Elliðaárvogur

Verknúmer : US150097

151. fundur 2016
Elliðaárvogur, landfylling
Lögð fram til kynningar frummatsskýrsla umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeildar, dags. apríl 2016, vegna landfyllingar í Elliðaárvogi. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 4. maí 2016 og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 24. maí 2016.

Snorri Sigurðsson verkefnisstjóri og Guðmundur Benedikt Friðriksson skrifstofustjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 24. maí 2016, samþykkt.

Umhverfis- og skipulagsráð bókar: "Í frummatsskýrslu um landfyllingu í Elliðaárvogi kemur fram að umhverfisáhrif vegna framkvæmdarinnar eru að mestu leyti metin óveruleg eða jafnvel jákvæð. Eina undantekningin er áhrif á laxfiska og þá fyrst og fremst hugsanleg skerðing á mikilvægu búsvæði seiða og farlaxa á ósasvæði Elliðaánna. Líklegt er að búsvæðaskerðingin muni hafa neikvæð áhrif á laxastofn Elliðaánna en óvissa ríkir um hvernig og hversu mikið. Þá ríkir einnig óvissa um umhverfisáhrif þess að starfsemi Björgun ehf hættir, en þau gætu mögulega verið jákvæð og þar með vegið á móti neikvæðum áhrifum af landfyllingu. Í ljósi varúðarreglunnar, sem er meginregla í nýjum náttúruverndarlögum (9. grein, lög nr. 60, 2013), telur umhverfis- og skipulagsráð það afar mikilvægt að eyða óvissu með bættum upplýsingum og rannsóknum. Þær þurfa meðal annars að snúast um lykilbúsvæði laxfiska í Elliðaárvogi, þolmörk laxastofnsins fyrir raski á farleið og um áhrif starfsemi Björgunar ehf. á laxinn og afleiðingar þess að sú starfsemi víkur. Áætluð íbúabyggð við Elliðaárvog er lykilhlekkur í þéttingu byggðar í borginni en ef nánari athugun á lífríki svæðisins leiðir í ljós að áhrif á laxafiska geti orðið veruleg, er mikilvægt að framkvæmdin verði endurskoðuð , til að mynda með minni landfyllingum, tilfærslu á byggingarmagni innan skipulagsreitsins sem og skilmálum um mótvægisaðgerðir í skipulagi. Fyrirhuguð uppbygging er mikilvæg en velferð laxastofnsins í Elliðaánum til framtíðar skiptir einnig mjög miklu máli. Að mati umhverfis- og skipulagsráðs er brýnt að allt sem gert er byggi á bestu vitneskju um áhrif á umhverfið".


115. fundur 2015
Elliðaárvogur, landfylling
Lögð fram drög að tillögu umverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeildar, dags. í apríl 2015 að matsáætlunar vegna landfyllingar í Elliðaárvogi. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngustjóra, dags. 4. ágúst 2015.

Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngustjóra, dags. 4. ágúst 2015 samþykkt.

104. fundur 2015
Elliðaárvogur, landfylling
Lögð fram drög að tillögu umverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeildar, dags. í apríl 2015 að matsáætlunar vegna landfyllingar í Elliðaárvogi.

Umhverfis- og skipulagsráðs vísar tillögunni til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða og skrifstofu viðhalds og nýframkvæmda.