Bólstaðarhlíð 47, Háteigsskóli
Verknúmer : SN130337
33. fundur 2013
Bólstaðarhlíð 47, Háteigsskóli, breyting á deiliskipulagi
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 30. ágúst 2013 vegna samþykktar borgarráðs dags. 29. ágúst 2013 um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 47 við Bólstaðarhlíð, Háteigsskóla.
29. fundur 2013
Bólstaðarhlíð 47, Háteigsskóli, breyting á deiliskipulagi
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 47 við Bólstaðarhlíð, Háteigsskóli. Í breytingunni felst að koma fyrir byggingarreit fyrir tvær færanlegar kennslustofur ásamt tengigangi, samkvæmt uppdr. umhverfis- og skipulagssviðs dags. 9. ágúst 2013. Einnig er lagt fram bréf skólastjóra Háteigsskóla dags. 9. ágúst 2013 og minnisblað skóla- og frístundasviðs dags. 19. ágúst 2013, minnisblað og svör skólastjóra Háteigsskóla dags. 19. ágúst 2013 og minnisblað skólastjóra Háteigsskóla vegna halastjörnunar dags. 19. ágúst 2013.
Rúnar Gunnarsson verkefnisstjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri Tómstunda hjá skóla- og frístundasviði og Hilmar Sigurðsson form. hverfisráðs Hlíða sátu fundinn undir þessum lið.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu með sjö atkvæðum fulltrúa besta flokksins Elsu Hrafnhildar Yeoman, Karls Sigurðssonar og Diljár Ámundadóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfa Hjartarsonar og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins Júlíusar Vífils Ingvarssonar.
Fulltrúar besta flokksins Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson og Diljá Ámundadóttir, fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfi Hjartarson og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson lögðu fram svohljóðandi gagnbókun:"Mjög brýnt er að leysa húsnæðisvanda frístundastarfs í Háteigsskóla í samræmi við eindregin tilmæli skólastjóra. Skóla- og frístundaráð hefur mælt með þeirri staðsetningu færanlegra kennslustofa sem sett er fram í tillögu að deiliskipulagi en aðrar staðsetningar innan lóðar hafa einnig fengið umfjöllun í Umhverfis- og skipulagsráði. Það er skoðun ráðsins að endurskipuleggja þurfi lóð skólans. Ráðið felur Umhverfis- og skipulagssviði að hefja þá vinnu og kalla skólastjóra og foreldra til samráðs. Fjárhagsáætlun næsta árs taki mið af því.
Tilgangurinn er að nýta lóðina sem best, auka umferðaröryggi og efla útivistargildi lóðarinnar. Skólastofur þær sem nú er gerð tillaga um á lóðinni eru í bráðbirgðahúsnæði og færanlegar. Staðsetning þeirra til lengri tíma ásamt staðsetning annarra mannvirkja á lóðinni verði undir í endurskipulagningu skólalóðarinnar."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir greiddu atkvæði á móti tillögunni og bókuðu: "Það er grá og gamaldags hugsun að setja færanlegar kennslustofur á eina græna svæðið sem börnin í Háteigsskóla hafa til að leika sér á. Þetta græna svæði er einnig sleðabrekka, sem fundarmenn fengu upplýsingar um að væri mikið notuð. Aðrir staðir koma til greina á lóðinni. Sem eitt dæmi má nefna að hægt væri að koma húsunum fyrir í jaðri bílastæðisins við hlið skólans. Það svæði er í ólestri í dag og hafa foreldrar óskað eftir að svæðið verði gert aðgengilegra og öruggara til að keyra og sækja börnin í skóla sem og hafa kennarar óskað eftir öruggri aðstöðu fyrir sundlaugarrútuna. Það er hægur vandi að koma kennslustofunum fyrir á því svæði og nota um leið tækifærið til að gera svæðið í heild öruggara með tilliti til þeirra þátta og skólabörnin fá þá að halda sínum græna hól."
Vísað til borgarráðs.
450. fundur 2013
Bólstaðarhlíð 47, Háteigsskóli, breyting á deiliskipulagi
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 47 við Bólstaðarhlíð, Háteigsskóli. Í breytingunni felst að koma fyrir byggingarreit fyrir tvær færanlegar kennslustofur ásamt tengigangi, samkvæmt uppdr. umhverfis- og skipulagssviðs dags. 5. júlí 2013.
Vísað til umhverfis-og skipulagsráðs.
28. fundur 2013
Bólstaðarhlíð 47, Háteigsskóli, breyting á deiliskipulagi
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 47 við Bólstaðarhlíð, Háteigsskóli. Í breytingunni felst að koma fyrir byggingarreit fyrir tvær færanlegar kennslustofur ásamt tengigangi, samkvæmt uppdr. umhverfis- og skipulagssviðs dags. 9. ágúst 2013. Einnig er lagt fram bréf skólastjóra Háteigsskóla dags. 9. ágúst 2013.
Helga Lund verkefnisstjóri sat fundinn undir þessum lið.
Frestað
Umhverfis- og skipulagsráð óskar eftir minnisblaði frá skóla- og frístundasviði um nauðsyn þess að færa til kennslustofur. Ráðið ítrekar þá stefnu borgarinnar að frístundastarf skuli fara fram innan veggja skólanna þar sem því verður við komið og telur þörf á rökstuðningi fyrir því að börn sem rúmast ágætlega fyrir hádegi innan veggja skólans geta ekki verið þar eftir hádegi.
Jafnframt óskar ráðið eftir almennum upplýsingum um húsnæðismál frístundaheimilanna:
a. Hversu mörg frístundaheimili eru inni í húsnæði skólanna?
b. Hversu mörg frístundaheimili eru í lausum kennslustofum?
c. Hversu mörg frístundaheimili eru í öðru húsnæði, s.s. utan skólans?
d. Hversu mörg frístundaheimili eru aðþrengd eða í húsnæði sem þyrfti að betrumbæta?