Hlemmur og nágrenni,

Skipulags- og byggingarnefnd

163. fundur 2004

Ár 2004, mánudaginn 14. júní kl. 09:00, var haldinn 163. fundur skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 3, 4. hæð. Viðstaddir voru: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þorlákur Traustason, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Halldór Guðmundsson og áheyrnarfulltrúinn Sveinn Aðalsteinsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Salvör Jónsdóttir, Ólafur Bjarnason, Helga Bragadóttir og Stefán Finsson. Auk þess gerðu eftirtaldir embættismenn grein fyrir einstökum málum: Jóhannes Kjarval. Fundarritari var Ívar Pálsson.
Þetta gerðist:


Umsókn nr. 40296 (01.22)
1.
Hlemmur og nágrenni, deiliskipulag
Lögð fram forsögn skipulagsfullltrúa að deiliskipulagi Hlemms og nágrennis, dags. júní 2004. Einnig lögð fram drög Teiknistofunnar Þverár, dags. 14. júní 2004, að deiliskipulagi svæðisins. Jafnframt lagt fram að nýju bréf Ásgeirs Eiríkssonar framkv.stj. dags. 5. apríl 2004 varðandi tillögu að nýju leiðakerfi Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu.
Anna Kristinsdóttir tók sæti á fundinum kl. 9.10.

Samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og auglýsa hana til kynningar að því loknu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd eru andvígir fyrirliggjandi tillögu um róttækar breytingar á svæðinu í kringum Hlemm. Tillögurnar eru ekki nægilega vel unnar og taka hvorki mið af hagsmunum miðborgarinnar, íbúa eða þeirra sem þangað vilja leggja leið sína. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka að öðru leyti undir svohljóðandi bókun fulltrúa flokksins vegna málsins í samgöngunefnd þann 1. júní en þar sagði:
"Svæðið umhverfis Hlemm er afar mikilvægt fyrir Miðbæinn og borgina alla. Svæðið er einskonar hlið að Miðborginni, bæði nú og í sögulegu ljósi. Þær róttæku breytingar á umferðaskipulagi svæðisins sem nú eru kynntar í (samgöngunefnd), bera öll merki þess að hafa verið unnar í flýti og án þess að nauðsynlegur stuðningur og framtíðarsýn kæmi frá pólitískum borgaryfirvöldum. Fyrir vikið samþykkir meirihlutinn tillögu sem vafalítið mun skapa margvísleg vandamál í umferðinni á svæðinu, mun hamla eðlilegri umferð á mestu verslunargötu borgarinnar, Laugaveginn, og jafnvel bera umferð inn í íbúðahverfi. Þá er verið að stórauka umferð á Skúlagötu, sem er íbúðagata, með fyrirséðum truflunum m.a. vegna hljóðvistar, án nokkurra tillagna um úrbætur. Það er staðföst trú sjálfstæðismanna í nefndinni að hinir ágætu umferðafræðingar borgarinnar gætu fundið mun betri lausn fyrir Strætó og Hlemmsvæðið ef pólitísk forysta, tími og peningar væru til staðar í samgöngumálum svæðisins."

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Fyrirliggjandi tillaga tryggir aðstöðu fyrir Strætó b.s. á Hlemmi svo hægt sé að innleiða nýtt leiðakerfi og efla með því almenningssamgöngur. Færlsla Laugavegar austan við Hlemm bætir mjög skipulag umferðar á svæðinu og tryggir gott aðgengi að miðborginni. Lögð er áhersla á að áfram verði unnið að framtíðarskipulagi svæðisins.