Aðalskipulag Reykjavíkur
Verknúmer : SN140320
73. fundur 2014
Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðun
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 10. júlí 2014 um samþykkt borgarráðs s.d. um að láta ekki fara fram endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 með vísan til 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
70. fundur 2014
Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðun
Ákvörðun um endurskoðun Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 samkvæmt 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 24. júní 2014.
Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun ráðsins:
Nýsamþykkt aðalskipulag Reykjavikur endurspeglar áherslur meirihlutans um þétta blandaða byggð í mannlegum mælikvarða og vistvæna samgönguhætti. Í aðalskipulaginu má m.a. einnig finna húsnæðisstefnu, stefnu um gæði, stefnu um borgarvernd auk umhverfis-og auðlindastefnu.
Nú tekur við tími innleiðingar sem endurspegla á stefnumótunina sem birtist í aðalskipulaginu í hvívetna.
Umhverfis og skipulagsráð telur að ekki sé ástæða til að endurskoða gildandi aðalskipulag með vísan í 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, bréf sviðsstjóra dags. 24. júní 2014.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Herdís Anna Þorvaldsdóttir og Hildur Sverrisdóttir lögðu fram svohljóðandi tillögu: "Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði gera að tillögu sinni að stofnaður verði faglegur vinnuhópur sem hafi það að markmiði að rýna betur þau svæði og það skipulag sem hefur sætt hvað mestri gagnrýni síðan aðalskipulagið var samþykkt. Vinnuhópurinn skili niðurstöðum sínum áður en umhverfis- og skipulagsráð tekur ákvörðun um hvort að aðalskipulagið verði endurskoðað eins og kveðið er á um í 35. grein skipulagslaga."
Tillaga fulltrúa sjálfstæðisflokksins var felld með með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur, fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Gísla Garðarssyni gegn þremur atkvæðum fulltrúa sjálfstæðisflokksins Hildar Sverrisdóttur og Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur og fulltrúa framsóknarflokksins og flugvallavina Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.
Tillaga formanns að bókun umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur, fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Gísla Garðarssonar gegn þremur atkvæðum fulltrúa sjálfstæðisflokksins Hildar Sverrisdóttur og Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur og fulltrúa framsóknarflokksins og flugvallavina Guðfinnu Jóhönnu Guðmundóttur
Fulltrúi framsóknar og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókaði;
"Framsókn og flugvallavinir telja ástæðu til að endurskoða aðalskipulagið þar sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, gengið er á græn svæði svo sem í Laugardalnum, þétting byggðar er of mikil svo sem í miðbænum-gömlu höfninni og í Vesturbænum"
Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Gísli Garðarsson bókuðu: "Tekið er undir það að stofnaður verði starfshópur til að fara yfir hvað útskýra má betur í nýsamþykktu aðalskipulagi og koma með tillögur að lagfæringum ef þurfa þykir. Ekki er ástæða til að fresta ákvörðun um endurskoðun aðalskipulags þó slíkur rýnihópur sé að störfum enda mun niðurstaða hópsins tæpast kalla á heildarendurskoðun."
Fulltrúar sjálfstæðisflokksins Hildur Sverrisdóttir og Herdís Anna Þorvaldsdóttir bóka:"Aðalskipulagið er grunnurinn að allri borgarsýn næstu áratuga og því í anda lýðræðis og góðrar samvinnu við borgarbúa að fara í sjálfsagða skoðun á þeim atriðum sem hafa sætt hvað mestri gagnrýni til að sjá hvort að það séu einhver einstaka atriði sem þurfa nánari skýringa, skerpinga eða endurskoðunar. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, og því væri eðlilegra að bíða eftir að niðurstöður faglegs vinnuhópsins liggi fyrir áður en tekin er ákvörðun um hvort að þörf sé á að endurskoða einstaka atriði aðalskipulagsins. Gagnrýni á veigamikil skipulagsatriði í aðalskipulaginu sem munu hafa mikil áhrif á framtíðarþróun borgarinnar hefur komið fram, til að mynda að ramma þurfi betur inn friðhelgunarsvæði útivistarsvæða í Laugardalnum og í Elliðaárdalnum. Því er ekki nægilegt að boðaður vinnuhópur eigi eingöngu að líta til atriða sem koma til á seinni stigum skipulagsvinnunnar sem mun ekki geta breytt aðalskipulaginu til að það sé eins skýr leiðarvísir borgarþróunarinnar eins og það á að vera. Það er þó fagnaðarefni að slíkur hópur sé stofnaður til að gæta þó að því að öll framtíðarskipulagsvinna á seinni stigum skipulagsins sé eins best úr garði gerð og í sem víðtækastri sátt við borgarbúa."
Vísað til borgarráðs.