Sæmundargata - Hringbraut

Verknúmer : US130029

9. fundur 2013
Sæmundargata - Hringbraut, framkvæmdir
Lagt fram bréf samgöngustjóra dags. 18. janúar 2013 varðandi umbætur á Sæmundargötu, gönguleið yfir Hringbraut og 30km afmörkun á svæði Háskóla Íslands skv. meðfylgjandi uppdrætti dags. í febrúar 2013.

Stefán Finnsson verkefnastjóri sat funinn undir þessum lið.

Kristín Soffía Jónsdóttir vék af fundi kl. 14:40


Fulltrúar Besta flokksins Páll Hjaltason, Karl Sigurðsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, fulltrúi Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson, fulltrú Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfi Hjartarson og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir samþykktu að ráðist í gerð göngu- og hjólastíga á Sæmundargötu og þverun fyrir gangandi og hjólandi yfir Hringbraut í framhaldi hennar. Rýnihópi um samgöngumál verði falið að fara yfir hönnun og útfærslu tillögunar, í samráði við hagsmunaaðila á svæðinu.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson bókaði:
"Forgangsröðun í Umhverfis og skipulagsráði er óskiljanleg. Nú er sett í forgang að þrengja Sæmundargötu sem liggur á milli Norræna hússins og Hringbrautar. Víða í íbúðarhverfum borgarinnar er viðhald gatna og gangstétta orðið brýnt enda mjög mikið skorið niður í viðhaldskostnaði á undanförnum árum og auk þess má augljóslega bæta öryggi vegfarenda með endurhönnun gatna og gangstétta. Við Sæmundargötu býr hins vegar enginn enda liggja engin íbúðarhús að henni og þess vegna getur ekki verið forgangmál að endurgera hana. Því er haldið fram í umræðum um málið að ekið sé greitt um götuna en engar mælingar á hraða umferðar liggja að baki slíkum fullyrðingum. Ég ek og geng oft um þetta svæði og verð ekki var við neinar hættur sem þarf að bregðast við. Engin slys hafa orðið á þessari götu og engar talningar á umferð hafa verið gerðar áður en ákvörðun er tekin um breytingar og framkvæmdir. Hluti breytinganna er að taka út 350 bílastæði sunnan götunnar án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvar stúdentar og starfsfólk sem kemur á bílum í Háskólann geti lagt bílum sínum. Þrenging götunnar mun kosta 90 milljónir króna á sama tíma og mörg mikilvæg verkefni sitja á hakanum. Þetta er dýrt verkefni með lítinn tilgang".
Fulltrúar Besta flokksins Páll Hjaltason, Karl Sigurðsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, fulltrúi Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson, fulltrú Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfi Hjartarson og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir bókuðu:
"Háskólasamfélagið hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum til þess að umhverfisvænar ferðavenjur verði gerðar aðgengilegar og þægilegar. Með þessari mikilvægu framkvæmd er komið til móts við þær óskir.
Sæmundargata liggur frá Hringbraut um háskólasvæðið sunnanvert framhjá Norræna húsinu í jaðri friðlandsins í Vatnsmýri. Hún er lykilgata í gatnakerfi Háskólans og mikilvægi hennar eykst enn þegar stúdentagarðar milli Sæmundargötu og Oddagötu verða teknir í notkun í haust.
Leiðin frá stúdentagörðunum, og fyrirhugðum vísindagörðum sunnan stúdentagarðanna, niður í miðbæ liggur eftir Sæmundargötu og því eðlilegt að sú leið sé gerð greið og örugg með vaxandi notkun, en stúdentar ekki látnir hrekjast upp á umferðareyjar í mikilli umferð, eins og ástandið er nú.
Engin ákvörðun liggur fyrir um bílastæðamál. Samráð við stúdenta og háskólasamfélagið tekur nú við, og full ástæða er til að ætla að hagsmunir þeirra og borgarinnar fari saman um að skapa vistvænt og gott háskólasamfélag í góðu borgarumhverfi. Fyrirhugaðar framkvæmdir á Sæmundargötu falla vel að því meginmarkmiði sem lýst er í drögum að endurskoðuðu aðalskipulagi að gera götur borgarinnar mannvænni og vistvænni".







5. fundur 2013
Sæmundargata - Hringbraut, framkvæmdir
Lagt fram bréf samgöngustjóra dags. 18. janúar 2013 varðandi umbætur á Sæmundargötu, gönguleið yfir Hringbraut og 30km afmörkun á svæði Háskóla Íslands skv. meðfylgjandi uppdrætti dags. í febrúar 2013.

Stefán Finnsson verkfræðingur tók sæti á fundinum undir þessum lið.

Frestað.

4. fundur 2013
Sæmundargata - Hringbraut, framkvæmdir
Lagt fram bréf samgöngustjóra dags. 18. janúar 2013 varðandi umbætur á Sæmundargötu, gönguleið yfir Hringbraut og 30km afmörkun á svæði Háskóla Íslands skv. meðfylgjandi uppdrætti dags. í janúar 2013.

Frestað.

Kristín Soffía vék af fundi kl. 14:55


3. fundur 2013
Sæmundargata - Hringbraut, framkvæmdir
Lagt fram bréf samgöngustjóra dags. 18. janúar 2013 varðandi umbætur á Sæmundargötu, gönguleið yfir Hringbraut og 30km afmörkun á svæði Háskóla Íslands skv. meðfylgjandi uppdrætti dags. í janúar 2013.

Frestað.