Umferðarmál, 30 km svæði, Miklabraut/Vesturlandsvegur, Alþingisreitur, Öskjuhlíð/Nauthólsvík, Ártúnshöfði, deiliskipulag, Aðalstræti 12-18, Túngata 2-4, Laugavegur, Seljabraut, Brekkustígur 1, Njálsgata 33, Skeljanes 10, Keilugrandi 1, Reitur Menntaskólans í Reykjavík, Kringlan, Aðalskipulag Reykjavíkur,

Skipulags- og umferðarnefnd

4. fundur 1998

Ár 1998, mánudaginn 9. febrúar kl. 10:00, var haldinn 4. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Guðrún Zoëga og Gunnar Jóhann Birgisson. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:


Umferðarmál, hægri beygja á rauðu ljósi
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða eftirfarandi ályktun í tilefni af framlagðri þingsályktunartillögu um að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi:
"Skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur telur að ef leyfð verði hægri beygja á móti rauðu ljósi muni það leiða til aukinnar slysahættu á gatnamótum. Tillagan er í andstöðu við markmið umferðaröryggisáætlunar Reykjavíkur um fækkun umferðarslysa. Breytingar þær sem tillagan gerir ráð fyrir hafa væntanlega mest áhrif á vegfarendur í Reykjavík því er nauðsynlegt að borgaryfirvöld fái tillöguna til umsagnar."

30 km svæði, mat á árangri
Lögð fram greinargerð umferðardeildar dags. 06.02.98 um mat á árangri úrbóta á 30 km svæðum.

Nefndin felur umferðardeild að gera frekari tillögur um úrbætur í Eskihlíð og á Laugarnesvegi og varðandi gegnumakstur á Laugalæk.

Miklabraut/Vesturlandsvegur, hækkuð hraðamörk
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs, dags. 12.11.97, ásamt fylgibréfum, varðandi hækkuð hraðamörk á hluta Miklubrautar og Vesturlandsvegar. Einnig lögð fram umsögn umferðardeildar dags. 19.11.97.
Frestað.

Alþingisreitur, deiliskipulag
Lögð fram að nýju tillaga teiknistofunnar Batterísins að breyttu deiliskipulagi á Alþingisreit stgr. 1.141, dags. 22.1.98, breytt 06.02.98, ásamt greinargerð, skýringarmyndum og eldri gögnum.
Formaður lagði fram svofellda tillögu að bókun:
"Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að leggja til við borgarráð að auglýsa breytingu á staðfestu deiliskipulagi Kvosarinnar á Alþingisreit. Öll nánari útfærsla á byggingum skal unnin í samráði við Borgarskipulag, embætti byggingarfulltrúa og borgarminjavörð og lögð fyrir SKUM að nýju og kynnt áður en málið kemur til umfjöllunar í byggingarnefnd, enda er lögð rík áhersla á að við nánari útfærslu nýbygginga sé gætt sérstaks tillits við þau hús sem fyrir eru hvað varðar staðsetningu, hlutföll og efnisval."
Frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað. "Við höfum áður samþykkt þingmannaskála og tengingu við Alþingishús. Við teljum að til að styrkja tengsl Alþingisgarðs og Alþingishúss og skála eigi að fjarlægja vesturvegg garðsins og endurhlaða hann ekki. Með þeirri breytingu getum við samþykkt eystri hluta reitsins. Að öðru leyti þarf að vinna skipulag reitsins betur, þar sem hér er um einn mikilvægasta reit borgarinnar að ræða. Þar þarf, m.a. að sýna nánar yfirbragð byggðarinnar. Sýna þarf betur samspil á milli Ráðhúss og nýbygginga á reitnum og sýna þarf fram á hvernig koma má bílastæðum fyrir og koma þarf fram hvaða kröfur eru gerðar um fjölda bílastæða. Við lýsum ánægju með að endanlega skuli hafa verið fallið frá byggingu 30 m langs tengigangs á 2. hæð, svokallaðs "þingmannarörs"."
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað: "Mín skoðun er sú að deiliskipulagstillagan sé ekki nægilega vel útfærð og markviss. Nauðsynlegt er að kveða miklu skýrar að orði varðandi þann rétt sem deiliskipulagið felur í sér. Ég er sammmála minnihlutanum í því að nauðsynlegt er að gera nánar grein fyrir samspili Alþingishúss, þingmannaskála og garðsvæðisins (Alþingishússgarðs og ræmu við við þingmannaskála). Þá vil ég taka undir aðra efnisþætti sem fram koma í bókun minnihlutans. Að auki vísa ég í fyrri bókanir mína varðandi þetta mál".
Margrét Sæmundsdóttir vísaði til bókunar sinnar á fundi nefndarinnar 2. febrúar s.l.
Bókun formanns skipulags- og umferðarnefndar: "Deiliskipulagstillaga sú sem hér er til umfjöllunar uppfyllir öll lagaskilyrði skv. nýjum lögum sem gildi tóku hinn 1. jan. s.l. Ekki er rétt á þessu stigi máls að sýna útlit nýbygginga sem ekki er búið að hanna og ekki á að byggja á næstunni. Það kæmi til greina, ef Alþingi kýs svo, að halda samkeppni um nýbyggingu á vestari hluta reitsins innan ramma nýs deiliskipulags. Varðandi bílastæði þá kemur fram að sýnt er fram á eitt bílastæði á hverja 65m2 á lóðum Alþingis og ljóst er að þau rúmast vel neðanjarðar ásamt 20 stæðum sem sýnd eru ofanjarðar. SKUM hefur bókað þá skoðun sína að leitast skuli við að fjölga bílastæðum í bílakjallara enn frekar. Nákvæmara fyrirkomulag bílastæða neðanjarðar helst í hendur við uppbyggingu á lóðinni."


Öskjuhlíð/Nauthólsvík, skipulag
Lögð fram tillaga og greinargerð Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts að deiliskipulagi Öskjuhlíðar-Nauthólsvíkur, dags. 05.02.98. Einnig lagt fram bréf umhverfismálaráðs dags. 17.09.97 og bréf Árbæjarsafns, dags. 18.09.97. Höfundur kom á fundinn og kynnti tillöguna.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að leggja til við borgarráð að tillagan verði auglýst sem deiliskipulagstillaga að lokinni umfjöllun í umhverfismálaráði.

Ártúnshöfði, deiliskipulag,
Lagður fram yfirlitsuppdráttur frá Landslagsarkitektum RV og ÞH og Teiknistofunni Skólavörðustíg 28 sf., í mkv. 1:1000 dags. 5.2.1998 og kynnt aðferð við mat á aðstæðum á hverri lóð.
Stefán Örn Stefánsson, arkitekt, kom á fundinn og kynnti málið. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir meginatriðin í endurskoðun skipulags hverfisins og hvetur til að verkinu verði lokið sem fyrst. Fyrir liggur samkomulag við SVR um staðsetningu biðstöðva við Bíldshöfða og Höfðabakka.
Endurskoðun skipulags gerir ekki ráð fyrir breytingu á hlutverki Dvergshöfða en gert er ráð fyrir gangstígum og gróðursvæðum við götuna. Að gefnu tilefni vill skipulags- og umferðarnefnd undirstrika, að ekki verður heimiluð nein aðkoma að húsum eða lóðum frá þeirri götu. Borgarskipulagi og byggingarfulltrúa er falið að kynna viðkomandi lóðarhöfum fyrrgreinda samþykkt og er jafnframt falið að láta húseigendur við Vagnhöfða fjarlægja gáma, kofa og annað sem geymt er í heimildarleysi utan lóðamarka við Dvergshöfða.
Vísað til kynningar í umhverfismálaráði.


Aðalstræti 12-18, Túngata 2-4, deiliskipulag
Lögð fram að nýju tillaga Teiknistofunnar Skólavörðustíg 28 sf. um skipulag reits við Aðalstræti 12-18 og Túngötu 2-4, dags. sept. 1997 ásamt greinargerð dags. 09.02.98, ásamt bréfi Húsfriðunarnefndar ríkisins, dags. 19.08.97 og bréfi Árbæjarsafns, dags. 23.09.97. Ennfremur lögð fram bréf umhverfismálaráðs, dags. 16.10.97, 14.11.97 og 15.01.98 ásamt umsögn borgarminjavarðar dags. 9.10.97.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða að kynna tillögu merkta B fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu næst Aðalstræti 12-18 og Túngötu 2-4.
Margrét Sæmundsdóttir óskaði bókað: "Ég samþykki kynninguna, en lýsi yfir efasemdum um ágæti þess að flytja Ísafoldarhúsið, Austurstræti 8, í Aðalstræti.
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað: "Ég samþykki opna kynningu á framlögðum uppdráttum en ítreka jafnframt ósk mína um að önnur götumynd sem sýnir eldra hús sem stóð á lóðinni nr. 12 við Aðalstræti hér áður fyrr verði einnig höfð til sýnis á þeirri kynningu. Í þessu felst efasemd mín um ágæti þess að flytja Ísafoldarhúsið á fyrrnefnda lóð."
Formaður óskaði bókað: "Flutningur Ísafoldarhússins á lóðina nr. 12 við Aðalstræti hefur verið til umfjöllunar lengi í skipulags- og umferðarnefnd. Fyrir liggur samþykki Húsfriðunarnefndar ríkisins, umhverfismálaráðs og borgarminjavarðar, sem segir raunar að húsið muni njóta sín betur í þeirri götumynd. Tilgangur þessarar kynningar er m.a. að sýna hvernig Ísafoldarhúsið fer í götumynd Aðalstrætis sunnanverðs".


Laugavegur, tímabundin lokun
Lögð fram bréf og tillaga gatnamálastjóra, dags. 06.02.98 varðandi tímabundna lokun Laugavegar vegna endurnýjunar milli Barónsstígs og Frakkastígs.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða tillögu gatnamálastjóra um lokun Laugavegs á milli Barónsstígs og Frakkastígs á tímabilinu frá 1. mars til 15. júlí n.k. og jafnframt að á sama tíma verði heimil almenn umferð til vesturs eftir Hverfisgötu frá Barónsstíg að Lækjargötu.

Seljabraut, umferð
Lagt fram að nýju bréf Torfa Karls Karlssonar, dags. 11. jan. 1998, um úrbætur varðandi umferð og umferðarhraða á Seljabraut. Einnig lagt fram bréf sama, dags. 30.01.98. Ennfremur lögð fram fundargerð umferðardeildar með íbúum við Seljabraut, dags. 19.01.98 og umsögn umferðardeildar, dags. 07.01.98 ásamt tillögu dags. 6.2.1998.
Samþykkt með samöldu við biðstöð SVR. Jafnframt er umferðardeild falið að huga að tillögum um úrbætur á neðri hluta Seljabrautar.
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað: "Ég hefði fremur óskað eftir því að nefndin samþykkti gerð 30 km tvöfaldrar samöldu með miðeyju á Seljabraut. Þar sem sú útfærsla mun leiða til meiri lækkunar á umferðarhraða en 40 km samaldan. Óskað er eftir umsögn á næsta fundi frá umferðardeild, þar sem bornar eru saman 30 km og 40 km samöldur, eðli þeirra, kostir og gallar."


Brekkustígur 1, breytingar
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 30.01.98, varðandi breytingar á útliti og innra fyrirkomulagi hússins á lóðinni nr. 1 við Brekkustíg, samkv. uppdr. Dagnýjar Helgadóttur ark., dags. 13.01.98. Einnig lögð fram umsögn skipulagsnefndar frá 11.04.95.
Nefndin samþykkir að kynna málið fyrir hagsmunaaðilum að Framnesvegi 6, 7 og 8, Brekkustíg 2 og 3 og Ránargötu 51.

Njálsgata 33, breytingar
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 30.01.98, varðandi breytingar á útliti og innra fyrirkomulagi hússins á lóðinni nr. 33 við Njálsgötu, samkv. uppdr. Ársæls Vignissonar ark., dags. í nóv. 1997. Einnig lagðar fram umsagnir Árbæjarsafns dags. 21.11.97 og Húsafriðunarnefndar ríkisins dags. 2.12.97.
Samþykkt að kynna málið fyrir hagsmunaaðilum að Njálsgötu 31, 31a, 32, 33, 33a, 33b og 34.

Skeljanes 10, breyting á byggingarreit
Lagt fram bréf Helga S. Helgasonar, dags. 21.01.98, varðandi breytingu á byggingarreit Skeljaness 10. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags, dags. 04.02.98.
Samþykkt að kynna málið fyrir hagsmunaaðilum að Skeljatanga 1 og 3, Fáfnisnesi 14 og 15 og Skeljanesi 5.

Keilugrandi 1, breytingar?
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 30.01.98, varðandi breytingu á austur einingu byggingarinnar og reisa ketilhús og verkstæði við austurhlið hússins nr. 1 við Keilugranda, samkv. uppdr. Halldórs Guðmundssonar ark., dags. 18.11.97. Einnig lagðar fram umsagnir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12.12.97 og Borgarskipulags dags. 29.10.97.
Samþykkt að kynna málið fyrir hagsmunaaðilum að Boðagranda 2, 6 og 8 og Fjörugranda 14, 16 og 18.

Reitur Menntaskólans í Reykjavík, skipulag
Lögð fram til kynningar verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um skipulag reits Menntaskólans í Reykjavík.
Höfundur kom á fundinn og kynnti tillöguna. Vísað til umhverfismálaráðs. Nefndin samþykkir jafnframt fyrir sitt leyti að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum næst reit Menntaskólans.

Kringlan, skipulag
Lagðir fram uppdrættir Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar, dags. 3.2 og 4.2.1998 að endurskoðuðu deiliskipulagi og umferðarfyrirkomulagi í Kringlu. Einnig lögð fram bréf Borgarskipulags, dags. 9.12.1997 og 19.1.1998, vegna athugasemda í kynningu og umsagna um þær og fundargerð frá fundi með hagsmunaaðilum dags. 4.2.´98, dags. 7.2., br. 9.2.´98, ásamt bréfi umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 9.2.´98 varðandi umferðartæknileg atriði.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að senda tillöguna í kynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðun
Lagður fram að nýju endurskoðaður kafli um miðborgina í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, dags. 6.2.´98.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.