Kirkjusandur 1-5

Skjalnúmer : 10092

22. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, ný tillaga, breytt aðalskipulag og deiliskipulag
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 8.10.96 á bókun skipulagsnefndar frá 7.10.96 um breytt aðalskipulag og deiliskipulag á Kirkjusandi 1-5.
Samþykkt skipulagsnefndar er í fjórum liðum; deiliskipulag, landnotkun, tillaga teiknistofunnar Óðinstorgs og umsögn Borgarskipulags um athugasemdir nágranna.
Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.
Jafnframt samþykkti borgarráð tillögu skipulagsnefndar um viðræður við umhverfisráðherra um framfylgd reglugerðarákvæða um hljóðvist. Borgarstjórn var falið að tilnefna fulltrúa í nefnd til að undirbúa viðræður.


21. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, ný tillaga, breytt aðalskipulag og deiliskipulag
Lagt fram til kynningar afrit af erindi Ármannsfells, dags. 20.09.96, um uppbyggingu á Kirkjusandi 1-5 til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, ásamt uppdráttum Teiknistofunnar Óðinstorgi, dags. 13.09.96 og bókun heilbrigðisnefndar, dags. 20.09.96. Einnig lögð fram ný tillaga Teiknistofunnar Óðinstorgi, dags. 04.10.96 og breytt tillaga að staðfestu deiliskipulagi við Laugarnesveg 89, dags. 4.10.96.


Skipulagsnefnd samþykkir deiliskipulagstillögur dags. 4.10.´96 með 2 atkvæðum gegn 1 ( Guðrún Jónsdóttir á móti, Guðrún Zöega og Gunnar Jóh. Birgisson sátu hjá). Samþykktin er gerð með fyrirvara um formlegt samþykki heilbrigðisnefndar varðandi hljóðvist.

Skipulagsnefnd samþykkir með 2 atkvæðum gegn 1 breytta landnotkun á lóðinni nr. 1-5 við Kirkjusand úr iðnanaðar- og athafnasvæði í íbúðarsvæði. (Guðrún Jónsdóttir greiddi atkv. á móti, Guðrún Zöega og Gunnar Jóh. Birgisson sátu hjá).

Skipulagsnefnd samþykkir með 2 atkv. gegn 1 erindi Ármannsfells hf. og tillögu Teiknistofunnar Óðinstorgi dags. 4.10.´96 (Guðrún Jónsdóttir greiddi atkv. á móti Guðrún Zöega og Gunnar Jóh. Birgisson sátu hjá). Jafnframt var gerð svofelld bókun. "Samþykkt þessi er gerð í ljósi þess að starfsemi við reykingu matvæla á aðliggjandi lóð verði lögð af eða verði breytt þannig að skilyrði heilbrigðiseftirlits verði uppfyllt"

Skipulagsnefnd samþykkir með 2 samhljóða atkv. umsögn Borgarskipulags dags. 24.07.´96 um athugasemdir nágranna, sem bárust eftir auglýsingu skipulagstillagna og áréttar jafnframt að frá því að tillögurnar voru auglýstar hefur íbúðum verið fækkað. (Guðrún Jónsdóttir, Guðrún Zöega og Gunnar Jóh. Birgisson sátu hjá).

Guðrún Ágústsdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir óskuðu bókað:
"Í samþykktri deiliskipulagstillögu felst að skipulagsnefnd heimilar fyrir sitt leyti að byggðar verði þrjár íbúðablokkir á lóðinni, tvær 6 hæða og ein 5 hæða, en byggingarrétthafi er Ármannsfell hf.

Rökin sem að baki búa eru:
- Í fyrsta lagi er það mun vinsamlegra gagnvart þeirri byggð sem fyrir er á svæðinu að þarna komi íbúðabyggð en iðnaðarbyggingar.
- Í öðru lagi hefur tillagan í för með sér heldur minni útsýnisskerðingu heldur en áður staðfest deiliskipulag frá 1990 gerði ráð fyrir. Skv. því var heimilt að reisa allt að 14,3 metra hátt samfellt stórhýsi á lóðinni.
- Í þriðja lagi bætir það ásýnd borgarinnar að auka íbúðabyggð meðfram strandlengjunni í stað iðnaðaruppbyggingar.
- Í fjórða lagi styrkir íbúðabyggð á þessum stað hverfið og innborgina í heild og þétting byggðar stuðlar að minni bifreiðaakstri og fellur að meginmarkmiðum núverandi aðalskipulagsvinnu um bætt umhverfi og minni umferð einkabíla.

Ennfremur skal bent á:
· Útreikningar á hljóðstigi miðast við hávaða frá áætlaðri umferð árið 2016 ef spár um umferðaraukningu ganga eftir.
· Ef og þegar byggð verður hljóðmön við Listaháskóla Íslands mun hljóðstig utan við vegg húsanna á Kirkjusandi lækka um allt að tvö desibel að mati Hollustuverndar ríkisins.
· Að byggðar verða íbúðir á svæðinu með mun fullkomnari hljóðvörnum en áður hefur þekkst.
· Samkvæmt mengunarvarnarreglugerð frá 1994 eru gerðar meiri kröfur en áður þekktist um hljóðvist í nýjum húsum í hinum grónu hverfum borgarinnar. Í fyrstu tillögum Ármannsfells, þar sem gert var ráð fyrir 6, 7 og 9 hæða húsum, náði hljóðstigið utan við vegg allt að 70 desibelum eins og heimilt væri ef um endurnýjun eldri byggðar væri að ræða.
· Borgaryfirvöld hafa skilgreint svæðið sem nýbyggingasvæði og felur það í sér að gerðar eru kröfur um betri hljóðvist en þegar um endurbyggingarsvæði er að ræða. (Samkvæmt þeim reglum sem gilda um endurbyggingarsvæði hefði hljóðstig fyrir utan glugga í helmingi íveruherbergja mátt vera allt að 70 db (A).)
· Sú skipulagstillaga sem nú liggur fyrir felur í sér að komið er verulega til móts við athugasemdir og ábendingar íbúa."

Guðrún Jónsdóttir óskaði bókað:
"Ég hlýt að harma þá ákvörðun , sem hér er tekin vegna þess að hún þjónar eingöngu þröngum sérhagsmunum á kostnað hagsmuna almennings í borginni.
Með samþykkt heilbrigðisnefndar um að heimila frávik frá hávaðaviðmiðun er búið að skapa fordæmi , sem leiðir til þess að héðan í frá er ekki hægt að miða við lögboðnar reglur um hljóðstig í nýbyggð. Þar með er dregið úr þeim gæðakröfum sem gerðar eru til nýs íbúðarhúsnæðis í Reykjavík. Frávikið, sem samþykkt var, leyfir nær fjórföldun á leyfilegu hljóðstigi við húsvegg í nýrri íbúðarbyggð, sem er mikil hækkun. Þótt eingöngu sé miðað við umferðarmagn árið 2016 eða 27.000 bíla á sólarhring en ekki spána 2030 sem gerir ráð fyrir 32.000 bílum á sólarhring eins og eðlilegra væri miðað við líftíma bygginga.
Þá þykir mér ábyrgðarhlutur að þrengja helgunarsvæði Sæbrautar með þeim hætti sem hér var gert. Sæbraut er meginumferðaræð í Reykjavík og gegnir vaxandi hlutverki sem slík. Stórfé hefur verið varið til þessarar gatnagerðar. Sá hljóðtálmi (veggur) sem hér stendur til að reisa er einungis í 4m fjarlægð frá götubrún og gengur inn á núverandi helgunarsvæði Sæbrautar. Miðað við það umferðarmagn sem um götuna fer og mun fara í framtíðinni (32.000 bílar á sólarhring árið 2030) er þessi fjarlægð mjög lítil og væri trúlega nær lagi að tala um 10-15m fjarlægð frá götubrún að hljóðtálma. Fyrir því eru m.a. umferðaröryggisleg rök. Þá koma einnig til sjónarmið er snerta snjómokstur og hreinsun á götunni. Í þriðja lagi er veggur sá um 6m á hæð (samsvarar tveggja hæða húsi) sem menn hyggjast reisa þarna ekki augnayndi og í raun óásættanlegur á þessum stað að mínu mati. Ekki kæmi heldur á óvart þótt umhirða og viðhald mannvirkisins lenti á borgarsjóði er tímar líða. Þótt húsin hafi lækkað frá fyrri tillögum og grunnmyndir breyst get ég ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu. Rökin eru einkum þau sem ég hef tíundað hér að framan."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í Skipulagsnefnd óskuðu bókað:
"Fljótfærni og vandræðagangur meirihluta borgarstjórnar í þessu máli hefur verið með eindæmum. Graftrarleyfi var gefið út hinn 4. júní sl. eða mánuði áður en sá frestur rann út sem íbúar hverfisins og aðrir höfðu til þess að skila athugasemdum við breytta landnotkun og nýtt deiliskipulag á svæðinu. Þetta var gert án þess að fullnægjandi upplýsingar um hávaðamengun og aðra þætti málsins lægju fyrir. Síðar kom í ljós að hljóðstig er yfir þeim mörkum sem fram eru sett í mengunarvarnarreglugerð. Málið hefur nú í margar vikur velkst um borgarkerfið og meirihlutanum hefur hingað til ekki tekist að finna á því viðunandi lausn. Ljóst er að forystumenn R-listans gáfu verktakanum í upphafi loforð um að málið fengi jákvæða afgreiðslu og skýrir það vandræðagang þeirra. Með hliðsjón af vinnubrögðum meirihlutans í málinu og með hliðsjón af þeim breytingum sem verktakinn hefur látið gera á teikningum húsanna á hann, þ.e. verktakinn sér nokkrar málsbætur. Í ljósi þess munum við ekki leggjast gegn afgreiðslu málsins og sitjum hjá".

Guðrún Ágústdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir óskuðu bókað:
"Vísað er á bug fullyrðingum um fljótfærni og vandræðagang í máli þessu. Fá skipulagsmál hafa fengið jafn vandaða og nákvæma umfjöllun innan borgarkerfisins og einmitt þetta mál. Í bókuninni kemur fram sá misskilningur að Reykjavíkurborg beri að finna viðunandi lausnir. Það er hlutverk umsækjandans að skila inn tillögum til nefndarinnar í samræmi við lög og reglugerðir, sem þá tekur málið til faglegrar afgreiðslu. Minnihlutinn hefur átt fulla aðild að málinu allan tímann, en kýs að nota þetta mál til að fara í pólitískan skollaleik. Það er þeirra mál"

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd óskuðu bókað: "Allt frá því að byggingarverktakanum var gefið graftrarleyfi hefur meirhluti borgarstjórnar borið vissa ábyrgð á málinu. Með veitingu leyfisins í samráði við borgarstjóra og loforðum ýmissa fulltrúa meirihlutans var verktakanum gefið fyrirheit sem meirihlutinn hefur átt í vandræðum með að standa við. Enda hefur lengi verið leitað að lausn, sem meirihlutinn getur sætt sig við, án árangurs. Það er ekki pólitískur skollaleikur að gagnrýna vinnubrögð sem fela það í sér m.a. að graftrarleyfi sé gefið út áður en athugasemdafrestur rennur út. Það er ekki pólitískur skollaleikur að hafa áhyggjur af því að endanlegar tillögur brjóti gegn ákvæðum mengurnarvarnarreglugerðar um hljóðmengun"

Guðrún Ágústsdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir óskuðu bókað: "Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins eru fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast og eru í besta falli tilgátur. Þeim er vísað á bug"

Formaður skipulagsnefndar lagði fram svofellda tillögu:
"Skipulagsnefnd beinir því til borgarráðs að óskað verði eftir viðræðum við ráðherra umhverfismála um framfylgd reglugerðarákvæða um hljóðvist" Tillagan var samþykkt samhljóða.


17. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, ný tillaga, breytt aðalskipulag og deiliskipulag
Lagðar fram til kynningar tillögur um uppbyggingu á Kirkjusandi 1-5.

Forstöðumaður Borgarskipulags kynnti stöðu málsins. Byggingaraðili er að undirbúa gögn fyrir heilbrigðisnefnd. Frestað

16. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, deiliskipulag
Lagðar fram á ný tillögur að breyttu deiliskipulagi á reit 1.340.5 og landnotkun samkv. aðalskipulagi, sem auglýstar hafa verið skv. skipulagslögum. Ennfremur lagðar fram athugasemdir sem bárust vegna auglýstra breytinga á lóðinni nr. 1-5 við Kirkjusand og umsögn Borgarskipulags um þær, dags. 24.07.1996. Lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. 23.07.1996.
Einnig lögð fram eftirfarandi gögn:
Bréf skipulagsstjóra ríkisins, dags. 10.07.96.
Skýrsla varðandi hljóðvist byggðarinnar við Kirkjusand 1-5, dags. 12.07.96, undirrituð af Stefáni Guðjohnsen, Helga Hjálmarssyni og Hauki Magnússyni.
Skýrsla skrifst.stj. byggingarfulltrúa, dags.15.07.96, um samanburð á reglugerðum vegna hljóðstigs frá umferð.
Skýrsla Stefáns Guðjohnsen, f.h. Hljóðvistar - Hljóð- og raftækniráðgjafar ehf. dags. 16.07.96.
Umsögn Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, dags. 18.07.96.
Umsögn Hollustuverndar ríkisins, dags. 18.07.96.
Ennfremur lögð fram skýrsla Stefáns Guðjohnsen, Hljóðvist í húsum Ármannsfells að Kirkjusandi nr. 1, 3 og 5, dags. 21.07.96, ásamt uppdr. Helga Hjálmarssonar arkitekts, mótt. 23.07.96, af hljóðtálmum sem gert er ráð fyrir að fullnægi kröfu um 55 db (A) hljóðstig fyrir allar íbúðir.
Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða svofellda bókun:'
"Niðurstaða borgarlögmanns í minnisblaði hans, dags. 23.07.1996, er sú, að við meðferð fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu beri skipulagsnefnd að gera kröfu til þess, að tillagan uppfylli þau ákvæði, sem gr. 7.4.9. í byggingarreglugerð, sbr. viðauka 5 í mengunarvarnarreglugerð, kveður á um þegar um nýskipulag er að ræða. Sú niðurstaða er í samræmi við álit skipulagsnefndar.

Skipulagsnefnd tekur að svo stöddu ekki afstöðu til umsagnar Borgarskipulags, dags. 24.07.1996, um þær athugasemdir, sem bárust vegna auglýsingar á tillögum um breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi á reit 1.340.5 (lóðinni nr. 1 - 5 við Kirkjusand).

Með þeirri útfærslu, sem auglýst tillaga að deiliskipulagi á lóðinni nr. 1 - 5 við Kirkjusand gerir ráð fyrir, tekst ekki að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru í byggingarreglugerð og mengunarvarnarreglugerð um hljóðvist. Nefndin telur því ekki unnt að samþykkja fyrirliggjandi tillögu, en tekur að öðru leyti ekki afstöðu til breytinga á deiliskipulagi að svo stöddu.

Skipulagsnefnd getur ekki fallist á tillögu Helga Hjálmarssonar, arkitekts, dags. 23.07.1996, þar sem m.a. er gert ráð fyrir viðamiklum hljóðtálmum á borgarlandi, þ.e. á miðeyju og við akbrautarbrún Sæbrautar. Ekki er réttlætanlegt þegar um nýskipulag er að ræða að viðhafa svo miklar ráðstafanir, sem þar er gert ráð fyrir, til þess að tryggja viðunandi hljóðvist í nýjum húsum.

Tillögu um breytta landnotkun samkv. aðalskipulagi á Kirkjusandi 1 - 5 er frestað.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á, að uppbygging á lóðinni Kirkjusandur 1 - 5 þarf að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru í byggingarreglugerð og mengunarvarnarreglugerð til nýrra bygginga, þ.á m. um hljóðvist, án þess að viðhafa þurfi svo verulegar ráðstafanir til þess, að þær stórspilli umhverfinu. Í bókun nefndarinnar 25. mars sl. var þetta sjónarmið undirstrikað, en að mati nefndarinnar hefur umsækjandi með tillögum sínum ekki sýnt fram á, að leysa megi viðfangsefnið á viðunandi hátt.

Ennfremur samþykkir skipulagsnefnd samhljóða svohljóðandi bókun:
"Bókun skipulagsnefndar vegna ábendinga um framtíðar möguleika á uppbyggingu Listaháskóla á svæðinu.
Bréf frá Félagi um Listaháskóla Íslands, dags. 01.06.1996.
Bréf frá Listaháskóla Íslands, dags. 19.06.1996.
Bréf frá Bandalagi íslenskra listamanna, dags. 25.06.1996.
Þegar fyrir liggur formleg stofnun listaháskóla með stjórn og byggingarnefnd eru skipulagsyfirvöld í samræmi við hlutverk sitt tilbúin að aðstoða við skipulagsþætti varðandi framtíðarþarfir skólans og í samræmi við forsögn og þarfagreiningu. Umrædd lóð var auglýst til sölu og hefði verið rétt að grípa inn á því stigi málsins ef þörf var talin á auknu framtíðarsvæði.
Varðandi ábendingar og athugasemdir um umferð í og við hverfið vitnar skipulagsnefnd til samþykktar borgarráðs frá 30.04.96: "Lögð fram í borgarráði bókun umferðarnefndar frá 18.04.96 um útfærslu á aðkomu auk bókunar skipulagsnefndar frá 25.03.96. Borgarráð samþykkir að fela forstöðumanni Borgarskipulags og borgarverkfræðingi að vinna frekar að málinu."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulagsnefnd lögðu fram svofellda bókun:
"Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa vanþóknun sinni á meðhöndlun og afgreiðslu þessa máls af hálfu meirihluta borgarstjórnar.
1. Með vitund og vilja borgarstjóra var graftarleyfi gefið út þann 4. júní s.l. eða mánuði áður en frestur sá rann út, sem íbúar hverfisins og aðrir höfðu til þess að skila inn athugasemdum sínum við breytta landnotkun og nýtt deiliskipulag á þessu svæði.
2. Veiting graftrarleyfis undir slíkum kringumstæðum er fordæmislaus í sögu borgarinnar.
3. Með veitingu leyfisins var íbúum sýnt fádæma virðingarleysi og þeim gefið til kynna að athugasemdir þeirra skiptu engu máli.
4. Samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir þegar graftrarleyfið var gefið út var ljóst að hljóðstig var langt yfir þeim mörkum, (10-17 dB(A), sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Því er undarlegt að sjá borgarstjóra lýsa því yfir í fjölmiðlum núna, sjö vikum síðar, að ekki komi til greina að samþykkja frávik frá reglugerðum hvað varðar hljóðstig. Þessar yfirlýsingar undirstrika enn betur vandræðagang meirihlutans í þessu máli.
5. Með því að gefa út graftrarleyfi hefur meirihlutinn bakað framkvæmdaraðilanum tjón. Þar sem leyfið var gefið út með samþykki borgarstjóra mátti framkvæmdaraðilinn treysta því að meirihluti væri fyrir skipulagsbreytingunum og að málið fengi skjóta afgreiðslu í borgarkerfinu".

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í skipulagsnefnd lögðu fram svohljóðandi bókun:
"Meirihluti skipulagsnefndar vísar á bug bókun minnihluta um málsmeðferð og afgreiðslu máls af hálfu meirihluta borgarstjórnar.
Í fyrsta lagi var við útgáfu graftrarleyfis tekið skýrt fram að í því fælist á engan hátt nokkurs konar fyrirheit sbr. yfirlýsingu undirritaða af forstjóra Ármannsfells h.f., en þar segir m.a.: "Nýja lóðin verður nr. 1-5 við Kirkjusand þar sem nú stendur yfir kynning á nýju deiliskipulagi og breytingu á landnotkun, lýsir undirritaður því yfir, f.h. Ármannsfells h.f., að graftrarleyfi innifelur ekki skuldbindingu að hálfu Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi eða frekari framkvæmdir á lóðinni fyrr en skipulags- og byggingarnefndarþætti málsins er lokið og jafnframt að Ármannsfell hf. á enga kröfu á hendi Reykjavíkurborgar vegna útgáfu graftrarleyfis, þótt fyrirtækinu verði synjað um byggingarleyfi eða breytingar gerðar frá núverandi deiliskipulagstillögur".
Þar með er jafnframt vísað á bug fullyrðingum um virðingarleysi við íbúa hverfisins. Til sjónarmiða þeirra er og verður að sjálfsögðu tekið tillit. Í öðru lagi lágu endanlega samanburðargögn um hávaðamengun frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins ekki fyrir fyrr en 18. júlí s.l. og jafnframt voru uppi mismunandi skoðanir á því hvort svæðið teldist nýbyggingarsvæði eða endurbyggingasvæði. Úr því hefur nú verið skorið. Rétt er að vekja athygli á bókun minnihlutans gagnrýnir ekki málsmeðferð meirihluta skipulagsnefndar og hefði bókun þeirra því verið eðlilegri á öðrum vettvangi.


15. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, athugasemdir vegna kynningar
Lagðar fram athugasemdir sem bárust vegna auglýstra breytinga á skipulagi á lóðinni nr.1-5 við Kirkjusand og umsögn Borgarskipulags um þær.

Frestað. Borgarskipulagi falið að afla frekari gagna og upplýsinga .

14. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, hljóðvist
Steindór Guðmundsson frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins kom á fundinn og gerði grein fyrir athugunum sínum á hljóðstigi frá umferð á lóð nr. 1-5 við Kirkjusand.



12. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, kynning
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 7.5.96 á bókun skipulagsnefndar frá 25.3.96 um breytingu á staðfestu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1-5 við Kirkjusand, áður Lauganesveg 89. Ennfremur samþykkti borgarráð að auglýst verði breytt deiliskipulag skv. 17. og 18. gr. skipulagslaga.


07">7. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, kynning
Lögð fram að nýju tillaga Helga Hjálmarssonar, arkitekts, að uppbyggingu á lóðinni nr. 89 við Laugarnesveg. Ennfremur bréf hönnuðar, dags. 22.3.'96, og bréf hönnuðar og Steindórs Guðmundssonar, verkfræðings, dags. 21.3.'96, og bréf Reynis Vilhjálmssonar, landslagsarkitekts, dags. 16.3.'96
Skipulagsnefnd samþykkir erindið, enda verði við byggingu húsanna viðhafðar nauðsynlegar sértækar aðgerðir vegna hljóðvistar, sbr. bréf Helga Hjálmarssonar og Steindórs Guðmundssonar, dags. 21.3.'96.

5. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, kynning
Lögð fram til kynningar tillaga Helga Hjálmarssonar að uppbyggingu á lóðinni nr. 89 við Laugarnesveg.

Frestað.

4. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, landnotkunarbreyting
Lagt fram bréf borgarlögmanns f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 6.2.96 á bókun skipulagsnefndar frá 5.2.96 um Laugarnesveg 89, landnotkunarbreytingu.



3. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, landnotkunarbreyting
Lagt fram bréf Tryggva Gunnarssonar, hrl. f.h. Landsbanka Íslands, dags. 2.2.96, um breytingu á deiliskipulagi og aðalskipulagi á norðurhluta lóðar nr. 89 við Laugarnesveg þannig að landnotkun breytist úr iðnaðar- og athafnasvæði í íbúðarsvæði.

Skipulagsnefnd samþykkir að leggja til við borgarráð að óska eftir heimild til að auglýsa breytta landnotkun samkvæmt framansögðu, sbr. 17. og 18. gr. skipulagslaga.

1. fundur 1996
Kirkjusandur 1-5, ný tillaga, breytt aðalskipulag og deiliskipulag
Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs um samþykkt borgarráðs 12.12.95 á bókun skipulagsnefndar frá 11.12.95 um skipulag lóðar nr. 89 við Laugarnesveg.



28. fundur 1995
Kirkjusandur 1-5, skipting lóðar
Lagt fram bréf Tryggva Gunnarssonar hrl. f.h. Landsbanka Íslands, dags. 7.12.95, um skiptingu lóðar nr. 89 við Laugarnesveg.

Skipulagsnefnd samþykkir skiptingu lóðarinnar.