Göngugötur

Verknúmer : US150237

126. fundur 2015
Göngugötur, breytt fyrirkomulag
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, verkefnisstjóra borgarhönnunar, dags. xx. nóvember 2015 að breyttu fyrirkomulagi á göngugötum í miðborginni á aðventunni 2015.




125. fundur 2015
Göngugötur, breytt fyrirkomulag
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, verkefnisstjóra borgarhönnunar, dags. 26. október 2015 að breyttu fyrirkomulagi á göngugötum í miðborginni.



Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Herdís Anna Þorvaldsdóttir og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina Sigurður Ingi Jónsson greiða atkvæði á móti tillögunni og bóka:
"Hætt var við að loka götum í miðborg Reykjavíkur frá 1. maí til 1. október á þessu ári vegna mjög ákveðinna athugasemda frá samtökum þeirra sem reka verslun og veitingahús í miðborginni. Dagsetningum lokana var breytt vegna þeirra athugasemda. Nú er tekin ákvörðun um lokun gatna án nokkurs samráðs en jafnframt fullyrt að tekið verði upp samráð eftir að ákvörðun hefur verið tekin um dagsetningar lokana og fleira þessu máli tengt. Það eru ekki ásættanleg vinnubrögð. Ekkert liggur á og sjálfsagt að nota tímann vel til að undirbúa með hvaða hætti staðið verður að lokun gatna að sumarlagi árið 2016. Við höfum stutt verkefnið sumargötur en ávallt lagt áherslu á mikilvægi virks samráðs. Samstarfshópur um miðborg Reykjavíkur mun funda eftir rúmlega tvær vikur og það hefði að minnsta kosti verið vandaðri stjórnsýsla að bíða þar til málið hefur verið rætt á þeim vettvangi."
Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Sverrir Bollason, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson bókuðu:
"Undanfarin 5 ár hefur Laugavegur verið tekinn frá fyrir gangandi umferð til reynslu á sumrin. Reynslan af því hefur verið vonum framar fyrir notendur götunnar og flesta verslunaraðila. Athugasemdir s.l. vor um skamman frest frá ákvörðun um opnun göngugatna til framkvæmdar urðu til þess að ákvörðun var frestað um tvær vikur enda þótti sanngjarnt að gefa ríflegan fyrirvara líkt og fram kemur í bókun meirihluta borgarráðs 30. apríl 2015. Þá hefur legið fyrir síðan síðasta vor að til standi að bæði útvíkka og formgera verkefnið með meira afgerandi hætti. Nú er mál að festa í sessi það sem vel hefur gengið og gera með skýrum hætti grein fyrir þeim fyrirætlunum meirihluta umhverfis og skipulagsráðs að opna göngugötu á Laugavegi til frambúðar á sumrin enda er fullt tilefni til þess þar sem íbúar og ferðamenn fylla gangstéttar í miðborginni. Mikil ánægja hefur verið með sumargötur meðal borgarbúa og rekstraraðila. Samkvæmt nýlegri þjónustukönnun Gallup voru 76% borgarbúa jákvæðir gagnvart sumargötum í miðborginni en aðeins 9% neikvæðir. Þá voru tæplega 60% rekstraraðila jákvæðir gagnvart verkefninu. Ekki verður annað sagt en að 5 ára tilraun sé góður aðdragandi að því að festa ákvörðun sem þessa í sessi enda hefur hún gefið góða raun. Nú hefst nýr kafli í samráði við borgarbúa þar sem leitað verður skoðunar á því hvort auka beri við það svæði sem gert er aðgengilegra gangandi og hvort opna beri götur fyrir gangandi á öðrum tímum en þegar hefur verið reynt."
Vísað til borgarráðs.


124. fundur 2015
Göngugötur, breytt fyrirkomulag
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, verkefnisstjóra borgarhönnunar, dags. 26. október 2015 að breyttu fyrirkomulagi á göngugötum í miðborginni.

Hildur Gunnlaugsdóttir verkefnisstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Frestað.