Grafarvogur

Verknúmer : US150135

110. fundur 2015
Grafarvogur, umferðaröryggi (USK2015020008)
Lagt fram til kynningar skýrsla umferðaröryggishóps hverfisráðs Grafarvogs dags. í október 2014 varðandi umferðaröryggi í Grafarvogi. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs , samgöngur, dags. 20. apríl 2015.

Umferðaröryggishópur hverfisráðs Grafarvogs, Árni Guðmundsson, Guðbrandur Guðmundsson, Inga Lára Karlsdóttir og Ólafur Guðmundsson kynna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og fulltrúi Pírata Þórgnýr Thoroddsen bóka: "Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata þakka kærlega vel unna og góða skýrslu um umferðaröryggi í Grafarvogi. Það er mikilvægt að leita til íbúa þegar farið er í að greina og bæta umferðaröryggi í borginni og nýta þá þekkingu sem liggur hjá íbúum hverfanna. Á hverju ári er um 120 milljónum varið í sérstakar aðgerðir í umferðaröryggismálum. Í ár voru þær aðgerðir sendar til kynningar hverfisráða, umsagna leitað og munu þau vinnubrögð verða viðhöfð framvegis."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Áslaug María Friðriksdóttir bóka: "Skýrsla sem unnin er af umferðaröryggishópi hverfisráðs Grafarvogs er til mikillar fyrirmyndar. Hún dregur fram marga hættulega staði í umferðarskipulagi hverfisins og gerir tillögur um hvað gera þarf til að bæta úr. Í skýrslunni eru mikilvæg skilaboð til borgaryfirvalda og því nauðsynlegt að fara vel yfir hana og bregðast við. Ástæða er til þess að hvetja önnur hverfisráð í borginni til að taka upp sömu vinnubrögð og hafa þannig áhrif á nærumhverfi sitt með tillögum um það hvernig auka má umferðaröryggi."

Fulltrúi Framsóknarflokks og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókar: "Skýrslan er vel unnin og tilgreinir þau atriði sem lagfæra þarf til að bæta umferðaröryggi í Grafarvogi. Mikilvægt er að borgaryfirvöld bregðist við því sem fram kemur í skýrslunni og bæti umferðaröryggi í hverfinu. Lagt er til að skýrslan verði kynnt öllum hverfisráðum borgarinnar þar sem hún er mjög ítarleg og faglega unnin og gæti komið fleirum til góða."