Geirsgata, stokkur

Verknúmer : SN080415

151. fundur 2008
Geirsgata, stokkur, umferðarskipulag við TRH
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. október 2008 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu um að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við svokallaðar stokkalausnir við Geirsgötu og Mýrargötu.
Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri, kynnti.

141. fundur 2008
Geirsgata, stokkur, umferðarskipulag við TRH
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. júní 2008 vegna samþykktar borgarráðs 5. s.m. að vísa bréfi samgöngustjóra frá 2. s.m. til umhverfis- og samgönguráðs, skipulagsráðs og stjórnar Faxaflóahafna, orðsending skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. júní 2008 ásamt bréfi hafnarstjóra frá 11. s.m.

Einnig er lögð fram eftirfarandi tillaga samgöngustjóra, dags. 9. júlí 2008;
"Lagt er til að Mýrargata og Geirsgata verði lagðar í samfelldan lokaðan stokk frá Ánanaustum að Sæbraut til móts við Faxagötu. Lagt er til að á yfirborði verði gert ráð fyrir almenningssamgöngum, þ.e. bæði fyrir strætó og að einnig verði frátekið svæði fyrir mögulegt léttlestarkerfi. Gera skal ráð fyrir hjólareinum. Gerð verður tillaga að hámarkshraði bílaumferðar verði ekki meiri en 30 km á klukkustund.
Samkvæmt umferðarspá ráðgjafa fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir umferð á Geirsgötu til móts við Tollhúsið verði 31 þúsund bílar á sólarhring á yfirborði í útfærslu í samræmi við fyrsta áfanga. Áætlað er að í löngum stokk að Ánanaustum verði umferðin 22 þúsund bílar á sólarhring árið 2017. Umferðarspáin byggir á nýjustu áætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og var gerð í tengslum við endurskoðun vegáætlunar. Miðað við framgreint umferðarmagn er því þörf fyrir fjórar akreinar í framlengdum stokk svo að hann anni vel umferðinni á þeim tímapunkti.

Enn fremur hefur verið gerð umferðarspá fyrir 15 þúsund manna byggð á fyllingum við Örfirisey, þessu til viðbótar. Umferð í löngum stokk er áætluð 37 þúsund bílar á sólarhring miðað við þær forsendur.
Framlögð tillaga samþykkt með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Frjálslyndra og óháðra og Samfylkingarinnar Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar, Grænt framboð Álfheiður Ingadóttir sat hjá við afgreiðslu málsins og óskaði bókað

"Fulltrúi Vinstri grænna hefur miklar efasemdir um að það sé góð lausn fyrir miðborgina að leggja stokk frá gamla útvarpshúsinu að Ánanaustum. Við teljum að talsvert skorti á heildarsýn þessarar framkvæmdar, svo sem áfangaskiptingu hennar og inn- og útkeyrslur í stokkinn. Við teljum brýnt að umferðin í miðborginni miðist við fjölbreytta ferðamáta þannig að strætó, reiðhjól, gangandi og akandi verði gert jafnhátt undir höfði og verði öll á sama plani á jafnréttisgrundvelli. Svokallaður Geirsgötustokkur er afar dýr leið og mun kosta Reykvíkinga milljarða sem nær væri að nýta með öðrum hætti í þágu umferðarskipulags framtíðar. Ég sit því hjá við afgreiðslu málsins."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Frjálslyndra og óháðra óskuðu bókað;
"Undir forystu Vinstri Grænna var umferð á svæðinu skipulögð með þeim hætti að bílaumferð átti að vera á brú framan við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið og gangandi vegfarendum hefði verið skipað í löng undirgöng. Gangnamunni fyrir Mýrargötustokk hefði svo opnast við vesturhluta miðbakkans. Þetta skipulag var í gildi þar til á þessu kjörtímabili, þegar ákveðið var að endurskipuleggja umhverfi tónlistar- og ráðstefnuhússins með hagsmuni gangandi vegfarenda og vistvænna samgangna að leiðarljósi.
Samfelldur stokkur frá Sæbraut í austri að Ánanaustum í vestri mun skapa tækifæri til að hanna fallegt borgarumhverfi á yfirborði, þar sem gangandi, hjólandi og almenningssamgöngum er gert hátt undir höfði. Bílar munu aka hægt í gegn, ólíkt hraðbrautarskipulaginu sem áður var gert ráð fyrir."