Nýlendugata 10

Verknúmer : SN990498

51. fundur 2001
Nýlendugata 10, nýbygging
Lagt fram bréf Halldórs Guðmundssonar arkitekts, dags. 23.10.01, varðandi nýbyggingu á lóðinni nr. 10 við Nýlendugötu, samkv. uppdr. sama, dags. 06.09.99, mótt. 23.10.01. Einnig lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 02.10.01 og bréf Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar dags. 19.11.01.
Synjað.
Tillagan eins og hún liggur fyrir samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.
Nefndin getur ekki samþykkt tillöguna en er jákvæð fyrir uppbyggingu á lóðinni í anda hennar.
Samþykkt að hefja vinnu við gerð deiliskipulags á svæðinu.


10. fundur 2000
Nýlendugata 10, nýbygging
Lagt fram bréf Halldórs Guðmundssonar arkitekts, dags. 25.09.99, varðandi nýbyggingu á lóðinni nr. 10 við Nýlendugötu, samkv. uppdr. Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar, dags. 06.09.99. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags, dags. 08.12.00.
Synjað með 4 atkvæðum fulltrúa R-lista með vísan til umsagnar Borgarskipulags.

Fulltrúar D-lista voru á móti synjun og óskuðu bókað:
Við mótmælum málsmeðferð meirihluta skipulags- og byggingarnefndar. Nú fyrst er lagt fyrir erindi sem dags. er 25. september 1999 og eru því liðnir tæpir 15 mánuðir frá því það barst.
Hugmynd sú, sem hér er sett fram leysir á margan hátt vel uppbyggingu á þessu horni, sem í dag er afar óhrjálegt í götumyndinni.
Við teljum eðlilegt að áfram verði haldið að vinna á þessum nótum. Ef takast á að ná fram markmiðum um þéttingu byggðar er ljóst að nýtingarhlutfall hlýtur að verða að hækka í ákveðnum tilvikum.
Það er gagnrýnisvert að draga svo lengi nauðsynlega vinnu þegar lóðarhafar eru að freista þess að bæta nýtingu lóða og svæðis og ná fram samræmi í götumynd og betra útliti. Á sama tíma eru höfð uppi fögur orð af hálfu Reykjavíkurlistans um að laða fjárfesta að svæðinu.
Þessi málsmeðferð er ekki til þess fallin að hvetja fjárfesta til uppbyggingar á miðborgarsvæðinu.

Bókun fulltrúa Reykjavíkurlistans:
Bókun Sjálfstæðisflokksins ber vott um afar óábyrga afstöðu til málsmeðferðar í skipulagsmálum. Sú umsókn sem hér liggur fyrir víkur í verulegum atriðum frá aðalskipulagi og þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er skipulagsyfirvöldum óheimilt að samþykkja fyrirliggjandi umsókn. Afstaða fulltrúa Reykjavíkurlistans hefur komið fram í umræðu og teljum við jákvætt að byggja upp á umræddri lóð. Uppbygging á reitnum er þó jafnframt háð umferðarskipulagi Mýrargötu og hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki mótmælt því. Eins og sakir standa eru ekki forsendur til annars en að synja erindinu eins og það liggur fyrir en Reykjavíkurlistinn hefur í verki sýnt að hann vill byggja upp á Mýrargötusvæðinu, þótt Sjálfstæðisflokkurinn heykist á að styðja slíkt.

Fulltúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Það er harla sérkennilegt að komast að því eftir 15 mánaða athugun að synja beri erindinu vegna aðalskipulags og skorts á deiliskipulagi. Það er óábyrg málsmeðferð.
Sú afstaða hefði átt að liggja fyrir strax ef ekki var vilji til að nota tímann til að gera nauðsynlegar breytingar þar á. Málið er því enn á byrjunarreit.
Allar hugmyndir og tillögur um umferðarskipulag Mýrargötu gera ráð fyrir óbreyttri legu Ægisgötu og að hún tengist Mýrargötu. Því verða menn að taka afstöðu til þeirrar lóðar sem um ræðir.
Samþykkt fulltrúa Reykjavíkurlista í skipulags- og byggingarnefnd felur ekki í sér neina afstöðu til fyrirliggjandi hugmynda.
Niðurlag bókunar fulltrúa Reykjavíkurlistans er úr takt við veruleikann og gengur þvert á þá staðreynd að Sjálfstæðismenn fluttu tillögu í hafnarstjórn snemma s.l., sumar um hugmyndasamkeppni á þessu svæði.