Fyrirspurn frá Óskari Bergssyni
Verknúmer : SR060010
77. fundur 2006
Fyrirspurn frá Óskari Bergssyni,
Óskað er eftir upplýsingum um aðkomu Dags B. Eggertssonar kennara við Háskólann í Reykjavík og fyrverandi formanns skipulagsráðs, um skipulag lóðar Háskólans í Vatnsmýri.
1. Vék Dagur B. Eggertsson af fundum skipulagsráðs við afgreiðslu mála er tengdust Háskólanum í Reykjavík ?
2. Fundaði Dagur B. Eggertsson með fulltrúum Háskólans í Reykjavík við undirbúning lóðarúthlutunnar í Vatnsmýrinni eða tók varaformaður sæti í hans stað ?
Lagt fram svar skipulags- og byggingarsviðs dags. 13. desember 2006 ásamt fylgigögnum.
Óskar Bergsson óskaði bókað:
Eins og fram kemur í svari lögfræði og stjórnsýslu vék Dagur B. Eggertsson ekki sæti við undirbúning málsins. Það vekur því upp spurningar hvort aðkoma hans að málinu hafi haft áhrif á ráðningu hans og launakjör við Háskólann i Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson óskaði bókað:
Fyrirspurn Óskars Bergssonar er augljóslega komin fram vegna þess að hann hefur orðið uppvís að því að ráða sig til Faxaflóahafna með það skilgreinda verkefni samkvæmt verksamningi að annast hagsmunagæslu fyrir það fyrirtæki gagnvart þeim sviðum Reykjavíkurborgar þar sem hann er í pólitískri forystu, skipulagssviði og framkvæmdasviði. Óskar Bergsson er sem kunnugt er formaður framkvæmdaráðs og varaformaður skipulagsráðs. Engin fordæmi eru um það svo vitað sé að kjörinn fulltrúi hafi ráðið sig þannig til að gæta hagsmuna fyrirtækis í samskiptum við embættismenn sem eru undir pólitískri verkstjórn viðkomandi.
Ráðning mín í stöðu kennara við lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík felur í sér kennslu og rannsóknastörf en felast á engan hátt í hagsmunagæslu gagnvart Reykjavíkurborg, ekki frekar en læknisstörf mín á Landsspítalanum-háskólasjúkrahúsi á síðasta kjörtímabili. Hagmunagæsla gagnvart Reykjavíkurborg er í höndum stjórnenda skólans en ekki almennra starfsmanna. Í kjölfar ráðningar minnar til HR sl. sumar gerði ég þó grein fyrir henni í skipulagsráði og lagði það í dóm lögfræðinga skipulagssviðs og fulltrúa í skipulagsráði, einsog samþykktir Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir, hvort vaknað gætu spurningar um vanhæfi í þeim málum sem snéru að skipulagi Háskólans í Reykjavík eða uppbyggingu í Vatnsmýri. Niðurstaðan var afdráttarlaust sú að svo væri ekki.
Fyrirspurn Óskars Bergssonar fellur væntanlega í flokk þess sem kalla má "smjörklípuaðferð" í pólitík, að freista þess að draga athygli frá erfiðu máli með því að reyna að sá tortryggni varðandi alls óskylt mál. Hann var einstaklega óheppinn með dæmið sem hann valdi, einsog afdráttarlaus svör lögfræðings skipulagssviðs undirstrika. Fyrirspurnir og athugasemdir um verkefnisráðningu Óskars snúast ekki um persónu hans heldur prinsipp. Það prinsipp að pólitískar ráðningar eigi að heyra sögunni til og það prinsipp að fráleitt er að fyrirtæki geti ráðið kjörna fulltrúa til að reka erindi sín gagnvart málaflokkum sem þeir sinna hjá Reykjavíkurborg. Meirihlutanum í heild ber að axla ábyrgð á þeirri staðreynd að hér er farið á svig við umrædd prinsipp og er ekki á hendi einstakra varaborgarfulltrúa að verja eða fjalla um þá stöðu sem upp er komin. Til þess er hún of alvarleg.
Furðulegar dylgjur Óskars Bergssonar í bókun hans um ráðningu mína við HR eru ekki svaraverðar.