Dunhagi, Gylfaflöt, lóðarafmarkanir, Hafnarstræti 17, Selásbraut/Vindás, leikskóli, Tunguháls, Umferðaröryggisáætlun, Vatnsmýrarvegur/Þingholt/Öskjuhlíð, Sundabraut, Holtavegur/Þróttarsvæði, Skeiðarvogur, SVR, Gatnagerðaráætlun, Alþingisreitur, Austurstræti 8 - 10, Geldinganes, grjótnám, Laugavegur 53B,

Skipulags- og umferðarnefnd

24. fundur 1997

Ár 1997, mánudaginn 8. desember kl. 10:00, var haldinn 24. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Gunnar Jóhann Birgisson. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:


Dunhagi, umferð
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24. s.m. um stöðvunarskyldu á Dunhaga gagnvart umferð um Hjarðarhaga og breytingar á miðeyjum. Erindið hefur verið sent lögreglustjóra til staðfestingar.


Gylfaflöt, lóðarafmarkanir,
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24. s.m. um afmarkanir lóða við Gylfaflöt.


Hafnarstræti 17, breyting á þaki, viðbygging
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24. s.m. um viðbyggingu við Hafnarstræti 17.


Selásbraut/Vindás, leikskóli, aðkoma, lóðarafmörkun
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24. s.m. um afmörkun lóðar fyrir leikskóla við Selásbrau / Vindás.


Tunguháls, lóðarafmörkun
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24. s.m. um afmörkun lóðar við Tunguháls.


Umferðaröryggisáætlun,
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 10. s.m. um umferðaröryggisáætlun. Framkvæmdaáætlun er til viðmiðunar, en er háð fjárveitingu á fjárhagsáætlun borgarinnar hverju sinni.


Vatnsmýrarvegur/Þingholt/Öskjuhlíð, gönguleið
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 25.11.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 24. s.m. um uppsetningu gangbrautarljósa á Vatnsmýrarveg við Bústaðaveg.


Sundabraut, kynning
Lögð fram til kynningar áfangaskýrsla 1 að þverun Kleppsvíkur, unnin af Vegagerðinni og borgarverkfræðingi, dags. í okt. 1997.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að fulltrúi Borgarskipulags taki sæti í vinnuhópi borgarverkfræðings og Vegagerðarinnar um Sundabraut.

Holtavegur/Þróttarsvæði, deiliskipulag
Lagðar fram til kynningar tillögur Kanon arkitekta ehf að deiliskipulagi á svæði sem markast af Holtavegi, Sæbraut, Sæviðarsundi og Njörvasundi, ásamt bréfi dags. 01.12.97. Einnig lögð fram forsögn Borgarskipulags að deiliskipulaginu, dags. 12.09.97, ásamt bréfi umferðardeildar, dags. 07.11.97 og 05.12.97.
Halldóra Bragadóttir, skipulagshöfundur kom á fundinn og kynnti tillögurnar. Frestað.

Skeiðarvogur, þrenging götu
Lögð fram að nýju frumdrög Borgarskipulags, dags. 21.11.97 að fækkun akreina og bættum göngutengslum, ásamt bréfum foreldrafélags Vogaskóla og foreldrafélags Langholtsskóla, dags. 12.09.97, varðandi umferðarmál í skólahverfunum.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir svohljóðandi bókun með 6 samhlj. atkvæðum (Jóna Gróa Sigurðardóttir sat hjá). "Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að þrengja götuna Skeiðarvog, úr 4 akreinum í 2 í tilraunaskyni, á kaflanum frá Gnoðarvogi að Sæbraut. Borgarskipulagi og umferðardeild falið að útfæra bráðabirgðaþrengingu. Tilraunin nái til eins árs. Athugaðir verði möguleikar á að umferð ökutækja yfir 6 tonn að heildarþyngd, annarra en vagna SVR, verði bönnuð á Skeiðarvogi frá Sæbraut að Suðurlandsbraut. Ennfremur verði athugað hvort gangbrautarljós þurfi á Skeiðarvog á aðalgönguleið að Vogaskóla."

SVR, biðskýli, upplýsingatöflur, salerni
Lögð fram til kynningar tillaga borgarstjóra, dags. 25.11.97, samþykkt í borgarráði 02.des.. sl. varðandi biðskýli og upplýsingatöflur.


Gatnagerðaráætlun,
Lögð fram að nýju til kynningar áætlun um götur og holræsi ásamt tillögum að stefnumótun um endurgerð gatna í elsta hluta borgar og í uppbyggingu aðalholræsa. dags. 24.11.97.


Alþingisreitur, skipulag
Lagt fram að nýju bréf Sigurðar Einarssonar arkitekts, dags. 27.05.97, vegna skipulags Alþingisreits, ásamt greinargerð Batterísins, dags. 11.11.97, breytt 05.12.97 og uppdr. og líkani sama aðila, dags. 26.05.97, breytt síðast 21.11.97. Einnig lögð fram umsögn borgarminjavarðar, dags. 21.11.97, bókun umhverfismálaráðs frá 26.11.97, ásamt bókun Húsfriðunarnefndar, dags. 01.12.97.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:
"Skipulags- og umferðarnefnd fagnar því að sjá tillögu að uppbyggingu á Alþingisreit þar sem Kirkjustræti 8 fær að standa. Nefndin getur fallist á staðsetningu þingmannaskála og tengingu hans við Alþingishús ásamt aðkomu að neðanjarðarbílastæðum sunnan Alþingisgarðs. Óskað er eftir að tenging þingmannaskála til vesturs að eldri byggingum við Kirkjustræti verði endurskoðuð og staðsetning nýbyggingar á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu, við hlið Vonarstrætis 12 samanber umsögn borgarminjavarðar dags. 21.11. 1997, ásamt því að leitast verði við að fjölga bílastæðum í kjallara þar til málið kemur til afgreiðslu nefndarinnar á ný. Aðgengi að Alþingisgarði þarf að skoða nánar. Að þessu sinni er ekki verið að taka afstöðu til annarra nýbygginga á reitnum en að ofan er getið."
Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað:
"Þótt ekki sé verið að taka afstöðu til annarra nýbygginga á svæðinu en þingmannaskála og tengibyggingar við núverandi Alþingishús vil ég strax á þessu stigi koma eftirfarandi skoðun minni á framfæri. Ég legg til að götumyndir bæði Kirkjustrætis og Vonarstrætis taki mið af því að styrkja eldri byggð á svæðinu. Það mætti gera með því að byggja upp götumyndir með svipuðum hætti og nú er fyrirhugað við Aðalstræti. Áríðandi er að fyrirhugaðar byggingar verði færðar fjær götunni við Vonarstræti og verði byggingarlína miðuð við götulínu Vonarstrætis 12. Nýbyggingar við Tjarnargötu væru síðan með öðru sniði. Þá tel ég neðanjarðartengingu frá þingmannaskála til vesturs vera besta kostinn og gæti gerð hennar tengst byggingu bílageymslu á hagkvæman hátt.
Að lokum skal vakin athygli á því að æskilegt væri útlitslega að lækka Oddfellowhúsið og færa það þar með í upprunalegt horf."



Austurstræti 8 - 10,
Lögð fram gögn Teiknist. Skólavörðustíg 28 sf, vegna athugunar á endurbyggingu Ísafoldarhúss á upprunalegum stað, dags. nóv. 1997 ásamt greinargerð mótt. 04.12.97. Einnig lagt fram bréf umhverfismálaráðs, dags. 14.11.97.
Stefán Örn Stefánsson, arkitekt, kom á fundinn og gerði grein fyrir málinu. Vísað til umsagnar umhverfismálaráðs.


Geldinganes, grjótnám,
Lagt fram að nýju bréf Reykjavíkurhafnar, dags. 11.11.97, ásamt uppdr. dags. 10.11.97, varðandi deiliskipulag af grjótnámi í Geldinganesi. Einnig lagt fram bréf Skipulags ríkisins, dags. 09.10.97, varðandi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs grjótnáms í Geldinganesi, ásamt frummatsskýrslu Stuðuls f.h. Reykjavíkurhafnar, dags. júlí 1997. Ennfremur lagt fram bréf umhverfismálaráðs, dags. 28.11.97.
Deiliskipulagstillagan er samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2. (Gunnar Jóh. Birgisson og Guðrún Zoëga greiddu atkvæði á móti. Jóna Gróa Sigurðardóttir sat hjá). Gunnar Jóh. Birgisson og Guðrún Zoëga óskuðu bókað: "Með því að samþykkja námuleyfi í Geldinganesi og deiliskipulag af námusvæðinu er R-listinn að stíga fyrsta skrefið í þá átt að breyta einu besta byggingasvæði Reykjavíkurborgar í námusvæði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst andstöðu sinni við þann þátt nýsamþykkts aðalskipulags að breyta um landnotkun í Geldinganesi, þ.e. að breyta nesinu úr því að vera svæði ætlað undir íbúðabyggð í iðnaðar- og athafnasvæði. Þegar nesinu hefur verið breytt í námur verður ekki aftur snúið. Það er mat allra sem að máli þessu hafa komið að mikil sjónmengun verði af námum í Geldinganesi og grípa þurfi til sérstakra aðgerða til þess að fela námurnar fyrir borgarbúum. Í niðurstöðu skipulagsstjóra segir, að helstu umhverfisáhrif námusvæðisins séu talin vera sjónræn áhrif og hljóðmengun frá bergborun, sprengingum og flutningum. Samþykkt námuleyfis í Geldinganesi er væntanlega liður í því að mati R-listans að tryggja stöðu Reykjavíkur sem umhverfisvænnar höfuðborgar."
Bókun formanns skipulags- og umferðarnefndar:
"Í AR ´84 er gert ráð fyrir 25ha athafnasvæði sunnan megin - innan til - á Geldinganesi. Að öðru leyti er Geldinganes sýnt með blandaðri landnotkun athafna- og íbúðabyggðar eftir skipulagstímabilið. Í staðfestum texta á bakhlið AR-kortsins er eftirfarandi texti: " Geldinganes hentar vel fyrir ýmsa hafnsækna starfsemi. Í Eiðsvík, sunnan nessins, er ákjósanleg hafnaraðstaða, gott var og aðdjúpt:"
Í AR ´90 er gert ráð fyrir Eiðsvíkurhöfn með fyllingum og athafnasvæði hafnar sunnan til á nesinu, athafnasvæði austast en að öðru leyti íbúðabyggð. Í texta á bakhlið AR-kortsins er eftirfarandi texti: "Til þess að fá hagkvæmt bakland í láréttum fleti fyrir hafnarstarfsemi þarf að sprengja mikið grjót í Geldinganesi og að einhverju leyti í Gufunesi. Miðað er við, að þetta efni verði nýtt til landfyllingar. Þar sem undirbúningsvinnu er ekki lokið á hafnarsvæði í Geldinganesi, eru þær afmarkanir, sem sýndar eru í þessu aðalskipulagi, ekki endanlegar."
Í AR ´96 var ekki ágreiningur um að hafnarsvæði yrði áfram í Eiðsvík sbr. AR ´90. (Ágreiningur var um form hafnarsvæðis og landnotkun að öðru leyti á nesinu - blönduð athafna- og íbúðabyggð).


Laugavegur 53B, nýbygging
Lögð fram breytt tillaga að nýbyggingu að Laugavegi 53B, dags. 07.11.97, breytt 12.11.97. mótt. 04.12.97, ásamt nýrri tillögu, dags. 8.12.97, ásamt gögnum arkitekts um skuggavarp. Einnig lögð fram bréf Jóns Sigurjónssonar, dags. 7.11.97 og 02.12.97 og bréf Elínar Ebbu Ásmundsdóttur og Jon Kjell Seljeseth, dags. 9.11.97, 23.11.97 og 8.12.97. Ennfremur bréf Íbúasamtaka Skólavörðuholts, dags. 4.12.97, bréf Friðriks Bridde og Svövu Guðmundsdóttur, dags. 8.12.97 og bréf Reynis Baldurssonar, dags. 8.12.97.

Skipulags- og umferðarnefnd frestar afgreiðslu málsins, en tekur fram að hún gerir ekki athugasemdir við framhúsið við Laugaveg.