Skipulagsráð

Verknúmer : SN120083

264. fundur 2012
Skipulagsráð, Fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins v/lóðar Perlunnar í Öskjuhlíð
Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins dags. 22. febrúar 2012
" Fram kom í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að sá aðili, sem á hæsta tilboð í Perluna í Öskjuhlíð, hyggist sækja um vilyrði hjá skipulagsráði Reykjavíkurborgar til að byggja 15 þúsund fermetra húsnæði á lóðinni. Í fréttinni vísar forsvarsmaður tilboðsgjafa því á bug að ekkert verði af slíkum uppbyggingaráformum, enda hafi hann átt fund með skipulagsstjóra borgarinnar og formanni skipulagsráðs og sé ætlunin að umsókn um skipulagsbreytingar á Perlulóðinni verði send ráðinu fyrir næstu mánaðamót eða mánuði áður en viljayfirlýsing milli Orkuveitunnar og tilboðsgjafa rennur út. Umrædd frétt kemur á óvart í ljósi þess að 25. janúar sl. fól skipulagsráð skipulagsstjóra, í framhaldi af tillöguflutningi Sjálfstæðisflokksins, að hefja undirbúning að opinni hönnunarsamkeppni um framtíðarskipulag Öskjuhlíðar, sem skyldi unninn í samvinnu við skipulagsráð. Spurt er: Eiga formaður skipulagsráðs og skipulagsstjóri í einhverju samstarfi við umræddan tilboðsgjafa vegna umsóknar um skipulagsbreytingar á Perlulóðinni? "

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar lögð fram eftrifarandi svar við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins dags. 22. febrúar 2012
"Tilboðshafar um kaup á Perlunni óskuðu eftir fundi með formanni skipulagsráðs og skipulagsstjóra til þess kynna hugmyndir um uppbyggingu á lóð Perlunnar. Á þeim fundi voru aðilar upplýstir um að erindi varðandi breytingar á deiliskipulagi, þyrftu formlega umfjöllun skipulagsráðs.
Slíkt erindi hefur ekki borist.
Ítrekað skal að hvorki formaður skipulagsráðs né skipulagsstjóri hafa heimildir til að samþykkja eða synja beiðnum um uppbyggingu á fundum með hagsmunaaðilum. Öllum þeim aðilum sem mæta á slíka fundi er leiðbeint um að slíkar ákvarðanir eru teknar af skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sem er fjölskipað stjórnvald og mótar stefnu í skipulagsmálum á grundvelli gildandi laga. Það skal þó einnig ítrekað að aðilum er frjálst að senda fyrirspurnir eða umsóknir um mögulegar breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem skipulags- og byggingarsviði er skylt að taka til meðferðar og beina til skipulagsráðs til formlegrar afgreiðslu.
Undirbúningur að gerð framtíðarskipulags fyrir Öskjuhlíð, í samræmi við samþykkt skipulagsráðs dags 25.jan. sl., er þegar hafinn hjá embætti skipulagsstjóra. Erindi sem berast skipulagsyfirvöldum í Reykjavík varðandi breytingar á svæðinu, verða afgreidd með hliðsjón af þeirri samþykkt."