Snorrabraut

Verknúmer : US130032

5. fundur 2013
Snorrabraut, þrenging til bráðabirgða
Lagt fram bréf Umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeild dags. 21. janúar 2013 ásamt tillögu að aðgerðum á Snorrabraut.

Stefán Finnsson verkfræðingur tók sæti á fundinum undir þessum lið.



Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins Júlíusar Vífils Ingvarssonar, svohljóðandi: Lagt er til að leitað verði álits Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs á tillögu um að þrengja Snorrabraut einkum með tilliti til neyðaraksturs
Samþykkt

Tillaga umhverfis- og samgöngusviðs samþykkt með átta atkvæðum fulltrúa Besta flokksins Páls Hjaltasonar, Elsu Hrafnhildar Yeoman og Karls Sigurðssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfa Hjartarsonar, ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins Gísla Marteini Baldurssyni og Hildar Sverrisdóttur, fulltrúi sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:
"Mikilvægt er að auka umferðaröryggi á Snorrabraut. Heildarendurskoðun og endurnýjun götunnar er nauðsynleg aðgerð sem ber að setja í forgang þar sem öryggi vegfarenda akandi, gangandi og hjólandi verði tryggt sem best. Þær götuþrengingar og hraðahindranir sem hér er verið að leggja til munu með margvíslegum hætti torvelda akstur um götuna. Það út af fyrir sig eykur óöryggi gangandi og hjólandi sem þvera hana. Gögn sem lögð hafa verið fram á fundi ráðsins styðja ekki að hraðakstur sé stundaður á Snorrabraut og því eðlilegt að skoða hvort aðrar aðstæður eins og lýsing eða upplýsingaskilti skapi hættu í umferðinni. Hraða umferðar má stýra með ýmsum hætti. Skal sérstaklega bent á hraðamyndavélar í því sambandi og ýmsar leiðir til að koma upplýsingum til vegfarenda eftir rafrænum leiðum. Með þeim hætti má halda niðri umferðarhraða án þess að trufla flæði umferðar þannig að ökumenn haldi athygli og fylgist betur með umhverfi sínu. Vel má hugsa sér að lækka umferðarhraða Snorrabrautar niður í 40 km á klukkustund."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir lögð fram eftirfarrandi bókun "Snorrabrautin er stórhættuleg gangandi vegfarendum og löngu tímabært er að gripið verði til aðgerða. Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur skorað á Reykjavíkurborg að bæta öryggi gangandi vegfarenda, enda hafa tvö banaslys orðið á götunni á síðustu 8 árum, og næstum 5% alvarlegra slysa og dauðaslysa þar sem ekið var á gangandi vegfarendur á árunum 1996-2011 urðu á Snorrabraut. Því er ekki boðlegt að draga aðgerðir lengur og því greiðum við atkvæði með tillögunni. Við áréttum þó að þessar tillögur eru aðeins bráðabirgðatillögur til að koma í veg fyrir fleiri alvarleg slys. Nauðsynlegt er að farið verði í löngu boðaðar aðgerðir um heildarhönnun götunnar, þar sem gróðursett verða tré, hjólastígar lagðir og gangstéttir breikkaðar. Rannsóknir erlendis frá sýna að þannig næst allt í senn: Rólegri umferð, aukið öryggi gangandi og hjólandi og góð afkastageta götunnar"
Fulltrúar Besta flokksins Páll Hjaltason, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Karl Sigurðsson, fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfi Hjartarson lögðu fram eftrifarnadi bókun. "Snorrabraut er ein af hættulegustu götum borgarinnar. Rannsóknir sýna að alvarleg slys og dauðaslys þar eru hlutfallslega algengari þar en á öðrum götum. Við teljum brýnt að ekki verði lengur dregið að grípa til ráðstafana sem auka öryggi gangandi vegfarenda. Við fögnum þeim aðgerðum sem sérfræðingar á umhverfis og skipulagssviði leggja nú fram, enda teljum við að þær séu vel útfærðar. Þær eru liður í því að gera borgargöturnar öruggari fyrir gangandi vegfarendur án þess að dregið sé úr eðlilegu flæði bílaumferðar."


4. fundur 2013
Snorrabraut, þrenging til bráðabirgða
Lagt fram bréf Umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeild dags. 21. janúar 2013 ásamt tillögu að aðgerðum á Snorrabraut.

Frestað.

3. fundur 2013
Snorrabraut, þrenging til bráðabirgða
Lagt fram bréf Umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeild dags. 21. janúar 2013 ásamt tillögu að aðgerðum á Snorrabraut.

Frestað.