Lækjargata, Miðborgin, Víðidalur, dýraspítali, Aðalskipulag Reykjavíkur, Suðurgata 121, stúdentagarður, Þórsgata 2, Staðahverfi, Átak í almenningssamgöngum, Kringlan, Hafnarstræti 16, Álaborgaráætlun, Bíla má hvíla,

Skipulags- og umferðarnefnd

1. fundur 1997

Ár 1997, mánudaginn 6. janúar kl. 10:00, var haldinn 1. fundur skipulags- og umferðarnefndar í Borgartúni 3, 4. hæð. Þessir sátu fundinn: Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Gunnar Jóhann Birgisson, Halldór Guðmundsson og Guðrún Zoëga. Einnig sat fundinn varafulltrúinn Vilhjálmur þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Ágúst Jónsson.
Þetta gerðist:


Lækjargata, stöðumælar
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 17.12.1996 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 16.12.1996, um stöðumæla við Lækjargötu.



Miðborgin, stæði leigubíla
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 10.12.1996 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 09.12.1996 um umferðarskipulag Miðbæjarins.



Víðidalur, dýraspítali, afmörkun lóðar
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 17.12.1996 á bókun skipulags- og umferðarnefndar frá 09.12.1996, um afmörkun lóðar fyrir dýraspítala í Víðidal.



Aðalskipulag Reykjavíkur,
Kynntar skipulagstölur og rætt um gatnakerfi og umferðarþátt aðalskipulags o.fl.

Formaður skipulags- og umferðarnefndar lagði fram svofellda tillögu meirihlutans:
"Vegna umferðarskipulags á Miklubraut samþ. skipulags- og umferðarnefnd að fylgt verði í meginatriðum tillögu I með þeirri undantekningu þó, að mislæg gatnamót við Skeiðarvog verði sýnd á skipulagstímabilinu. Um önnur mislæg gatnamót fyrir bílaumferð verði ekki að ræða á skipulagstímabilinu. Tekið verði frá helgunarsvæði á Miklubraut/Kringlumýrarbraut eins og áður og þess getið í greinargerð aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd leggur áherslu á að vanda þarf hönnun umferðarmannvirkja til að þau falli sem best að landi. Í ljósi niðurskurðar ríkisins til þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu er lögð áhersla á að gatnamót Skeiðarvogs/Miklubrautar verði lagfærð hið fyrsta skv. þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið í nefndinni."
Guðrún Zoega lagði til að tillögu meirihlutans verði frestað og var það samþykkt samhljóða.


Suðurgata 121, stúdentagarður, nýbygging
Lagt fram að nýju bréf Arkitekta sf., dags. 12.11.96, varðandi byggingu stúdentagarða við Suðurgötu, samkv. uppdr. Arkitekta s.f., mótt. 06.11.96 ásamt br. uppdr. sama aðila, dags. 20.12.96. Einnig lögð fram tillaga umferðardeildar um útfærslu á aðkomu að lóð ásamt bréfum umferðardeildar, dags. 4. og 6.12.96.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans í skipulags- og umferðarnefnd lögðu fram svofellda tillögu:
"Í framhaldi samkeppni um stúdentagarða 1985 voru samþykktar teikningar af fyrsta byggingaráfanga í byggingarnefnd 25. september 1986.
Á samþykktri afstöðumynd er gert ráð fyrir 2. áfanga í samræmi við samkeppnistillöguna. Þessi áfangi er síðan inni á skipulagsuppdráttum.
Á þessum tíma lágu ekki fyrir ákvæði um hljóðvist.
Ekki er hér um venjulega íbúðabyggð að ræða heldur stúdentagarð fyrir einstaklinga sem dvelja tímabundið og er gert ráð fyrir möguleika á því að reka húsið sem gistihús á sumrin.
Útivistarsvæði eru austan byggingar, skermuð frá umferð.
Í ljósi framanritaðs samþykkir skipulagsnefnd framlagðar teikningar enda verði fullnægt kröfum um að hljóðstig fari ekki yfir 30 db inni í íbúðum, 55 db á dvalarsvæðum utanhúss og 60 db við húsvegg."
Tillagan var samþykkt samhljóða.


Þórsgata 2, nýbygging
Lagt fram bréf Ingimundar Sveinssonar arkitekts, dags. 15.11.96, varðandi byggingu íbúðarhúss á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu, samkv. uppdr. sama aðila, dags. í nóvemer 1996. Einnig lagðar fram umsagnir Árbæjarsafns, dags. 06.08.96, 05.12.96 og 09.12.96 ásamt samþykkt umhverfismálaráðs, dags. 12.12.96.
Samþykkt.

Staðahverfi, deiliskipulag
Lögð fram tillaga Gylfa Guðjónssonar, arkitekts, að breytingu á deiliskipulagi Staðahverfis, dags. 2.1.97.

Samþykkt.

Átak í almenningssamgöngum,
Formaður lagði til að skipulags- og umferðarnefnd feli formanni í samráði við forstöðumann Borgarskipulags að tilnefna embættismann af hálfu nefndarinnar til setu í nefnd til átaks í almenningssamgöngum.



Kringlan, umferðarmál
Lagt fram bréf Ólafs Ó. Guðmundssonar, dags. 3.1.97, varðandi ástand umferðarmála við íbúðargötuna Kringluna.

Vísað til athugunar Borgarskipulags og umferðardeildar borgarverkfræðings.

Hafnarstræti 16, stæði leigubíla
Lagt fram bréf Rúnars Ómarssonar, dags. 19.12.96, varðandi stöður leigubíla við Hafnarstræti 16.

Nefndin felur Borgarskipulagi og umferðardeild borgarverkfræðings málið til athugunar og verði afgreiðslu þess hraðað.

Álaborgaráætlun, um sjálfbæra þróun
Lögð fram og kynnt greinargerð um 2. Evrópuráðstefnu um "sjálfbærar borgir og bæi". sem haldin var í Lissabon 5.-8. okt. 1996.

Varðandi þetta mál óskaði Guðrún Zoega að vekja athygli á bókun sinni og Jónu Gróu Sigurðardóttur í umhverfismálaráði 30.10.96 um málið.

Bíla má hvíla,
Lögð fram skýrsla verkefnisstjórnar um verkefnið "Hvíldardagur bílsins í Reykjavík 1996", dags. í des. 1996.

Nefndin felur Borgarskipulagi að leggja tillögur fyrir nefndina um framhald verkefnisins.