Hámarkshraði á höfuðborgarsvæðinu

Skjalnúmer : 7933

11. fundur 1998
Hámarkshraði á höfuðborgarsvæðinu,
Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 7.5.98, varðandi erindi ríkislögreglustjóra um heildarendurskoðun á hámarkshraða á höfuðborgarsvæðinu.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir svofellda bókun:
#Skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur telur nauðsynlegt að skipaður verði samráðshópur um heildarendurskoðun á hámarkshraða samkvæmt umferðarlögum á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri endurskoðun þarf ekki aðeins að huga að því hvar næst á að hækka hámarkshraða til samræmingar, heldur einnig hvar nauðsynlegt er að lækka hámarkshraða til að stuðla að auknu umferðaröryggi. Í bréfi lögreglustjóra frá 14. apríl s.l. kemur fram að við heildarendurskoðun á hámarkshraða samkv. umferðarlögum sé áskilið að leitað verði atbeina viðkomandi lögreglustjóra sveitarfélags auk Vegagerðarinnar. Eðlilegt er að samráðshópurinn verði skipaður fulltrúum frá þessum aðilum. Formanni skipulags- og umferðarnefndar, Borgarskipulagi og borgarverkfræðingi er falið að skipa hópinn.#


8. fundur 1997
Hámarkshraði á höfuðborgarsvæðinu, upplýsingaskilti
Margrét Sæmundsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu um nýjar leiðir til þess að fá ökumenn til þess að virða hámarkshraða umferðar: Lagt er til að Reykjavíkurborg kaupi tvö færanleg upplýsingaskilti sem sýnir hraða þeirra ökutækja sem aka á móti því. Á skiltinu koma einnig fram upplýsingar um leyfilegan hámarkshraða á því svæði sem ekið er um. Skiltið er upplagt að nota í "eldri" 30 km. klst. hverfi borgarinnar. Vitað er að orsök margra umferðarslysa er of hraður akstur miðað við aðstæður. Í íbúðahverfum þar sem vænta má gangandi og hjólandi vegfarenda er sérstaklega mikilvægt að hámarkshraði sé virtur. Borgaryfirvöld hafa leitað ýmissa leiða til þess að fá ökumenn til að virða almennan hámarkshraða. Hraðahindrandi aðgerðir þrengingar, öldur og breytt yfirborð eru aðferðir sem hafa verið notaðar með góðum árangri um langt skeið. Skiltið er viðbót við þessar aðgerðir og jákvæð aðferð til þess að vekja ökumenn til umhugsunar um eigið aksturslag. Dæmi um skilaboð sem hægt er að koma á framfæri eru t.d. : Þú ekur á 60 km/klst. Hámarkshraði hérna er 30 km/klst. - Aktu hægar. Hvert skilti kostar það sama og tvær öldur.
Nefndin samþykkir samhljóða að beina þeim tilmælum til borgarverkfræðings og gatnamálastjóra að athuga með kaup á 2-3 skiltum eins og tillagan fjallar um.