Skipulagsráð

Verknúmer : SN110196

239. fundur 2011
Skipulagsráð, fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Auð hús í miðborginni.
Lögð fram fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins; Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Mörtu Guðjónsdóttur og Jórunnar Frímannsdóttur: "Ekkert liggur fyrir um hvernig brugðist verður við því óviðunandi ástandi sem myndast hefur vegna gamalla húsa sem standa yfirgefin í skammarlegri niðurníðslu. Foreldrar sem búa í miðborginni hafa ítrekað bent á að draugahúsin eru stórhættulegar slysagildrur. Íbúasamtök miðborgar hafa varað við ástandinu en því miður talað fyrir daufum eyrum. Fólk sem starfar á svæðinu hefur kallað eftir aðgerðum. Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn hafa hins vegar talað út og suður í fjölmiðlum og sýnilegt að lausnir eru engar. Svör þeirra endurspegla úrræðaleysi.
Myndarlegt átak var gert á síðasta kjörtímabili með verkefni sem ber heitið Völundarverk og er atvinnuátaksverkefni. Því var ætlað að stuðla að viðhaldi þekkingar með námskeiðum í endurgerð gamalla húsa í Reykjavík og var ásókn í þau mikil. Verkefnið er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar, Minjasafns Reykjavíkur og IÐUNNAR Fræðsluseturs. Með verkefninu sköpuðust störf samhliða því að auka á menntun og reynslu fagstétta.
Nú hefur þetta verkefni verið lagt af og áhugi á húsvernd hvergi sjáanlegur. Margoft hefur verið kvatt til þess á vettvangi borgarráðs og borgarstjórnar að halda áfram þessu góða verkefni en fyrir því er ekki áhugi.
Hvað hyggst meirihluti skipulagsráðs leggja til svo komið verði í veg fyrir slys á börnum og fullorðnum vegna draugahúsa í miðborginni?
Hvernig verður brugðist við svo að ásýnd og öryggi miðborgarinnar líði ekki fyrir yfirgefin niðurnídd hús?
Hvernig á að forðast verðfall fasteigna í næsta nágrenni niðurníddra, yfirgefinna húsa?
Hvað verður um verkefnið Völundarverk?"



Frestað.

241. fundur 2011
Skipulagsráð, fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Auð hús í miðborginni.
Lögð fram fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins; Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Mörtu Guðjónsdóttur og Jórunnar Frímannsdóttur um auð hús í miðborginni frá fundi ráðsins þann 27. apríl 2011, um auð hús í miðborginni. Einnig er lagt fram svarbréf skipulags- og byggingarsviðs dags. 11. apríl 2011.

Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl: 12:00.

Svarbréf skipulags- og byggingarsviðs samþykkt.
Fyrirspurn varðandi Völundarverk er visað til afgreiðslu borgarráðs.

Fulltrúar Besta flokksins; Páll Hjaltason og Elsa HrafnhildurYeoman og fulltrúar Samfylkingarinnar; Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Ekki verður lengur hikað við að beita þeim úrræðum sem Reykjavíkurborg hefur til að bregðast við slæmu ástandi húsa samkvæmt byggingarreglugerð auk þess sem skipulagsráð hyggst ganga fram af meiri festu en áður hefur tíðkast. Í þeim tilfellum sem ásigkomulagi, viðhaldi eða frágangi húss eða annars mannvirkis eða lóðar er þannig háttað að hætta geti stafað af eða húsnæði er heilsuspillandi eða óhæft til íbúðar og lóðarhafi sinnir ekki áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur, mun sveitarstjórn ákveða dagsektir, þar til úr hefur verið bætt. Beri álagning dagsekta ekki árangur mun Reykjavíkurborg ganga lengra í beitingu þvingunarúrræða og m.a. óska eftir því að fasteignin verði seld nauðungarsölu ef þurfa þykir.

Við beitingu dagsekta og annara þvingunarúrræða samkvæmt byggingarreglugerð, verður ekki tekið tillit til þess hvort slæmt ásigkomulag fasteigna megi rekja til heimilda í deiliskipulagi, mögulegra óska lóðarhafa um breytinga á skipulagi eða annara áhrifaþátta, enda eru engar heimildir fyrir því í lögum að slíkar aðstæður veiti lóðarhöfum rétt á að sinna viðhaldi fasteigna illa eða ekki. "