Byggingarreglugerð

Verknúmer : SN120483

295. fundur 2012
Byggingarreglugerð, kynning
Í framhaldi af kynningu Mannvirkjastofnunar á nýrri byggingarreglugerð á fundi skipulagsráðs 14. nóvember sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson Gísli Marteinn Baldursson og Óskar Örn Guðbrandsson fram eftirfarandi bókun.
" Ábendingum um að ný byggingarreglugerð valdi auknum byggingarkostnaði ber að taka alvarlega. Að mati sérfræðinga er varlegt að áætla að byggingarkostnaður muni aukast um 10% vegna reglugerðarinnar. Reynist það rétt mun það hafa gríðarleg áhrif á möguleika ungs fólks til þess að eignast húsnæði og mun hafa margvísleg neikvæð hagræn áhrif. Aukinn byggingarkostnaður mun leiða til hærra fasteignaverðs, hærri fjármagnskostnaðar fyrir lántakendur og hærra leiguverðs. Kostnaðaraukinn mun auk þess leiða til hækkunar byggingarvísitölu sem oft er notuð sem grundvöllur fyrir leiguverð á almennum leigumarkaði. Hagræn áhrif hækkunar á byggingarvístölu getur þannig bitnað harkalega á þeim sem eru á leigumarkaði en jafnframt á þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og fólki sem ætlar sér að byggja. Þetta er alvarlegt í ljósi þess að fasteignamarkaðurinn er rétt að taka við sér eftir gríðarlega niðursveiflu og kaup- og leigumáttur hefur rýrnað verulega. Stúdentar hafa þegar gagnrýnt hækkun byggingarkostnaðar vegna stúdentaíbúða við Oddagötu sem mun leiða til hærri leigukostnaðar .
Rétt er að taka fram að ýmis ákvæði byggingarreglugerðar eru til bóta og þá sérstaklega það sem snýr að aðgengismálum. Samstaða er um það í þjóðfélaginu að greiða beri götur húsbyggjenda við erfiðar aðstæður. Byggingarreglugerðin virðist fara í öfuga átt. Það er gagnrýnisvert að reglugerðin hafi verið sett án þess að séð verði að mat hafi verið lagt á kostnaðaráhrif".

Áheyrnarfulltrúi vinstri Hreyfingarinnar Græns framboðs Torfi Hjartarson óskaði bókað. " Bókun sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur hér fram í skipulagsráði um áhrif nýrrar reglugerðar á byggingarkostnað fyrir ungt fólk og stúdenta er reist á staðhæfingum sem eru að mestu úr lausu lofti gripnar og hvíla hvorki á vönduðum úttektum né rannsóknum. Eins og sjá mátti af kynningu Mannvirkjastofnunar hér í ráðinu nýverið og greint hefur verið frá miklu víðar að undanförnu er ekki hægt að fjalla um meintan kostnaðarauka af reglugerðinni með einföldunum og sleggjudómum eins og hér er gert.
Reglugerðin skapar nýtt umhverfi fyrir húsbyggjendur, opnar nýjar leiðir og býður upp á lausnir sem kalla fram aukin gæði, sparnað og mikla þjóðhagslega hagkvæmni til lengri tíma. Í kynningunni kom líka fram að reglugerðin hvílir á áralöngum undirbúningi og samráði við fjölda aðila, þar á meðal umfangsmiklu samráði við stúdenta um ýmis ívilnandi ákvæði um námsmannaíbúðir".




294. fundur 2012
Byggingarreglugerð, kynning
Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar kynnir nýja byggingarreglugerð

Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 12:00
Gísli Marteinn Baldursson og Kristín Soffía Jónsdóttir véku af fundi kl 12:07

Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar kynnti.