Borgartún 1a, Gjaldskyld bílastæði, Kringlan, Kringlan 4-6 og 8-12, Bauganes 13 og 19, Bólstaðarhlíð, Aðalstræti 12-18, Túngata 2-4, Ártúnshöfði, deiliskipulag, Kirkjutún, Dalbraut 16, Gufunes, Langholtsvegur 1 og Kleppsvegur 102, Rauðljósamyndavélar, Laugavegur 53B, Strandvegur, Suðurgata, Bjarg, Sæbraut, Stangarholt, Umferðaröryggisáætlun,

Skipulags- og umferðarnefnd

21. fundur 1997

Ár 1997, mánudaginn 27. október kl. 10:00, var haldinn 21. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Halldór Guðmundsson, Guðrún Zoëga og Gunnar Jóhann Birgisson. Ennfremur áheyrnarfulltrúi lögreglustjóra. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:


Borgartún 1a, uppbygging
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 14.10.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 13. s.m. um uppbyggingu á lóð nr. 1a við Borgartún.


Gjaldskyld bílastæði, miðborg
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 14.10.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 13. s.m. um gjaldskyld bílastæði á svæði milli Bergstaða og Ingólfsstrætis.


Kringlan, umferðarmál
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 14.10.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 13. s.m. um umferðar- og bílastæðamál við Kringluna.


Kringlan 4-6 og 8-12, tengibygging
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 14.10.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 13. s.m. um tengibyggingu milli Kringlunnar 4 - 6 og 8 - 12.


Bauganes 13 og 19, breytt skipulag
Lagt fram bréf Kristins Jónssonar og Díönu Sigurðardóttur, dags. 07.05.97, varðandi skipulag á lóðunum að Bauganesi 13 og 13 A ásamt fyrri bréfum sömu aðila, dags. 12.01.89 og 12.05.95. Ennfremur bréf Árna Hermannssonar, dags. 07.05.97, varðandi skiptingu á lóðinni Bauganesi 19 og aðkomu að baklóðinni.
Einnig lögð fram tillaga Borgarskipulags að breytingu á skipulagi dags. 18.09.97.

Samþykkt

Bólstaðarhlíð, lokun
Lagt fram bréf borgarverkfræðings dags. 23.10.97 með tillögu vegna lokunar Bólstaðarhlíðar. Einnig lagt fram að nýju bréf hóps um umferðarmál í Bólstaðarhlíð, dags. 06.10.97 ásamt bréfi forstjóra SVR dags 27.09.97.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir svofellda bókun: "Skipulags- og umferðarnefnd beinir því til borgarráðs að á fjárhagsáætlun næsta árs verði gert ráð fyrir upphitun gangstéttar á milli húsanna nr. 41 - 45 við Bólstaðarhlíð (íbúðir aldraðra) og biðstöðvar SVR við Háteigsveg. Ennfremur verði kannaðir möguleikar og kostnaður við að leggja hitalagnir í gönguleiðir frá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar og fjölmennustu íbúðarkjörnum aldraðra að nærliggjandi biðstöðvum SVR og verslunarkjörnum með það fyrir augum að mörkuð verði sú stefna að slíkar hitalagnir verði lagðar á næstu árum". Guðrún Zoëga sat hjá og óskaði bókað: " Ég er sammála því að kannaður verði kostnaður við lagningu og rekstur hitakerfa í gangstéttir í nágrenni íbúða og félagsmiðstöðva aldraðra. Ég tel hins vegar rétt að bíða eftir niðurstöðum slíkrar könnunar áður en stefna verður mörkuð í þessu efni". Erindinu frestað að öðru leyti.

Aðalstræti 12-18, Túngata 2-4, uppbygging lóða
Lögð fram til kynningar tillaga Borgarskipulags og Minjaverndar um skipulag reits við Aðalstræti 12-18 og Túngötu 2-4, dags. í júní 1997, breytt dags. sept. 1997. Einnig lagt fram bréf Húsfriðunarnefndar ríkisins, dags. 19.08.97 og bréf Árbæjarsafns, dags. 23.09.97 ásamt greinargerð Minjaverndar og Teiknistofunnar Skólavörðustíg 28 sf, dags. 22.09.97 og 26.10.97. Ennfremur lagt fram bréf umhverfismálaráðs, dags. 16.10.97 ásamt umsögn borgarminjavarðar dags. 9.10.97. Stefán Örn Stefánsson og Þorsteinn Bergsson komu á fundinn og gerðu grein fyrir tillögunni.
Vísað til umsagnar umhverfismálaráðs.

Ártúnshöfði, deiliskipulag,
Lögð fram til kynningar drög að endurskoðuðu deiliskipulagi Ártúnshöfða samkv. tillögu Stefáns Arnar Stefánssonar arkitekts ásamt greinargerð, dags. 03.09.97.
Tillöguhöfundur kom á fundinn og gerði grein fyrir tillögunni ásamt Reyni Vilhjálmssyni, landslagsarkitekt.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkti samhljóða svofellda bókun: "Skipulags- og umferðarnefnd telur mikilvægt að kannað verði að hve miklu leyti lóðarhafar í Ártúnshöfðahverfi og við Grafarvog hafa fært starfsemi sína út fyrir lóðir sínar, þ.m.t. á jarðvegsfyllingum sem ekki samræmast skipulagi. Nefndin felur byggingarfulltrúa og garðyrkjustjóra að gera slíka úttekt".


Kirkjutún, breytt skipulag
Lögð fram til kynningar tillaga Ingimundar Sveinssonar arkitekts, um breytt deiliskipulag "Kirkjutúnsreits" dags. 25. október 1997.
Borgarskipulagi falið að kynna tillöguna.

Dalbraut 16, lóðarstækkun
Lagt fram bréf Guðfinnu Thordarson ark., dags. 08.10.97, varðandi færslu bílgeymslu neðanjarðar á nærliggjandi lóð, samkv. uppdr. sama, dags. 07.10.97. Einnig lagt fram bréf Guðmundar Gunnarssonar, dags. 20.10.97 varðandi lóðarstækkun.
Nefndin samþykkir erindið með þeim skilmálum að kvöð er á lóðarskikanum um almenna umferð á göngustíg sem verður í óbreyttri legu og að skikinn verði áfram hluti opins útivistarsvæðis sbr. AR ´96-2016. Lóðarstækkun gefur ekki aukið byggingarmagn / nýtingu á lóðinni.

Gufunes, útivistarsvæði
Lögð fram til kynningar tillaga Borgarskipulags skv. uppdr. Sigríðar Brynjólfsdóttur landslagsarkitekts dags. 11.02.97 að almennu útivistarsvæði á uppfyllingu í Gufunesi. Einnig lagt fram bréf Íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 12.09.97, varðandi tillögur að útivistarsvæði við Gufunes.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun:
"Skipulags- og umferðarnefnd fagnar því að sjá tillögu að hugsanlegri notkun / starfsemi á uppfyllingunni á Gufunesi sem er almennt útivistarsvæði til sérstakra nota skv. A.R. 1996-2016. Nefndin er jákvæð gagnvart þeim markmiðum sem sett eru fram í tillögunni en ljóst er að áður en allt meginfyrirkomulag á svæðinu er ákveðið þarf að rýna svæðið nánar t.d. m.t.t. legu Sundabrautar, sigs undirlags og annarra áhrifa frá sorphaugum. Tillögunni vísað til umfjöllunar umhverfismálaráðs."


Langholtsvegur 1 og Kleppsvegur 102, lóðarbreyting, ofanábygging
Lögð fram tillaga Borgarskipulags dags. 20.10.97 að lóðarbreytingu og skilmálum á ofangreindum lóðum. Einnig lagt fram bréf Árbæjarsafns, dags. 03.09.97. Ennfremur lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar dags. 15.09.97 varðandi umsókn um ofanábyggingu húss á lóð nr. 1 við Langholtsveg.
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum (Guðrún Jónsdóttir sat hjá). Þar sem um hornlóð er að ræða á áberandi stað er mikilvægt að vandað sé til hönnunar.

Rauðljósamyndavélar,
Þórhallur Ólafsson frá dómsmálaráðuneytinu kom á fundinn og gerði grein fyrir árangri af notkun rauðljósamyndavéla á umferðargatnamótum ásamt Karli Steinari Valssyni frá lögreglunni í Reykjavík.


Laugavegur 53B, nýbygging
Að aflokinni 4 vikna kynningu eru lögð fram athugasemdabréf íbúa Hverfisgötu 70, dags. 08.10.97, Elínar Ebbu Ásmundsdóttur og Jon Kjell Seljeseth, dags. 09.10.97, Íbúasamtaka Skólavörðuholts, dags. 08.10.97 og 18.10.97 og Gallerís Kobolt, dags. 07.10.97. Ennfremur lögð fram bréf Jóns Sigurjónssonar, dags. 22. og 25. okt. 1997. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags um athugasemdir sem borist hafa, dags. 27.10.07.
Borgarskipulagi falið að eiga viðræður við nágranna vegna athugasemda þeirra.

Strandvegur, aðalbrautarréttur
Lagt fram bréf umferðardeildar og uppdr. gatnamálastjóra, dags. 21.10.97 varðandi aðalbrautarrétt Strandvegar gagnvart Vættaborgum, Víkurvegi og Melavegi með biðskyldu.
Samþykkt.

Suðurgata, Bjarg, stækkun lóðar
Lagt fram bréf Edvards Skúlasonar, dags. 03.09.97, varðandi stækkun á lóð norðan við húsið Bjarg við Suðurgötu. Einnig lögð fram tillaga Borgarskipulags, dags. 24.09.97 og minnisblað SVR, dags. 07.10.97.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir erindið, enda verði grindverk við lóðamörk ekki hærra en 0,9 m og ekki fylgi lóðarstækkuninni aukinn byggingarréttur.

Sæbraut, útskot
Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 14.10.97, varðandi útskot við Sæbraut á móts við Kirkjusand samkv. yfirlitsmynd, dags. í október 1997.
Skipulags- og umferðarnefnd getur fallist á staðsetningu útskots, en leggur áherslu á að vandað sé til útfærslu og frágangs í samvinnu við Borgarskipulag.

Stangarholt, umferð
Rætt um umferð um Stangarholt í tilefni af athugasemdum frá íbúum við götuna.
Umferðardeild falið að vinna að tillögu með hliðsjón af athugasemdunum.

Umferðaröryggisáætlun,
Lögð fram og kynnt drög að umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur dags. í okt. 1997.
Ennfremur lögð fram drög að fjárhags- og framkvæmdaáætlun vegna umferðaröryggisáætlunarinnar.