Umhverfis- og skipulagsráð

Verknúmer : SN130025

1. fundur 2013
Umhverfis- og skipulagsráð, bókanir v/ Ártúnshöfða
Í lok fundar voru lagðar fram eftirfarandi bókanir í máli nr. 15 á fundinum en þá hafði fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs vikið af fundi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað " Það er með nokkrum ólíkindum að meirihlutinn skuli samþykkja fyrir sitt leyti flutning Björgunar frá núverandi stað yfir í Sundahöfn, út frá þeim takmörkuðu gögnum sem hér liggja fyrir.
Stefna borgarinnar hefur um árabil verið sú að Björgun og skyld starfsemi verði á Álfsnesi. Engin gögn fylgja málinu sem skýra hvers vegna ekki gengur að bjóða fyrirtækinu varanlega aðstöðu þar.
Þar að auki fylgja málinu engin gögn um afstöðu fyrirtækisins sem um ræðir. Hvort það hafi áhuga á svæðinu í Sundahöfn, hvort því hugnist kostnaðarsamir flutningar á næstu misserum fyrir tímabundna staðsetningu og svo framvegis.
Í gögnum málsins kemur hinsvegar fram að "í Sundahöfn þyrfti að byggja um 100 metra viðlegumannvirki". Heildartillagan hefur ekki verið kostnaðarmetin, en hafnarbakkinn myndi kosta um 600 milljónir samkvæmt gögnum málsins. Heildarkostnaður fer því væntanlega nálægt milljarði. Það er mikið fé fyrir lausn sem sögð er tímabundin.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað " Fulltrúar Besta Flokks og Samfylkingar árétta að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar samrýmast aðalskipulagi borgarinnar. Þær fela í sér lausn fyrir framtíðarþróun Bryggjuhverfisins við Ártúnshöfða og eru jafnframt mikilvægt skref til uppbyggingar íbúðarhverfis við Elliðaárvog. Dregist hefur úr hófi að finna Björgun hf nýja staðsetningu. Sú tillaga sem hér er unnið að verður sett í umhverfismat og deiliskipulagsgerð.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað " Margsinnis hefur komið fram að framtíðarstaðsetning Björgunar ætti að vera á Álfsnesi, og borgin hefur unnið samkvæmt því árum saman. Þetta kom til dæmis skýrt fram í máli skipulagsfulltrúa á þessum fundi. Einkennilegt verður að teljast að meirihlutanum sé ekki kunnugt um það og telji að "dregist hafi úr hófi" að finna fyrirtækinu stað.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað " Besti flokkurinn og Samfylkingin láta raunsæi ráð för í þessu máli sem öðrum. Ekki óskhyggju. Íbúar í Bryggjuhverfi hafa beðið eftir raunhæfri lausn í tvo áratugi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað " Í orðum meirihlutans kemur fram að hann telji Álfsnes ekki raunhæfa lausn fyrir Björgun og fyrirtæki í þungaiðnaði. Engu að síður vinnur Reykjavíkurborg alla daga samkvæmt skipulagi sem gerir ráð fyrir því að fyrirtækið flytji þangað. Engin gögn hafa verið lögð fram sem styðja þessa kúvendingu meirihlutans. Það eru ekki traustvekjandi vinnubrögð að hrapa að ákvörðun sem kostar skattgreindur milljarð, án nokkurra gagna sem styðja hana.