Aukaíbúðir, Elliðavatnsblettur 14, Staðahverfi, Síðumúli 19, 30 km svæði, Barónsstígur/Laufásvegur, Barónsstígur/Bergstaðastræti, Egilsgata 5, Geldinganes, grjótnám, Miðbakki, Umferðaröryggisáætlun 1997-2001, Kjalarnes, Miklabraut, Súðarvogur/Sæbraut, Gullinbrú, Bryggjuhverfi, Laugardalur, Þróttur, Reynisvatnsland 53, Smiðshöfði 17, Stórhöfði, Snorrabraut 61, Sóleyjargata 11, Kringlan, Umferðarmál,

Skipulags- og umferðarnefnd

10. fundur 1997

Ár 1997, mánudaginn 12. maí kl. 10:00, var haldinn 10. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Guðrún Jónsdóttir, Halldór Guðmundsson, Guðrún Zoëga og Gunnar Jóhann Birgisson. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:


Aukaíbúðir, endurskoðun
Lagt fram bréf borgarritara f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 22.04.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 21.04.97 um reglur um aukaíbúðir.



Elliðavatnsblettur 14, nýbygging
Lagt fram bréf borgarritara f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 22.04.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 21.04.97 um Elliðavatnsblett 14, nýbyggingu.



Staðahverfi, skilmálar
Lagt fram bréf borgarritara f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 22.04.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 21.04.97 um skilmála í Staðahverfi.



Síðumúli 19, viðbygging
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 29.04.97 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 28.04.97, varðandi viðbyggingu að Síðumúla 19.



30 km svæði, Lækir - Hlíðar
Lagðar fram til kynningar hugmyndir umferðardeildar borgarverkfræðings að breyttum útfærslum við Hamrahlíð. Ennfremur lögð fram greinargerð umferðardeildar um umferð um Hamrahlíð, dags. 25.11.95. og yfirlit yfir umferðaróhöpp í fyrirhuguðu 30 km. hverfi í Hlíðum sunnan Miklubrautar og austan Lönguhlíðar, dags. 9.5. 97.



Barónsstígur/Laufásvegur, Barónsstígur/Bergstaðastræti, útfærsla
Lögð fram greinargerð umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 05.05.97 ásamt uppdr. Kjartans Mogensen, dags. 06.05.97, að útfærslu á gatnamótum Barónsstígs/Laufásvegar og Barónsstígs/ Bergstaðastrætis.

Sipulags- og umferðarnefnd samþykkir útfærslu gatnamótanna með vísan til samþykktar skipulags- og umferðarnefndar 10.3.97. og umferðarnefndar 30.5.96.

Egilsgata 5, bensíndæla
Lögð fram tillaga Borgarskipulags að breyttum lóðarmörkum Egilsgötu 3 og 5 og Snorrabraut 60 og aðkomu frá Snorrabraut, dags. 18.03.1997, breytt 17.04.97 og 09.05.97 og tillaga Ingimundar Sveinssonar ark., dags. 17.01.97. Einnig lagt fram að nýju bréf Guðmundar Sv. Hermannssonar f.h. íbúa við Egilsgötu 10-32 og Þorfinnsgötu 2, dags. 18.11.96 ásamt umsögn borgarverkfræðings, dags. 20.11.96. Ennfremur lagt fram bréf Einars P. Svavarssonar f.h. Húsfélags Domus Medica, dags. 14.04.97 ásamt bréfi eiganda Skátahússins, dags. 15.04.97.
Frestað.

Geldinganes, grjótnám,
Lagt fram bréf Hannesar Valdimarssonar hafnarstjóra, dags. 25.04.97, varðandi frummat á umhverfisáhrifum grjótnáms í Geldinganesi. Ennfremur kynnt frummatsskýrsla um grjótnám í Geldinganesi, dags. í mars 1997.

Frestað.

Miðbakki, fræðslutorg, minnismerki
Lagt fram bréf hafnarstjóra, dags. 05.05.97, varðandi skipulag á torgi við Miðbakka, þ.e. fræðslutorgi og staðsetningu minnismerkja. Einnig lagðir fram uppdr. Halldórs Guðmundssonar, arkitekts, dags. 07.04.97. og bréf hans dags. 11.5.97.

Frestað.

Umferðaröryggisáætlun 1997-2001,
Lögð fram til kynningar umferðaröryggisáætlun til ársins 2001, útgefin af dómsmálaráðuneytinu í mars 1997. Þórhallur Ólafsson kom á fundinn og kynnti.

Skipulags- og umferðarnefnd fagnar framkominni umferðaröryggisáætlun 1997-2001 og beinir því til dómsmálaráðherra að hann beiti sér fyrir gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar sem verði hluti af umferðaröryggisáætluninni.

Kjalarnes, aðalskipulag
Lögð fram og kynnt frumdrög að endurskoðuðu aðalskipulagi Kjalarness, dags. 22.4.97.



Miklabraut, stokkur
Lögð fram til kynningar gögn um undirgöng á Miklubraut frá Reykjahlíð að Snorrabraut, dags. í maí 1997.




Súðarvogur/Sæbraut, umferð
Lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. 9.5.97. ásamt bréfi hans til borgarráðs, dags. 6.5.97. og uppdrætti varðandi afmörkun lóðar og stígakerfi við Suðurlandsbraut/Steinahlíð.

Borgarverkfræðingur kynnti samþykkt borgarráðs 6. maí s.l. á tillögu hans sbr. bréf borgarverkfræðings, dags. s.d.

Gullinbrú, breikkun
Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og umferðarnefnd um breikkun Gullinbrúar.


Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun: "Skipulags- og umferðarnefnd beinir eindregnum tilmælum til samgönguráðherra og Alþingis að veitt verði á þessu og næsta ári úr vegasjóði til breikkunar á Gullinbrú til að bæta umferðartengsl Grafarvogs og Borgarholtshverfa við borgina. Gangi þetta eftir er lagt til við borgarráð að undirbúningi verksins verði flýtt og athugaðir möguleikar á að framkvæmdir geti hafist í haust".
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og umferðarnefnd óskuðu bókað: "Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd telja sjálfsagt og eðlilegt að skora á samgönguyfirvöld að ganga strax í framkvæmdir við breikkun Gullinbrúar. Með því að samþykkja slíka áskorun er verið að undirstrika það sem kemur fram í tillögu Sjálfstæðismanna um nauðsyn á breikkun Gullinbrúar. Að öðru leyti er tillögu Sjálfstæðismanna frestað til næsta fundar skipulagsnefndar".


Bryggjuhverfi, skipulag
Lögð fram bréf Sigurðar R. Helgasonar, framkv.stj. Björgunar hf, dags. 09.04.97 og 02.05.97, varðandi áherslubreytingar í skipulagi Bryggjuhverfis í Grafarvogi. Skipulagsstjóri kynnti skipulag Bryggjuhverfis og áherslubreytingar.



Laugardalur, Þróttur,
Lagt fram bréf forstöðumanns byggingardeildar borgarverkfræðings, dags. 02.05.97, varðandi tillögur að nýju félagshúsi fyrir Knattspyrnufélagið Þrótt í Laugardal. Einnig lögð fram tillaga P.K. hönnunar sf, að félagshúsinu.

Samþykkt

Reynisvatnsland 53, endurnýjun
Lagt fram bréf Eiríks Sigurbjörnssonar, dags. 30.04.97, varðandi endurnýjun eldra húss með nýju heils árs húsi. Einnig lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 02.08.96.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir svofellda bókun: "Hægt er að fallast á erindið þar sem landið sem um ræðir er utan framtíðarbyggðasvæðis Reykjavíkur en með eftirfarandi skilyrðum: Brottflutningskvöð hvíli á húsinu. Húsið verði fjarlægt borgarsjóði að kostnaðarlausu þegar það verði ákveðið. Húsið verði aðeins nýtt sem sumarbústaður en ekki heilsársbúsetu. Að húsið verði staðsett í skógarlundi á sama stað og eldra hús".
Vísað til umhverfismálaráðs.


Smiðshöfði 17, Stórhöfði, lóðarstækkun og aðkoma
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa, f.h. byggingarnefndar, dags. 30.05.96, varðandi aðkomu að lóðinni nr. 17 við Smiðshöfða. Einnig lagðir fram uppdr. Sveinbjörns Jónssonar, bygg.verkfr., dags. 15.05.96. Ennfremur lögð fram tillaga Borgarskipulags, dags. 05.05.97. að stækkun á lóðinni.
Samþykkt. Gert verði ráð fyrir gönguumferð nyrst á viðbótarlóðinni.

Snorrabraut 61, endurnýjun byggingarleyfis
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 11.04.97, varðandi leyfi til að fullgera hús samkv. uppdr. Einars Sveinssonar arktekts, dags. 02.04.53 og bréf Guðbjargar K. Jónsdóttur, dags. 02.04.97. Einnig lagt fram bréf Árbæjarsafns, dags. 17.04.97 og greinargerð húsadeildar Árbæjarsafns og byggingarlistadeildar Listasafns Reykjavíkur, dags. sama dag. Ennfremur lögð fram umsögn Borgarskipulags, dags. 22.04.97.
Synjað með 3 atkv. gegn 1.

Sóleyjargata 11, gistiheimili
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar, dags. 01.04.97, varðandi leyfi til að reka gistiheimili í hluta hússins á lóðinni nr. 11 við Sóleyjargötu. Einnig lagt fram bréf Sveinbjargar Gunnarsdóttur og Jóns Sigurðssonar, dags. 15.04.97. Ennfremur lögð fram umsögn Borgarskipulags, dags. 14.01.97 og umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings dags. 18.4.97.


Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða: "Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemdir við endurnýjun á leyfi til gistingar í heimahúsi að Sóleyjargötu 11. Nefndin getur ekki fallist á leyfi til gistiheimilisreksturs sbr. umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings dags. 18.4.97. en það fellur ekki undir verksvið skipulags- og umferðarnefndar að veita leyfi fyrir gistingu í heimahúsi. Bent er á að gistiheimili samræmist ekki skilgreiningu í viðauka A í skipulagsreglugerð um íbúðasvæði, né gildandi aðalskipulag, en í tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur sem nú er í auglýsingu, er heimilt að gera ráð fyrir gistiheimilum á íbúðasvæðum svo fremi að starfsemin valdi nágrönnum ekki óþægindum eða ónæði".

Kringlan, bílastæði
Lögð fram og kynnt tillaga dags. 7.5.97. að bílastæðum við eystri gatnamót Listabrautar og Kringlunnar.



Umferðarmál, Samstarfsnefnd lögreglunnar á Suðvesturlandi
Gunnar Jóhann Birgisson lagði fram fundargerð Samstarfsnefndar lögreglunnar á Suðvesturlandi, í umferðarmálum, dags. 22.4.97.

Nefndin lýsir yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu og felur Borgarskipulagi og umferðardeild borgarverkfræðings að vinna að þáttöku borgarinnar í því.