Vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu

Verknúmer : SN070083

84. fundur 2007
Vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, forgangsröðun
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 9. febrúar 2007 vegna afgreiðslu borgarráðs frá 8. febrúar 2007 varðandi vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.


83. fundur 2007
Vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, forgangsröðun
Kynning á tillögum sveitarfélaganna til vegaáætlunar árin 2007-2010 og langtímaáætlun til 2018.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks; Hanna Birna Kristjánsdóttir, og Snorri Hjaltason og fulltrúar Framsóknarflokks; Gunnar B. Hrafnsson og Brynjar Fransson óskuðu bókað:
Áætlunin sem hér er lögð fram lýsir með skýrum hætti vilja og metnaði nýs meirihluta í samgöngumálum í borginni. Þar ber hæst tillaga um mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut auk annarra verkefna sem löngu er orðið tímabært að ráðast í. 1. áfangi Sundabrautar er fjármagnaður með hluta af sölu Símans og er gert ráð fyrir fjármagni til 2. áfanga í þessum tillögum. Með þessu má sjá skýran vilja meirihlutans til stórsóknar í samgöngumálum í höfuðborginni.

Fulltrúar Samfylkingarinnar; Dagur B. Eggertsson og Stefán Benediktsson óskuðu bókað:
Það er margt vel unnið og fróðlegt í skýrslu forsvarsmanna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um forgangsröðun vegaframkvæmda. Mikilvægt er að stokkalausnir á móts við Klambratún og á Mýrargötu eru komnar í fyrsta forgang. Það eru þó vonbrigði að enn sé ekki kominn almennur skilningur á því á höfuðborgarsvæðinu að Öskjuhlíðargöng sé miklu brýnni framkvæmd og dreifi umferð betur en þriggja hæða mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar-Miklubrautar sem aðeins auka á nærlægan umferðarvanda ef ekki er samhliða ráðist í fjölda umfangsmikilla og dýrra framkvæmda á næstu gatnamótum. Öskjuhlíðargöng ættu því að vera í fyrsta forgangi miklu fremur en mislæg gatnamót.


Nýframlögð samgönguáætlun samgönguráðherra gerir umræður um forgangsröðun á vettvangi borgarstjórnar þó nánast óþarfar og getur varla talist annað en blaut tuska framan í höfuðborgarsvæðið. Því hlýtur að verða mótmælt í borgarstjórn og á þingi þar sem nánast engum óskum sveitarfélaganna er mætt. Uppbyggingu hafnarsvæða við Mýrargötu og Örfirisey er í uppnámi því Mýrargötustokk er hvergi að finna á fjögurra ára áætlun. Enn þarf að búa við óviðunandi óvissu um fjármögnun Sundabrautar í einum áfanga alla leið. Augljóst er að ekki verður hafin uppbygging á Geldingarnesi við þær aðstæður. Miklubrautarstokkur er ekki á dagskrá samgönguráðherra fram til 2018 ! Meira að segja mislæg gatnamót á Kringlubraut-Miklubraut eru aðeins hálf á fjögurra ára áætlun og tengdar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að þau nái markmiðum sínum er hvergi að finna. Því er ljóst að af þessum margræddu mislægu gatnamótum verður ekki á yfirstandandi kjörtímabili borgarstjórnar. Aðeins mislæg gatnamót í Elliðaárdal, á móts við Bústaðarveg, eru að fullu í samgönguáætlun næstu ára sem hlýtur að teljast merkileg sending samgönguráðherra því þeim hefur borgarráð einhuga hafnað.

Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs; Svandís Svavarsdóttir og áheyrnarfulltrúi Frjálslyndra- og óháðra; Ásta Þorleifsdóttir óskuðu bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og F-lista í umhverfis- og framkvæmdaráðum hafa nú þegar lagt fram tillögur er varða forgangsröðun vegaframkvæmda sem voru í þágu forgangsakreina Strætó á kostnað mislægra gatnamóta. Tillagan var felld.

Pólitískt dugleysi einkennir málsmeðferð meirihlutans hvað varðar forgangsröðun vegaframkvæmda sem lögð verður fram á Alþingi nú í vikunni. Þótt örstutt kynning hafi farið fram á þessu stórpólitíska máli í fagráðum hefur ekki verið veitt svigrúm fyrir lýðræðislega umræðu og tillöguflutning, gögn hafa borist seint og með eftirgangsmunum og málsmeðferð virðist óljós.

Á síðasta borgarstjórnarfundi kom stefnuleysið enn í ljós, þar sem ekki virtist hafa verið ákveðið hvort, né heldur hvaða ráð myndi afgreiða málið. Áætlun Vegagerðarinnar til næstu 12 ára varðar að sjálfsögðu borgarbúa alla, skipulag, umhverfi og framkvæmdir í borginni. Því hefði verið óskandi að framsýnn og stórhuga meirihluti tæki málið föstum tökum með hagsmuni borgarbúa og umhverfis að leiðarljósi. Svo er því miður ekki.