillaga eftir verður jafnframt boðið upp á að íbúar flokki plast í græna tunnu við heimili. Sorphirðan í Reykjavík mun hirða plastið gegn gjaldi á 28 daga fresti að jafnaði. Með frekari flokkun á plasti frá blönduðum úrgangi er fyrirséð að magn í gráum tunnum og spartunnum muni minnka, sérstaklega þar sem plast er um helmingi rúmmálsfrekara en blandaður úrgangur. Til að mæta þessu mun gráa tunnan undir blandaðan úrgang færast úr 10 daga hirðu í 14 daga eins og er í flestum öðrum sveitarfélögum. Einnig mun bláa tunnan undir pappírsefni færast í 28 daga hirðu og spartunnan undir blandaðan úrgang í 14 daga en verður helmingi minni en nú er, þ.e. 120 l í stað 240 l.
Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Samþykkt af fulltrúum Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttir, fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísla Garðarssonar og fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Áslaug María Friðriksdóttir og Herdís Anna Þorvaldsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins og bóka:"Jákvætt er að bjóða íbúum Reykjavíkur upp á nýja valkosti í sorphirðu og að stuðla að því að plastsöfnun aukist. Með tilkomu plast tunnurnar er gert ráð fyrir breytingum á hirðutíðni. Í stað þess að 10 dagar séu á milli hirðu verði þeir 14 í það minnsta. Ekkert liggur fyrir hvernig þær breytingar munu koma við fjölskyldur í Reykjavík. Ekki er ljóst hvernig fara á með þá staðreynd að hluti íbúa, til dæmis þeir sem aðeins nota eina gráa tunnu og munu því fá skerta þjónustu eftir breytingar þar sem sorpið verður hirt á 14 daga fresti í stað 10 daga. Fram að áramótum munu þeir greiða sama gjald fyrir minni þjónustu en ekki er ljóst með framhaldið. Munu gjöld á þessa íbúa lækka að sama skapi eða taka þeir á sig hækkun gjalda í þágu meiri þjónustu fyrir aðra. Ekkert er fjallað um áhrif gjaldskrárbreytinga á fjölskyldur í Reykjavík. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir að þær upplýsingar yrðu unnar áður en tillagan yrði samþykkt en meirihlutinn tók ekki undir það."
Fulltrúi Samfylkingarinnar Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson bóka: "Græn tunna í Reykjavík fyrir plast verður aukin þjónusta fyrir þá sem hana kjósa og mun gera endurvinnslu aðgengilegri og auðveldari fyrir Reykvíkinga. Ennþá verður tekið við plasti á öllum grenndarstöðvum. Frá og með áramótum verður hirðutíðni jafnframt lengd í 14 daga úr 10 dögum og verður hirðutíðnin þá sú sama í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Sorphirðugjöld í Reykjavík eru þjónustugjöld og eru ákvörðuð samkvæmt lögbundinni auglýsingu og mega hvorki skila afgangi né krefjast niðurgreiðslu. Skili breytt hirðutíðni lækkuðum kostnaði þá skilar það sé óhjákvæmilega í lægri sorphirðugjöldum. Líkt og umræða á fundinum leiddi í ljós þá er ekki um að ræða ákvörðun gjaldskrár fyrir næsta ár en ákvarðanir um breytta gjaldskrá eru unnar samhliða fjárhagsáætlun."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Áslaug María Friðriksdóttir og Herdís Anna Þorvaldsdóttir bóka
"Upplýsingar sem þessar ættu skilyrðislaust að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin. Ef rétt er að sorphirðugjöld þeirra sem munu fá skerta þjónustu lækki þá er það til góðs. Ekki er hins vegar hægt að lesa það út úr fyrirliggjandi gögnum."